List í ljósi fékk Eyrarrósina
- verðlaunin afhent í Suðurnesjabæ fyrr í dag
Listahátíðin List í ljósi hlaut í dag Eyrarrósina, viðurkenningu fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Eyrarrósin var að þessu sinni afhent í Suðurnesjabæ en listaverkefnið Ferskir vindar, sem hlaut Eyrarrósina á síðasta ári, er með heimahaga í Garðinum.
„Við eigum ekki orð en erum gríðarlega þakklátar því þetta er ungt verkefni og hin verkefnin sem tilnefnd voru mjög flott – eins og alltaf,“ segir Sesselja Hlín Jónasardóttir, annar stofnanda og stjórnenda hátíðarinnar í samtali við vefinn Austurfrétt.is.
Hún tók á móti verðlaunum, sem afhent voru í Garði, ásamt Celiu Harrison, hinum stofnanda og stjórnanda Listar í ljósi. Eliza Reid, forsetafrú og verndari Eyrarrósarinnar, afhenti verðlaunin.
Á myndinni að ofan eru þær Sesselja Hlín Jónasardóttir og Celia Harrison ásamt Elizu Reid forsetafrú og Vigdísi Jakobsdóttur listrænum stjórnanda Listahátíðar í Reykjavík. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson