Lionsmenn gáfu Hlévangi tækjabúnað
Lionsklúbbur Njarðvíkur færði í gær hjúkrunarheimilinu Hlévangi tæki að gjöf að andvirði 1,5 milljónum króna. Um er að ræða tvö tæki, annars vegar fullkominn mæli sem mælir magn í þvagblöðru og sparar marga sjúkrahúsferðina að sögn þeira sem til þekkja. Hitt tækið er súrefnissía sem framleiðir súrefni úr andrúmsloftinu og leysir af hólmi fyrirferðarmikla súrefniskúta auk þess að minnka kostnað vegna kútaleigu og súrefniskaupa.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Lionsmenn í Njarðvík koma færandi hendi til Dvalarheimila aldraðra á Suðurnesjum því áður hafa þeir m.a. gefið lyftara og svokallaða skutlu. Klúbburinn á 50 ára afmæli á þessu ári.
Líknarsjóður klúbbsins hefur verið fjármagnaður með árlegu bílahappadrætti sem klúbburinn stendur fyrir á aðventunni. Suðurnesjamenn hafa ávallt stutt nálefnið dyggilega og er það von félagsmanna að svo verði einnig nú þegar sala á happadrættismiðunum hefst á næstunni.
VFmynd/elg