Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lingua Café hefst á ný
Mánudagur 10. október 2016 kl. 12:00

Lingua Café hefst á ný

- Fólk hittist á kaffihúsi og æfir sig í tungumálum

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og Café Petite hófu síðasta vor samstarf um að halda Lingua Café eitt kvöld í viku og í þessari viku hefst starfið á ný. Á Lingua Café fær fólk tækifæri til að þjálfa kunnáttu sína í ýmsum tungumálum. Góð þátttaka var í vor og að sögn Sveindísar Valdimarsdóttur, verkefnastjóra íslenskunámskeiða hjá MSS, gengu Lingua Café kvöldin í vor ljómandi vel og mættu á milli átta og tuttugu og fimm manns. Íslenskan var vinsælasta tungumálið en einnig var töluð spænska, enska og pólska. „Það var afar  blandaður hópur fólks sem mætti í  kaffi og tók þátt í spjalli og ýmsum uppákomum og margir sem eru nýfluttir til landsins komu einmitt með það að markmiði að kynnast nýju fólki og held ég að það hafi skapast vinskapur með mörgum þátttakendum,“ segir hún.

Haldið var orðabingó og fólk vann ýmis verkefni saman til að læra tungumál betur. Þau verkefni voru öll á íslensku og héldu Sveindís og aðrir kennarar utan um þau. Lingua Café er alþjóðlegt verkefni og eru sams konar kvöld haldin í Finnlandi, Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Allir eru hjartanlega velkomnir, jafnt íslenskt fólk sem erlent. Sveindís hvetur alla sem áhuga hafa á því að þjálfa sig í einhverju ákveðnu tungumáli að koma og láta á það reyna hvort ekki náist í spjallhóp á því máli því mikilvægt sé að hafa sem mesta fjölbreytni í hópnum. Fyrsta Lingua Café vetrarins verður haldið á miðvikudag, og verða þau haldin hvern miðvikudag og standa frá klukkan 20:00 til 21:30.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fjölbreyttur hópur mætti á Lingua Café og tók þátt í spjalli og ýmsum uppákomum.

Íslenska var vinsælasta tungumálið í fyrra en einnig var töluð spænska, enska og pólska.