Lína Rut og blindu krílin
Listakonan Lína Rut ætlar að búa í gamla bænum í Keflavík og einnig í litlu þorpi í Frakklandi
„Síðastliðin ár hef ég verið að fókusa mikið á Krílin mín, en það eru litlar fígúrur sem ég byrjaði að gera þegar kreppan reið yfir um 2008, þá hafði hugmyndin mallað með mér lengi en ég hafði aldrei tíma til að byrja. Þegar svo kreppan reið yfir þá taldi ég að ég myndi ekki selja mikið af málverkum, taldi að fólk myndi leita í minni og ódýrari verk. Það reyndist að vísu ekki rétt en það má segja að kreppan hafi valdið því að ég hrinti hugmyndinni í framkvæmd,“ segir listakonan Lína Rut sem býr í gamla bænum í Keflavík, nánar tiltekið í gamla prentsmiðjuhúsi Grágásar, en hún verður með sýningu á Ljósanótt 2023.
Lína hefur áður sýnt á Ljósanótt. Hún segist hafa verið að þróa hugmyndina og að krílafjölskyldan sé að stækka hægt og rólega. „Ég fókusa mikið á Blind Kríli, því mig langaði að láta gott af mér leiða og styðja við Blindrafélagið á Íslandi. Blind Kríli eru fígúrur þar sem búningurinn sem þær eru í fer yfir augun, þannig að augun sjást ekki heldur einungis munnur og nef. Það er gaman að segja frá því að fyrst þótti mörgum Blindu Krílín „creepy“ og margir vildu Kríli með augum, en í dag er því öfugt farið, flestir kjósa Blind Kríli. Það er einsog margir hafi bara þurft einhvern tíma til að venjast þeim. Fyrir rúmu ári opnaði ég í sal á Hverfisgötu 108, margir skilja ekki af hverju þar er alltaf lokað, en ég var ekki að opna verslun heldur er fókusinn á sýningarrými þar sem ég hef krílin til sýnis. Ég hitti svo fólk þar að sjálfsögðu eftir hentugleika. Krílin njóta sín mun betur að ég tel þegar fólk sér þau með berum augum. Ég næ mikið til túrista þarna og mig langar að dreifa verkunum út um allan heim.“
Fiðrildaáhrif
Undanfarið hefur staðið yfir sýning hjá Línu Rut í Gallerí Fold, við Hlemm en það er langt síðan hún hélt sýningu á Íslandi, eða 2005. „En ég hef sýnt víða erlendis, í Kaupmannahöfn, Amsterdam, Lúxemborg og síðasta einkasýningin mín var í íslenska sendiráðinu í London 2017.
Sýningin heitir Fiðrildaáhrif eða „The Butterfly Effect“. Þar sýni ég 20 málverk. Í sýningaskrá stendur m.a. „Líta má á list mína sem ferðalag, litað bæði af áföllum og gleði. Ég sé fyrir mér gjörðir og tilfinningar sem eru tengdar á ósýnilegan hátt, um leið eru þær flæktar inn í daglegt líf okkar. Smátt og smátt hleðst eitthvað upp innra með okkur, eitthvað sem erfitt er að henda reiður á eða nefna og á örskotsstundu getur öll tilvera okkar kollvarpast. Vængjasláttur fiðrildis getur valdið ringulreið sem hefur áhrif á nálæg laufblöð, blóm og önnur fiðrildi og jafnvel valdið stormi víðsfjarri. Líkt og fiðrildaáhrifin, geta ótengd atvik og tilfinningar tengdar þeim haft stórvægilegar afleiðingar í lífi hvers og eins. Þau geta borið í sér þann kraft að umbreyta manneskju alfjörlega, bæði andlega og líkamlega og hafa áhrif á allt umhverfis hana. Hvernig finnum við leið til að lifa með áföllum og gleðinni sem innra með okkur býr? Minningunum um allt sem var og þá mögulegu framtíð sem þær eitt sinn áttu. Gærdagurinn skapar daginn í dag, dagurinn í dag sigrar gærdaginn og skorar jafnframt á morgundaginn og alla möguleika hans.“ Sýningin í Gallerí Fold stendur yfir til 2. september.
Heimili í Frakklandi og á Íslandi
Hvað er annað í gangi hjá listakonunni Línu Rut?
„Það er mikið að gerast, t.d. var ég loksins að fjárfesta í húsi í Suður Frakklandi. Þetta er eitthvað sem mig hefur dreymt um frá því að ég var í námi í París ung að árum. Ítalía og Spánn voru líka inni í myndinni og síðastliðið sumar fór ég ásamt yngsta syni mínum Nóa, í mánaðar ferðalag á bílnum mínum til að skoða og meta aðstæður. Við tókum Norrænu og keyrðum um og niðurstaðan var að fókusa á Frakkland og Ítalíu og ég fann rétta húsið í Frakklandi.
Ég keypti hús í mikilli niðurníslu, hluti af því er verri en fokheldur því ég þarf að byrja á að rífa út. Það er hvorki rafmagn né hiti en ég vildi hús í lélegu ástandi því ég vil taka allt í gegn og gera húsið að mínu. Ég byrjaði að leita fyrir alvöru fyrir um fjórum árum, var með ákveðin stíl í huga, ég fókusaði á iðnaðarhúsnæði eða húsnæði með gamla sjarmanum, skilyrði númer eitt var að hafa hátt til lofts og að vera ekki langt frá stórborg, þannig að það var mikil vinna sem fór í að skoða á netinu því það var erfitt að finna hús sem uppfyllti mínar óskir. Húsið sem ég keypti er í litlu þorpi og því ekki mikið um að vera þar en mér finnst gott að búa í rólegu umhverfi og sækja svo í ys og þys þegar þannig er gállinn á mér, svona eins og núna. Ég bý í rólegheitunum í Reykjanesbæ en get farið til Reykjavíkur þegar mig lystir. Það eru tuttugu mínútur í næsta bæjarfélag þar sem búa um 35.000 manns og þar fæ ég alla þá þjónustu sem ég þarf og það er einungis um klukkustund til Toulouse sem er kölluð Bleika borgin, því þegar sólin sest þá fellur bleik slikja yfir borgina sem er víst einstaklega fallegt. Þar búa um milljón manns. Í þorpinu mínu er þó kaffihús, banki og apótek og sitthvað fleira, þannig að bærinn er ekki algjör svefnbær.
Húsið verður gert upp á listrænan máta, en samt haldið ákveðnum einfaldleika.
Það að búa á meginlandinu mun auðvelda líf mitt mikið sem listamaður því ég ætla að halda áfram að sýna erlendis og það er dýrt og mikið vesen að koma verkum til útlanda. Þegar ég er í Frakklandi get ég sett verkin mín í bílinn og keyrt með þau nánast hvert sem er. Ég flyt þangað í haust og mun búa á báðum stöðum. Það hefur verið minn draumur frá því ég dvaldi í París að eiga heimili á tveimur stöðum til að fá að njóta þess besta úr báðum heimum.“