Mannlíf

Lilja kemur til Íslands til að keppa í fimleikum
Lilja með vinkonum sínum í landsliðinu á NM.
Föstudagur 20. júlí 2018 kl. 06:00

Lilja kemur til Íslands til að keppa í fimleikum

Lilja Björk Ólafsdóttir er 18 ára Keflavíkurmær og var hún að keppa á Norðurlandamóti í fimleikum. Þetta er í fyrsta skipti sem Lilja Björk keppir á Norðurlandamótinu í fullorðinsflokki, en Lilja hefur æft fimleika síðan hún var aðeins þriggja ára gömul, eða í heil 15 ár.

„Við stóðum okkur bara frekar vel sem lið fyrir utan það að við þurftum að telja eitt fall á slá. Mótið er þannig sett upp að við erum 5 í liði en síðan telja þrjár hæstu einkunnir á hverju áhaldi,“ segir Lilja Björk en hún keppti ásamt tveimur stelpum frá Björk og tveimur úr Gerplu. Sjálf æfir Lilja með fimleikafélaginu Björk í Hafnarfirði. Stelpurnar enduðu í 4. sæti í liðakeppninni og voru aðeins 0,2 stigum frá 3. sætinu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Lilja segist mjög sátt með sinn árangur á mótinu. „Ég var hæst af íslensku stelpunum í fjölþraut og endaði þar í 6. sæti. Ég komst síðan í úrslit á slá og var fyrsti varamaður inn á tvíslá. Ég endaði í 4. sæti á slá sem mér finnst vera frábær árangur fyrir mig.“

Lilja hefur búið í Bandaríkjunum síðan 2013 en hún kemur oft til Íslands til að keppa í fimleikum til að eiga möguleika á að vera valin í landsliðið. „Það er Evrópumót í Glasgow í byrjun ágúst og ég var að frétta að ég væri komin í það og er ég augljóslega mjög ánægð með það, það var markmiðið.“

Lilja er á leiðinni í háskóla í Bandaríkjunum í haust þar sem hún mun stunda nám við Seattle Pacific University og þar mun hún að sjálfsögðu æfa fimleika af fullum krafti. „Ég er að fara að vera í háskólafimleikum og er ég mjög spennt fyrir því.“

Á videoinu hér að neðan má sjá Lilju á Norðurlandamótinu.