Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Líkar vel við flökkulífið
Axel við sendiráðið í London. VF-mynd Eyþór Sæm.
Mánudagur 24. desember 2012 kl. 07:18

Líkar vel við flökkulífið

Keflvíkingurinn Axel Nikulásson hefur upplifað margt áhugavert í starfi sínu á síðustu tæpum tveimur áratugum. Hann hefur vegna starfa sinna búið í stórborgunum New York og Peking, en þessi dægrin er hann búsettur í London þar sem Eyþór Sæmundsson blaðamaður Víkurfétta heimsótti hann. Axel starfar sem sendiráðunautur í sendiráði Íslands í London en í því starfi felst ótalmargt. Allt frá því að gegna stöðu staðgengils sendiherra að því að sinna viðhaldi, mála eða spartla veggi, sé þess þörf. Sendiráðið er sem stendur við Hans Street í fínu hverfi Lundúnarborgar þar sem andrúmsloftið er frekar afslappað miðað við mörg önnur sendiráð. Jafnvel heimilislegt mætti segja.

Nokkur aðdragandi var að því að Axel hóf störf í utanríkisráðuneyti Íslands á sínum tíma en hann hafði fengist við ýmislegt áður en hann fetaði þessa slóð. Axel fór til Pennsiylvaníu í Bandaríkjunum ungur að aldri þar sem hann náði sér í gráðu í stjórnmálafræði ásamt því að spila körfubolta. Þar var Axel talsvert í félagslífinu og var m.a. talsmaður erlendra nemenda við skólann. Þá kviknaði áhugi hans á alþjóðamálum og hann sótti um í utanríkisráðuneyti Íslands í kjölfarið eftir að heim var komið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Axel á slóðum Mao formanns.

Það leið og beið og Axel heyrði ekki frá utanríkisráðuneytinu fyrr en átta árum síðar en þá var hann ráðinn til starfa. Þá hafði Axel m.a. verið að kenna sögu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja, en það kunni hann ákaflega vel við. Ásamt kennslustörfum sinnti Axel stöðu verslunarstjóra hjá Samkaup og fór þaðan til Körfuknatteikssambands Íslands til starfa. Axel var meira í kringum körfuboltann, en hann var um tíma ritstjóri tímaritsins Karfan, og þjálfaði einnig nokkur unglingalandslið Íslands.

Körfuboltinn ennþá aðaláhugamálið

Eins og gefur að skilja er Axel mikill áhugamaður um körfubolta enda var það stór partur af lífi hans áður fyrr og það er augljóst að íþróttin er honum afar kær.  „Ég fylgist alltaf með gangi mála í körfunni heima. Ég vafra mikið um þessar vefsíður sem fjalla um boltann og það sem ég hef séð þá virðist karfan sífellt vera að batna. Leikmenn eru alltaf að verða betri.“ Axel gerði garðinn frægan með Keflvíkingum á árum áður og hann minnist þess þegar hann byrjaði. „Körfuboltinn var ekki talinn líklegur til afreka en þá var Keflavík fótbolta- og handboltabær.“ Axel var mikill harðjaxl og þótti harður af sér á velli. Hann lék með Keflvíkingum um stund eftir að hann sneri heim úr námi en svo lá leiðin í KR þar sem hann átti góðu gengi að fagna bæði sem leikmaður og síðar þjálfari. Hann lagði svo skóna á hilluna þegar hann var þrítugur, á meðan enn var gagn af honum eins og Axel orðar það.

Frá árinu 1995 hefur Axel sinnt utanríkisstörfum. Fyrst um sinn í hefðbundnum skrifstofustörfum í Reykjavík en árið 1998 fór Axel til fastanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York. Þar dvaldi hann næstu fjögur árin. Hann var þar á eftirminnilegum tíma þegar árásin á tvíburtaturnana var gerð. Í New York er svokallaður áætlanapóstur, stofnunarstarfsstöð þar sem starfsemi er öll samkvæmt áætlun og lítið óvænt sem kemur upp á í hinu daglega starfi.

Á ferðalagi í Mongólíu.

Næstu þrjú árin starfaði Axel á Íslandi á auðlinda- og umhverfisskrifstofu utanríkisráðuneytisins, þar fékkst hann m.a. við Norðurskautsmál, fiskveiðisamninga og umhverfismál.
Næst lá leiðin til Kína þar sem Axel dvaldi næstu fimm árin. Þess tíma minnist hann með hlýhug en á meðan á dvöl hans stóð þar fóru m.a. fram Ólympíuleikarnir í Peking árið 2008. Þegar fjölskyldan bjó í Kína nýttu þau tímann vel og ferðuðust mikið um Asíu. Víetnam, Kambódía, Hong Kong, Tæland, Singapore, Malasía, Japan, Mongólía og Norður-Kórea eru meðal landa sem heimsótt voru. „Það var mjög spes að koma til Norður-Kóreu,“ rifjar Axel upp en hann fór þangað ásamt sendiherra Íslands í Kína, Gunnari Snorra Smára Gunnarssyni. Ekki er auðvelt að komast inn í landið og því greip Axel tækifærið þegar það gafst og var heimsóknin mjög eftirminnileg að hans sögn.

Þungur róður Suðurnesjamanna

Axel fylgist náið með málum heima í Reykjanesbæ. „Ég hef nú sopið hveljur stundum og þótt að mínum bæ sótt. Atvinnuástandið er eins og það er og fjármál bæjarins mjög erfið. Það er svo leiðinlegt allt þetta mál með Sparisjóðinn og það má segja að róðurinn fyrir Suðurnesjamenn sé þungur um þessar mundir. Keilissvæðið finnst mér áhugavert og ég fylgist grannt með gangi mála þar. Við þurfum ekkert að fara út í búð og kaupa okkur kaðal en við erum í holu, og þegar maður er í holu þá er útsýnið ekki alltaf gott. Þó ástandið sé e.t.v. erfitt er engin bót að örvænta eða sökkva sér í vonleysi.“

Bara töluð íslenska heima fyrir

Axel er fjölskyldumaður og er fjölskyldan ávallt með í för á flakkinu um heiminn. Saman eiga Axel og kona hans Guðný Reynisdóttir, sem einnig er Keflvíkingur, þrjú börn. Saman eiga þau Fríðu 17 ára, Egil 14 ára og Bjargeyju 7 ára. „Þetta myndi aldrei ganga nema öll fjölskyldan væri samstíga í einu og öllu,“ segir Axel en öll börnin hafa búið meirihluta ævi sinnar erlendis. Skólinn hjá þeim er alltaf á ensku en á heimilinu er lögð áhersla á að tala íslensku. „Við reynum að leiðrétta þau í íslenskunni en það var nú líka gert við mig þegar ég var krakki,“ segir Axel. „Þeirra heimur er eingöngu enskur nema þessar stundir sem þau verja með okkur. Þannig að þetta er töluvert meiri vinna en margur ætlar, að halda málinu við.“

Fjölskyldan í Kína. Frá vinstri: Egill, Bjargey, Axel, Fríða og Guðný.

Menning og fótbolti í London

Axel kann vel við sig í London. „London er auðveld borg ef maður t.d. ber hana saman við Kína, að því leytinu til að hér tala allir ensku. Ég get ekki kvartað því það er nóg um að vera hérna í London.“ Axel hefur verið í Ameríku, Evrópu og Asíu eins og áður segir og hver staður hefur sína stóru kosti og litlu galla að hans mati. Lífið í kringum skólana er mikið og ávallt eitthvað um að vera þar og mikil áhersla er lögð á þátttöku foreldra í skólastarfinu. Axel nýtur líka menningarlífsins og fer í leikhús og á sýningar þegar færi gefst. Hann fer einnig oft á fótboltaleiki og lifir sig inn í stemninguna þar. West Ham leikir verða oftast fyrir valinu að þar er andrúmsloftið magnað og tiltölulega auðvelt að nálgast miða. Liðið sem Axel styður eru þó Úlfarnir og hefur verið frá því á fyrstu árum í barnaskóla. Axel verður í London fram á næsta sumar a.m.k. en svo er ekki víst hvað tekur við, þannig er lífið í hans fagi. „Maður ræður ekki för en þú veist að þegar þú ferð í þessa vinnu þá kallar það á brottför að heiman og ferðalög, það er bara hluti af vinnunni. Ég lít bara á þetta sem einstakt tækifæri og fjölbreytnin við starfið gerir það svo skemmtilegt.“

Fjölskyldan verður að hafa nóg fyrir stafni en það er yfirleitt ekki vandamál í þessum stóru og lifandi borgum. Guðný kona Axels stundaði nám á meðan á dvöl þeirra í Kína stóð yfir en hún er heimavinnandi eins og er. Makarnir verða jafnan að fylla hjá sér daginn að sögn Axels og finna sér eitthvað að gera sem er oftast auðvelt því þátttaka foreldra í skólastarfi alþjóðlegra skóla er mjög mikil. Aðlögunin er þó fyrst og fremst aðallega hjá börnunum og konunni þar sem Axel er ávallt með nóg fyrir stafni vegna vinnu sinnar. Börnin eru vön því að hrærast í þessu umhverfi og skipta um skóla og skólafélaga reglulega. Þar er það oft þannig að mikil endurnýjun er meðal nemenda og jafnvel er það svo að fjórðungur nemenda yfirgefur skólana milli ára. Fyrir vikið venjast krakkarnir því að kynnast öðrum mjög fljótlega því umhverfið býður ekki upp á mikinn tíma til þess að kynnast hægt og rólega. Það á líka við um þau Axel og Guðnýju. „Þetta er þannig umhverfi að ókunnugt fólk kemur meira upp að manni og byrjar að spjalla ef við erum t.d. í einhverjum boðum. Þarna eru allir í sömu stöðu og umhverfi og þú verður bara að stökkva í djúpu laugina. Þetta er að mörgu leyti sérkennileg staða fyrst um sinn og það tekur smá tíma að venjast þessu.“

Eins og að vera í útlöndum

Í Peking þar sem fjölskyldan dvaldi í fimm ár eru á bilinu 15-17 milljónir íbúa og þar af eru rúmlega 200 þúsund útlendingar. Þeir mynda sitt eigið litla vestræna samfélag. Að sögn Axels var dvölin í Kína ógleymanlegur og skemmtilegur tími. Þar var allt annar menningarheimur. Axel ritaði bók um dvöl sína í Kína sem finna má á Bókasafni Reykjanesbæjar en upphaflega var bókin til í formi bloggsíðu sem Axel hélt úti. „Ég lýsi þessu stundum sem ljósmynd í orðum. Þetta eru mest hversdagslegir hlutir en þetta var á lokuðu bloggi og aðallega gert fyrir sjálfan mig.“ Það var svo gamall skólabróðir Axels úr Keflavík sem stakk upp á því að gefa þetta út eftir að hafa lesið bloggið. „Það voru nokkur eintök gerð og ég hef nánast náð að selja upp í kostnað,“ segir Axel og hlær en hann segir þetta fyrst og fremst hafa verið gert í gríni. Axel viðurkennir það að hann hafi ávallt haft gaman af því að skrifa en er ekki viss um hvort það blundi í honum rithöfundur.

„Kína var mjög framandi. Þar var allt öðruvísi. Hvort sem þú varst að kaupa mat eða föt eða fara á klósettið. Það var ekki neitt sem var eins og maður er vanur. Maður kemur í land þar sem maður er ótalandi, ólesandi og óskrifandi en auk þess er menning þeirra allt öðruvísi. Við grínuðumst oft með það að þetta væri hreinlega eins og að vera í útlöndum. Svo frábrugðið var þetta frá því sem við eigum að venjast. Kínverjar segja t.d. aldrei nei og alls kyns líkamstjáning er notuð í samskiptum fólks.“ Axel segist sakna Kína og dvölin þar var honum dýrmæt. „Það hljómar kannski asnalega að segja það en maður saknar oft þorpsandans í Peking. Þar eignaðist maður marga vini sem enn eru í góðu sambandi við okkur.“

Stefnir á Ólympíuleikana í Ríó 2016

Axel var staddur í Kína þegar Ólympíuleikarnir fóru fram þar árið 2008 en eins og kunnugt er fóru síðustu Ólympíuleikar fram í London síðastliðið sumar. Þar sótti Axel fjölda viðburða eins og hann hafði gert í Kína fjórum árum áður. Samstarfsfólk grínast stundum með það að opna verði ræðisskrifstofu í Ríó í Brasilíu til að koma Axeli fyrir grínast stundum með það við samstarfsfólk sitt að nú verði að opna ræðisskrifstofusendiráð í Ríó í Brasilíu þar sem næstu leikar fara fram árið 2016 en hann hefur segir mikla upplifun að vera viðstaddur þvílíkan stórviðburð. „Ætli eina leiðin sé ekki bara að fara sem keppandi. Maður verður bara að fara að koma sér í form,“ segir Axel og hlær dátt.

Barnaskóli sem hrundi í jarðskjálfta orðinn að minnismerki í Kína.

Í hinu daglega starfi getur mikið komið inn á borðið til Axels. Íslendingar sem lenda í vandræðum, týnd vegabréf, aðstoð við fólk í viðskiptahugleiðingum, viðskiptasamböndum komið á, menningartengd verkefni eins og að stundum þarf að setja upp málverkasýningar og þess háttar. Oft eru málin erfið eins og gengur og gerist, skilnaðir og forræðisdeilur, afbrotamál og fleira. „Þú veist í raun aldrei hvað er á skrifborðinu hjá þér þegar þú mætir til vinnu, það er það skemmtilega við þetta starf,“ segir hann.

En hvernig sérðu þetta fyrir þér, endar þú sem sendiherra? „Maður veit ekkert um það. Þetta eru hlutir sem maður ræður ekkert við og þá borgar sig ekkert að velta slíku fyrir sér og hafa áhyggjur af því. Maður fer heim eftir þennan tíma í London og svo fer maður annan rúnt eitthvert annað, hvert eða í hvaða stöðu, það verður bara að koma í ljós,“ en Axel telur að hann vilji þó ekki setjast að á Íslandi á næstunni þar sem honum líkar líf flökkukindarinnar vel og vill helst vera lengur en skemur erlendis.

„Ég held að mér myndi fljótlega kitla í iljarnar ef ég þekki mig rétt. Ég er kannski ekki þessi dæmigerði ævintýramaður en mér finnst gaman að sjá og upplifa nýja hluti og ferðalögin eru skemmtileg.“