Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Líkami, efni og rými - ný sýning opnuð í Listasafni Reykjanesbæjar
Miðvikudagur 14. nóvember 2018 kl. 09:11

Líkami, efni og rými - ný sýning opnuð í Listasafni Reykjanesbæjar

Sýningin Líkami, efni og rými verður opnuð í Listasafni Reykjanesbæjar 16. nóvember n.k. kl. 18.00.  Á sýningunni eru leiddar saman myndlistakonurnar Eygló Harðardóttir, Ólöf Helga Helgadóttir og Sólveig Aðalsteinsdóttir. Það sem helst tengir þær saman er afar sterk tilfinning fyrir efniskennd og hvernig verk þeirra hverfast um lögmál myndlistar, forma, lita, rýmis og tíma. Pappír er ríkjandi í verkum þeirra allra, en nálgunin við efnið er afar ólík.
 
Í verkum Eyglóar sem rannsakað hefur virkni lita, hefur jaðar efnisins jafn mikið gildi og miðjan og má oft greina smit lita í umhverfinu þar sem verkin eru sýnd. Í verkum Ólafar Helgu eru samsetningar og huglægar tengingar á skjön við það sem búast má við. Efnið sem hún notar sem uppistöðu í verk sín hefur sögulega merkingu sem er mjög persónuleg, en í höndum hennar umbreytist það í þekkjanlega hluti. Verk Sólveigar tengjast hugmyndafræðilegri list. Hún hefur í sumum tilfellum kortlagt umhverfi sitt og minningar með líkamlegum mælieiningum. Verk Sólveigar tengjast kjarna efnisins, miðju rýmisins og hafa sterk tengsl við tímann.
 
Sýningarstjóri er Inga Þórey Jóhannsdóttir og hún og listakonurnar verða með leiðsögn sunnudaginn 25.nóvember kl. 15.00. Sýningin stendur til 13. janúar 2019 og safnið er opið alla daga frá 12.00-17.00.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024