Líka hátíð fyrir þá sem halda að hún sé fyrir hina
List án landamæra í 6. sinn á Suðunesjum.
Átta spennandi viðburðir fara fram á árlegri listahátíð List án landamæra sem hefst á sumardaginn fyrsta og lýkur 4. maí. Á hátíðinni er áhersla lögð á fjölbreytileika mannlífsins þar sem horft er á tækifæri en ekki takmarkanir. List fólks með fötlum er komið á framfæri samstarfi komið á á milli fatlaðs og ófatlaðs listafólks.
Allir sem vilja geta tekið þátt. Á hátíðinni vinnur listafólk saman að alls konar list með frábærri útkomu. Það leiðir til auðugra samfélags og aukins skilnings manna á milli. Sveitarfélögin á Suðurnesjum í samvinnu við Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum, Hæfingarstöðina og Björgina geðræktarmiðstöð taka nú þátt í hátíðinni. Suðurnesjafólk er eindregið hvatt til að taka þátt í og njóta.
Í tilkynningu frá aðstandendum sýningarinnar kemur fram að sýnileiki ólíkra einstaklinga sé mikilvægur, bæði í samfélaginu, í samfélagsumræðunni og hefur bein áhrif á jafnrétti á öllum sviðum. Það er því ánægjulegt að sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa hlotið styrk frá Menningarsjóði Suðurnesja til verkefnisins. Listahátíð eigi erindi við okkur öll, líka þau sem halda að hún sé bara fyrir hina.
Gleði og jákvæðni ríkjandi
Davíð Örn Óskarsson vinnur að stuttmyndum með fötluðum en brot af þeim verður sýnt á undan sýningum í Sambíóunum á meðan á hátíðinni stendur. Davíð Örn segir góða upplifun að vinna með hressu fólki sem sér lífið allt öðru ljósi. „Gleðin og jákvæðnin sem fylgir þeim er eitthvað sem margir mættu taka sér til fyrirmyndar. Þetta er búið að ganga mjög vel. Við lögðum línurnar í febrúar og ákváðum við aðeins að slá á létta strengi og leika okkur aðeins. Erum með falda myndavél, stutta grín-sketsa og söngatriði.“ Davíð Örn segir að mest gefandi við að taka þátt í þessu sé að fá að kynnast þeim og sjá þeirra líf og hvernig þau vinna með sinni fötlun. „Þau eru svo ófeimin við að prófa nýja hluti og fara út fyrir þægindaramman, meira en flestir mundu þora. Hæfingarmiðstöðin eins og hún leggur sig tók þátt í þessu, allir mjög spenntir fyrir verkefninu og starfsmenn opnir fyrir því að aðstoða eins og þeir gátu,“ segir Davíð Örn.
Hver er í raun fatlaður?
Myndlistarkonan Lína Rut verður með sýningu í Bíósalnum ásamt syni sínum sem er einhverfur. Már, hinn sonur hennar, sem er blindur, er að semja lag með Villa Naglbít sem verður frumflutt við opnun. „Fljótlega eftir að Nói byrjaði að teikna tók ég eftir að það var eitthvað sérstakt og skemmtilegt við fígúrurnar hans. Mig hefur lengi langað til nota þær í verkin mín, og þegar list án landamæra höfðu samband við mig var það góð hvatning til að koma þeirri hugmynd í framkvæmd,“ segir Lína Rut. Hugmyndin frá upphafi hafi verið að taka verkin hans Nóa og blanda við hennar og líta á það sem fulla samvinnu þar sem hið barnslega, hráa og óhefta handbragð Nóa blandast fínlegum vinnubrögðum Línu Rutar.
„Það var alveg einstök ánægja að taka þátt í þessu verkefni með Nóa. Við sátum saman heilu tímana við að teikna, lita, klippa og auðvitað spjalla, eitthvað sem við gerum að vísu mikið af á mínu heimili, en aldrei fyrr með sýningu að leiðarljósi.“ Lína Rut segir að List án landamæra sé skemmtilegt og verðugt verkefni þar sem allir fái að njóta sín og frábær liður í að stuðla að hugarfarsbreytingu um fatlaða og líf þeirra. „Það má segja að við sem erum „heilbrigð“ fáum ákveðna forgjöf í vöggugjöf en það er hægt að lifa góðu og innihaldsríku lífi þrátt fyrir „fötlun“ eða heftingu af einhverju tagi. Margir fatlaðir vinna einstaklega vel úr sínum málum á meðan margir „heilbrigðir“ gera það ekki þannig að ég spyr mig stundum að því hver sé í raun fatlaður og hver ekki?“
Lína Rut ásamt öðrum syni sínum.
Láta ekkert stoppa sig
Bylgja Dís Gunnarsdóttir og Henning Emil Magnússon setja upp þriðja sviðsverkið með leikhópnum Bestu vinir í bænum þar sem áherslan verður á söngleikjatónlist. „Leiðin sem við ákváðum að fara í ár er að nota spuna til þess að sem mest komi frá þeim sjálfum. Þau eru sjálf mjög skapandi í þessu og ofsalega skemmtilegt að heyra þeirra frjóu hugmyndir og þau sem eru í 3ja árið í röð eru orðin mjög fær í að fara í karakter. Bylgja segir að mikið sé hlegið og jafnvel grátið. Mörg hver séu mjög opin fyrir því að allar tilfinningar eru eðlilegar. „Þegar uppi er staðið eiga þau sjálf mikið í þessu og finna að þetta er þeirra verk og þeirra hugmynd. Það gefur svo mikið að hafa kynnst mjög einstaklingum sem láta takmarkanir í lífinu ekki stoppa sig og sköpunargleði. Þau kunna að njóta augnabliksins,“ segir Bylgja Dís.