Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Liggur við að vera fullt starf eins og tíðin hefur verið síðustu vikur
Föstudagur 18. janúar 2008 kl. 14:45

Liggur við að vera fullt starf eins og tíðin hefur verið síðustu vikur

Vinnuvikan byrjaði með miklu fannfergi á Suðurnesjum, svo miklu að menn muna vart annað eins í langan tíma. Allt fór á kaf í snjó með tilheyrandi ófærð og vandræðum sem gjarnan fylgja svoleiðis herlegheitum. Þar kom björgunarsveitarfólk til sögunnar eins og svo oft áður þegar náttúruöflin láta á sér kræla og hrella mannfólkið.


Í Grindavík fóru allar samgöngur gjörsamlega úr skorðum á mánudaginn en þar varð fannfergið allra mest á Reykjanesskaganum. Björgunarsveitin Þorbjörn hafði því í nógu að snúast við að hjálpa fólki að komast leiðar sinnar í ófærðinni. Þá komu félagar úr sveitinni í veg fyrir stórtjón er þeir brutust í gegnum hríðarbylinn með nýjar súrefnisbirgðir til fiskeldisstöðvar utan við bæinn og mátti litlu muna að illa færi þar sem birgðir stöðvarinnar voru nánast á þrotum er björgunarsveitina bar að.


Bogi Adolfsson er formaður björgunarsveitarinnar Þorbjörns. Við náðum tali af honum á þriðjudaginn þar sem hann var á ferð um Grindavík ásamt félögum sínum í björgunarsveitinni.  Eiginlega var nokkurs konar annar í óveðri hjá þeim félögum sem voru að draga bíla úr sköflum og veita margvíslega aðra aðstoð við að koma hlutunum aftur í horf eftir hríðarbylinn daginn áður.


Bogi var inntur eftir því hvort það færi ekki að verða fullt starf að vera björgunarsveitarmaður, svona með hliðsjón af því sem gengið hefur á undanfarnar vikur.


„Ja, það liggur nú við,“ svarar hann hlæjandi. „Þetta er búin að vera nokkuð mikil törn undanfarið við leitir og margvíslega aðstoð í þessari leiðinlegu tíð sem verið hefur ríkjandi. Hvað varðar þessa snjókomu er hún með því mesta sem við höfum séð lengi í þeim efnum. Að við séum að störfum tvö daga í röð vegna sjókomu er eitthvað sem gerist mjög sjaldan,“ segir Bogi.


Hlutirnir voru smám saman að komast í horf á þriðjudaginn og snjómokstur stóð yfir. „Það tekur sinn tíma að moka, þetta er svo mikill snjór og erfitt að koma honum einhvers staðar fyrir,“ bætir Bogi við.

-Er ekki málið að sturta honum bara í höfnina?

„Það liggur við en þá myndi höfnin örugglega lokast, þetta er það mikið“ svarar hann og hlær. „Þetta er alveg fáránlegt magn,“ bætir hann við.
Þegar svona mikið mæðir á björgunarsveitarfólki eins og verið hefur undanfarið hlýtur það að verða fyrir talsverðu vinnutapi. Bogi tekur undir það en segir vinnuveitendur almennt sýna mikinn skilning og þolinmæði. Fólk fái svigrúm til að starfa með björgunarsveitinni og laun greidd sé það kallað út á vinnutíma.

Bogi hefur verið formaður sveitarinnar í þrjú ár en starfað með henni mun lengur. Hann var að lokum inntur eftir það hvað það væri sem drægi fólk inn í þetta.
„Það er ekki gott að segja. Ætli þetta sé ekki einhvers konar blanda af ævintýraþrá og forvitni við það að kynnast góðum félögum í gegnum starfið og láta gott af sér leiða.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024