Lifum í núinu, stöldrum við og njótum þess sem við eigum
Ragna Ingveldur Ragnarsdóttir er 41 árs og búsett í Njarðvík. Hún elskar lífið og tilveruna, er stolt móðir og amma og á von á öðru ömmukríli í sumar ... á þessum fordæmalausu tímum.
– Líturðu björtum augum til sumarsins?
Já, klárlega. Það þýðir ekkert annað en að halda í bjartsýnina og vona að allt fari á besta veg.
– Hver eru þín áhugamál og hefur ástandið haft áhrif á þau?
Mín helstu áhugamál eru útivera, hundar, ferðalög innan- sem utanlands auk samverustunda með fjölskyldu minni og vinum. Ég var búin að plana ferð til Spánar í mars sem því miður varð ekki af. Auk þess sem samverustundir eru nú í stafrænu formi í stað þess að njóta nærveru fólksins.
– Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi og hver er ástæðan?
Já, Skaftafell er í miklu uppáhaldi hjá mér. Ástæðan er sú að ég á svo margar hlýjar og góðar minningar þaðan frá barnæsku. Fjölskyldan ferðaðist mikið innanlands, á hinni þekktu fjólubláu rútu sem foreldrar mínir innréttuðu sem húsbíl, og fórum við ófáar hringferðir um landið og oftast var stoppað í Skaftafelli til að njóta þeirra náttúruperla sem þar leynast.
– Hvað stefnirðu á að gera í sumar?
Stefna mín er að ferðast innanlands og er nú þegar búið að ákveða mæðgnaferð þar sem við systur förum með móðir okkar að heimsækja hennar æskuslóðir.
– Hver voru plönin áður en veiran setti strik í reikninginn?
Stefnan var að ferðast erlendis en ég var ekki búin að festa niður nein ákveðin plön.
– Hvernig hefur tilveran verið hjá þér undanfarnar vikur, hefur margt breyst?
Tilveran hefur verið góð, þannig séð, þar sem engin úr minni fjölskyldu hefur sýkst af COVID-19 en mikill söknuður hefur verið að geta ekki umgengist ömmumúsina mína og kysst og knúsað fólkið mitt. Ég hef því þurft að láta mér nægja rafræn samskipti og símtöl.
– Finnst þér fólk almennt virða reglur tengdar samkomubanni?
Já, mér er ekki kunnugt um annað og vil ég halda í þá trú að fólk virði það.
– Hvaða lærdóm getum við dregið af heimsfaraldrinum?
Vera vel undirbúin undir heimsfaraldra sem geta skollið á með stuttum fyrirvara. Huga vel að heilsu okkur og efla heilbrigði sem hjálpar okkur að takast á við sjúkdóma sem geta komið upp. Einnig að minna okkur á að lifa í núinu því það er ekkert sjálfsagt í þessum heimi. Staldra við og njóta þess sem við eigum.
– Hvaða aðferðir ertu að nýta til að eiga í samskiptum við fólk?
Símtöl, FaceTime og Snapchat.
– Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?
Ég myndi hringja í móður mína þar sem við heyrumst á hverjum degi og myndi ég ekki vilja missa af því samtali.
– Ertu liðtæk í eldhúsinu?
Já, ég myndi segja það. Það kvartar alla vega enginn. Elska að prófa mig áfram í eldhúsinu og búa til nýja rétti. Ég á mjög erfitt með að fara eftir uppskriftum annarra og fer því bara mínar eigin leiðir í eldhúsinu.
– Hvað finnst þér skemmtilegast að elda?
Ég elska að prófa mig áfram og elda nýja rétti. Að undanförnu hafa fiskiréttir orðið fyrir valinu hjá mér enda getur maður útfært þá á svo marga vegu með fersku og góðu hráefni.
– Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Grillaður humar í hvítlaukssmjöri og rauðu vegan-bollurnar mínar.
– Hvað geturðu ekki hugsað þér að borða?
Súrmat, það mega aðrir njóta hans.
– Hvað var bakað síðast á þínu heimili?
Súkkulaðikaka að hætti systur minnar, Rannveigar heimilisfræðikennara í Sandgerðisskóla, sem sló algjörlega í gegn á mínu heimili.
– Ef þú fengir 2000 krónur, hvað myndir þú kaupa í matinn?
Vegan-hakk, vegan-pastasósu, sveppi, papriku, spaghetti og vegan-hvítlauksbrauð.
Hvaða spurningu hefðir þú viljað fá að svara í þessu viðtali? Hver er spurningin og svarið við henni?
– Hvað gerir þú til að láta þér líða vel á tímum sem þessum?
Huga vel að andlegri og líkamlegri heilsu. Langar göngur, elda góðan mat og spjalla við vini og ættingja þar sem húmorinn ræður ríkjum.