Lífshlaupið sett í Reykjanesbæ
- Kjartan bæjarstjóri sýndi góða takta í hraðabrautinni
Heilsu- og hreyfiátak Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Lífshlaupið, var sett í morgun í íþróttahúsinu við Sunnubraut með þátttöku nemenda úr Holtaskóla. Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hafsteinn Pálsson frá ÍSÍ fluttu stutt ávörp. Nemendur úr 1. og 2. bekk Holtaskóla tóku eitt lag og að lokum tóku nemendur í skólahreystivali ásamt Kjartani bæjarstjóri og nokkrum vel völdum aðilum þátt í léttri þraut í anda Skólahreysti. Kjartan þótti standa sig mjög vel og varð mönnum á orði að þetta lægi jafnvel fyrir honum og fiðluleikur.
Þetta er í tíunda sinn sem Lífshlaupið fer fram. Þátttaka hefur aukist jafnt og þétt en keppninni er skipt í fjóra hluta, það er vinnustaðakeppni, grunn- og framhaldsskólakeppni og einstaklingskeppni. Keppnin stendur yfir í þrjár vikur og hægt er að fylgjast með á lifshlaupid.is.
Starfsfólk Holtaskóla sigraði í Lífshlaupinu í fyrra í flokki vinnustaða með 30 til 69 starfsmenn. Markmið verkefnisins er að hvetja landsmenn til þess að fara eftir ráðleggingum Embættis landlæknis um hreyfingu. Allir landsmenn eru hvattir til að taka þátt og nota tækifærið til að rækta líkama og sál með því að hreyfa sig daglega.