„Lífsfylling að dútla í bátnum"
-segir Reynald Þorvaldsson 79 ára gamall sjómaður í Keflavík.
Sjórinn var spegilsléttur við smábátahöfnina í Keflavík og klakinn gerði stigann niður á aðra bryggjuna illfærann - lognið var algert og fáir á ferli við bryggjuna. Sjávarlyktin lá í loftinu og það var eins og hún magnaðist í frostinu. „Jú, jú, við getum svosem spjallað saman," sagði Reynald Þorvaldsson 79 ára gamall sjómaður þar sem hann dyttaði að bátnum sínum Má.
„Ja, ég hef nú verið á sjónum frá því ég man eftir mér. Mest var ég á 50 tonna bátum þegar ég var með eigin útgerð - annars hef ég prófað þetta allt saman," segir Reynald og beygir sig niður að vélinni í bátnum sem hann keypti fyrir um tveimur árum. „Þetta er 25 ára gamall bátur og ég þurfti að gera nokkuð mikið fyrir hann; hef svona verið að dútla í því," segir Reynald og bætir því við að hann hafi haft gaman af. „Það er svo mikil lífsfylling að hafa eitthvað svona til að geta hlaupið í eftir að maður er hættur að vinna. Maður færi miklu fyrr í gröfina ef maður hefði ekki eitthvað svona til að grípa í," segir Reynald brosandi og ýtir grænu húfunni upp á ennið.
Már er í toppstandi hjá Reynald og stundum er haldið til veiða. „Kílóið af fiskinum er dýrt sem ég sæki á bátnum þegar ég næ mér í soðið - það kostar nokkra þúsundkallana," segir Reynald og hlær. „En það er ekki það sem skiptir máli heldur það að hafa bátinn til að dunda mér við."
Sjötíu og sex ára gamall hætti Reynald útgerð en hann var síðustu árin með lítinn dekkbát sem hann gerði út frá Keflavík. „Ég er alveg sáttur við lífsstarfið," segir Reynald þegar hann er spurður út í sjómennskuferilinn. „Maður slapp án teljandi lífsháska og það er mikilvægast."
Reynald finnst mikil prýði að smábátahöfninni í Keflavík. Hann segir höfnina vera nauðsynlega til að smábátaútgerð þrífist í Keflavík. „Það var mikið framfaraskref fyrir bæjarfélagið þegar smábátahöfnin var byggð og svæðið allt í kringum höfnina er mikil bæjarprýði," segir hann og lítur fram í stýrishús á bátnum. Hann vill halda áfram að dytta að bátnum. Um leið og hann kveður ræsir hann bátinn, fer aftur á og lítur á vélina sem malar líkt og saumavél. Hann lætur jólastress landans örugglega ekki hafa áhrif á að hann drífi sig í róður á næstunni.
VF-myndir: Jóhannes Kr. Kristjánsson.