Líflegt kosningasjónvarp á Stöð 2
Kosningavaka Stöðvar 2 hefst formlega klukkan 20:30 á laugardag. Í raun má segja að kosningavakan hefjist með fréttum klukkan 18:30 því bein útsending verður frá myndveri Stöðvar 2 frá upphafi fréttatímans. Beinar útsendingar verða frá kjörstöðum um allt land og samtímis frá kosningahátíðum allra flokka.Páll Ketilsson mun fylgjast með talningu á Selfossi fyrir Stöð 2 og Bylgjuna þar sem atkvæði greidd í Suðurkjördæmi verða talin. Fjölbreytt skemmtidagskrá verður á dagskrá og munu hljómsveitirnar Írafár, Í svörtum fötum, Land og synir, Hundur í óskilum og Þrjár systur koma fram. Einnig munu strákarnir úr Popptíví vera með uppákomu. Kosningasjónvarpið mun vara fram eftir nóttu. Þór Jónsson varafréttastjóri fréttastofu Stöðvar 2 er umsjónarmaður kosningavöku Stöðvarinnar og sagði hann í samtali við Víkurfréttir að fréttamenn stöðvarinnar yrðu mjög hreyfanlegir. „Við leggjum áherslu á að þetta verði skemmtilegt og ekki síður fróðlegt. Við munum nota þá möguleika sem myndræn framsetning bíður upp á til hins ýtrasta og birta súlurit og aðrar myndir varðandi möguleika um stjórnarsamstarf og fleira. Það verður gestkvæmt hjá okkur og við munum spá í spilin með þingmönnum, formönnum flokkanna og fleiri aðilum.“ Kosningavaka Stöðvar 2 verður sjónvarpað í gegnum gervihnött og gefur þar með 25 þúsund íslendingum búsettum erlendis tækifæri á að fylgjast með kosninganóttinni á Íslandi.