Lífið væri tómlegra án hans
segir Gunnar Freyr Þórðarson, Sandgerði sem fermist í vor
„Ég er að fermast út af því að ég er að staðfesta skírnina mína. Ég hef lært fullt um Guð og Jesú í fermingarfræðslunni. Jesús var mjög góður maður sem gerði mikið af kraftaverkum. Hann kenndi okkur að koma vel fram við fólk. Stundum tala ég við hann inni í mér og bið um hjálp. Lífið væri tómlegra án hans,“ segir Gunnar Freyr Þórðarson, Sandgerði sem fermist í vor.
„Það er búið að vera mjög gaman hér í kirkjunni í vetur. Ég hef einnig verið í unglingastarfinu og mætt í messu. Að sjá það góða í fólki og í okkur sjálfum finnst mér vera partur af því að vera kristin. Siggi prestur er æðislegur, alltaf mikið stuð hjá honum, hann er með góðan húmor. Svo fannst mér mjög gaman í haust þegar við fórum í Vatnaskóg. Ég hlakka til að fermast, er búinn að bíða lengi eftir þessu. Eldri vinir mínir hafa sagt mér hvað þetta sé geggjaður dagur. Við ætlum að vera með hundrað manna veislu í Samkomuhúsinu í Sandgerði þar sem við bjóðum fjölskyldu og vinum. Það verða litlar pítsur og smáréttir. Við ætlum að hafa svart/hvítt þema í veislunni. Ég vil ekki vera í jakkafötum heldur ætla ég að vera í hvítri skyrtu, kannski með slaufu og svörtum fínum gallabuxum. Svo verð ég í hvítum strigaskóm. Ég er að safna hári fyrir klippinguna því ég er með hugmynd um hvernig hárið mitt á að vera. Ég er rosa spenntur.“