Lífið tók u-beygju
Sigurbjörn Jón Árnason, 36 ára Keflvíkingur, glímdi við þunglyndi og sjálfsvígshugsanir árum saman. Þegar verst lét átti hann ekki heimili og var án atvinnu. Með hjálp Samvinnu starfsendurhæfingar tókst honum að sjá ljósið og stundar nú nám hjá Keili, er í vinnu og vaknar hamingjusamur hvern dag. Hann segir það besta af öllu þó vera að geta verið til staðar fyrir börnin sín.
„Ég var heimilislaus, atvinnulaus og ekki með neina framfærslu fyrir tveimur árum,“ segir Sigurbjörn Jón Árnason. Hann leitaði til Samvinnu starfsendurhæfingar og fékk stuðning til komast á beinu brautina í lífinu. Í dag á hann heimili, er í skemmtilegri vinnu, hefur lokið námi hjá Menntastoðum MSS með góðum einkunnum og stefnir á háskólanám.
„Ég átti í fá hús að venda þar sem veikindi mín höfðu ýtt flestum frá mér. Hugurinn dró mig alltaf lengra og lengra inn í myrkur þunglyndisins og ég sá enga leið til að koma lífinu á rétta braut.“ Sigurbjörn segir að sennilega hafi hann glímt við geðsjúkdóma frá unglingsaldri og að líðan sín hafi versnað með árunum. „Sagan mín hófst í raun þegar ég var barn þar sem ég ólst upp við drykkju og brotið heimilismynstur. Sjálfur var ég svo farinn að drekka mikið og illa strax upp úr 16 ára aldri. Um tvítugt var ég svo orðinn tveggja barna faðir. Í gegnum tíðina var ég alltaf „bara“ sagður vera fyllibytta og sætti mig við það og trúði að það eina sem ég þyrfti að gera væri að sleppa því að drekka.“
Þegar Sigurbjörn var tvítugur fór hann í sína fyrstu meðferð og hefur farið í þær nokkrar síðan. „Í hvert einasta skipti ætlaði ég að gera betur en síðast. En það að skrúfa bara tappann á flöskuna var aldrei nóg fyrir mig því þegar áfengið var tekið út úr myndinni stóð hugurinn eftir fullur af þunglyndi, minnimáttarkennd, sektarkennd og skömm.“ Hann segir áfengið hafa hjálpað sér að deyfa þessar hugsanir að einhverju leyti.
„Ég vildi deyja“
Hugsanir um dauðann voru aldrei langt undan og glímdi Sigurbjörn við þær í tuttugu ár. „Ég vildi hreinlega deyja. Það eina sem komst að í huga mér var hvað ég væri misheppnaður og að ég ætti ekkert gott skilið í þessu lífi. Þunglyndi og kvíði algjörlega yfirtóku huga minn og drógu úr getunni til að vera partur af samfélaginu. Börnin mín höfðu ekki séð pabba sinn í marga mánuði, höfðu engan áhuga á að hitta mig og fannst mér það bara í lagi þar sem að ég væri bara fyllibytta og þau væru betur sett án mín.“ Sigurbjörn gekk í gegnum skilnað árið 2005 og reyndi þá að hætta að drekka. „Sennilega var það í þúsundasta sinn. Þrátt fyrir að hafa að mestu verið án áfengis síðustu tíu ár sökk ég alltaf lengra og lengra niður. Síðustu tvö árin áður en ég kom til Samvinnu lokaði ég mig nær alveg af og fór helst ekki út úr húsi nema á nóttinni til að forðast samskipti við fólk. Ég stóð orðið einn og ekkert af fólkinu mínu trúði að ég væri edrú því ég talaði ekki um það hvað mér leið illa, heldur braust vanlíðanin frekar út í framkomu minni og skapi.“
Hefði sætt sig við smá hugarró
Sigurbjörn kveðst ekki hafa haft miklar væntingar þegar hann hóf endurhæfingu hjá Samvinnu. Hann hefði vel sætt sig við að fá smá hugarró, þak yfir höfuðið og að geta framfleytt sér. Hann sá ekki fram á að hlutirnir myndu breytast mikið þar sem hann hafði svo oft reynt að gera eitthvað í sínum málum.
Eftir að Sigurbjörn útskrifaðist úr endurhæfingunni hjá Samvinnu hefur líf hans tekið u-beygju. Hann á heimili, er í vinnu sem hann hefur gaman að og á mikil samskipti við fólk og stundar nú nám hjá Keili. „Í endurhæfingunni afrekaði ég að klára 50 eininga nám úr Menntastoðum með 9,6 í meðaleinkunn. Ég hafði aldrei trú á að ég gæti klárað nám og hvað þá með þessum glans. Ég var nefnilega maðurinn sem byrjaði á svo miklu en hafði aldrei getuna í að klára neitt. Mér hefur tekist að endurnýja kynnin við mikið af því fólki sem hvarf úr lífinu mínu meðan þunglyndið réði ríkjum. Það sem þó skiptir mestu máli er að ég er orðinn fær um að vera til staðar fyrir börnin mín.“
Mesta hjálpin að tala um líðan sína
Dagsdaglega líður Sigurbirni vel og hann segist aldrei hafa upplifað annan eins stöðuleika í lífinu. „Ég vakna á morgnana og hlakka til að fara í skólann eða vinnuna. Auðvitað koma dagar þar sem að lífið er ekki alltaf frábært en munurinn er sá að ég reyni alltaf að vera meðvitaður um sjálfan mig og nota þau verkfæri sem mér hafa verið rétt í endurhæfingunni og hjá 12 spora samtökum. Líðan mín er ekki leyndarmál eða byrði sem ég þarf að burðast með einn út í horni.“ Hann segir það líka hafa hjálpað sér mikið að fá greiningar á sjúkdómi sínum. Hann sé ekki bara alkóhólisti sem enginn gat hjálpað, heldur einnig með fleiri undirliggjandi sjúkdóma. „Eftir að ég fékk greiningarnar og fór að vinna út frá þeim byrjaði batinn fyrst. Svo hef ég verið í endurhæfingar prógrammi hjá Virk og Samvinnu starfsendurhæfingu, ásamt því að vera virkur í 12 spora samtökum. Ég er þakklátur fyrir leiðsögn þessa yndislega fólks í Krossmóanum sem alltaf hafði trú á mér. Þau hjálpuðu mér alltaf að stíga einu skrefi lengra en ég hélt ég gæti hverju sinni.“ Sigurbjörn segir að mesta hjálpin hafi þó falist í því að gefast upp á eigin hugsunum og fara að tala um það hvernig honum leið. „Ég áttaði mig á því að hugur minn væri sjúkur og að ef ég ætlaði að ná bata þyrfti ég aðstoð og leiðsögn. Hugur alka og þunglyndissjúklings reynir alltaf að draga hann til baka niður í myrkrið. Ég fór því að verða móttækilegur fyrir því að hlusta á ráðgjafana mína og framkvæma hluti sem mér var ráðlagt án þess að þurfa alltaf að hafa skoðun á öllu. Ég hætti sem sagt að láta sjúkan hug minn og veikindin stjórna ferðinni og leyfði fagfólkinu að leiða mig áfram.“
Í dag stundar Sigurbjörn nám hjá háskólabrú Keilis og stefnir á háskólanám. Það má því segja að maðurinn sem gekk brotinn inn í endurhæfingu fyrir tveimur árum í leit að hugarró sé farinn að hugsa stærra í dag.
Styðja fólk til endurkomu á vinnumarkaðinn
Samvinna starfsendurhæfing styður við einstaklinga sem þurfa á aðstoð að halda vegna veikinda, slysa og/eða félagslegra erfiðleika við endurkomu út á vinnumarkaðinn. Samvinna er starfsendurhæfingardeild innan Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum. „Markmið Samvinnu er að efla einstaklinga til vinnu og stuðla að auknum lífsgæðum þeirra með það að leiðarljósi að viðkomandi fari í atvinnu eða nám að endurhæfingu lokinni. Unnið er á heildrænan hátt út frá líkamlegum og sálfélagslegum þáttum einstaklingsins og leitast við að finna heilstæða úrlausn á vanda hvers og eins,“ segir Helga Guðbrandsdóttir, verkefnastjóri Samvinnu.
Starfsendurhæfingin er þverfagleg, þar starfa þrír ráðgjafar ásamt ýmsum sérfræðingum sem koma að endurhæfingunni eins og sálfræðingar, sjúkraþjálfarar, félagsráðgjafar, næringarfræðingur, fjármálaráðgjafi, markþjálfi, náms- og starfsráðgjafar svo eitthvað er nefnt. Þátttakendur eru aðstoðaðir af fagaðilum við að setja sér raunhæf markmið miðað við færni og getu hvers og eins. Eitt af lykilatriðum í endurhæfingunni er að hver þátttakandi hafi sinn ráðgjafa sem er tengiliður hans við aðrar stofnanir sem koma að hans málum.
Þátttakendur Samvinnu koma frá öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum og eru frá átján ára aldri. Elsti þátttakandi sem hefur verið í Samvinnu var 64 ára gamall og má því segja að Samvinna henti öllum sem vilja komast á vinnumarkaðinn á ný. „Ánægjulegt er að segja frá því að karlmenn hafa í auknum mæli leitað sér aðstoðar og eru um 40 prósent þátttakanda í dag. Endurhæfingin getur til dæmis innihaldið heilsutengda fræðslu, líkamsþjálfun, sjúkraþjálfun, fjármálaráðgjöf, sálfræðiviðtöl, hópefli og ýmis námskeið, svo sem ART námskeið, HAM námskeið, núvitund, eflingu í starfi, sjálfsstyrkingu og markþjálfun. Þátttakendur eiga einnig kost á því að fara í starfsþjálfun hjá fyrirtækjum á Suðurnesjum og segir Helga það samstarf hafa verið til fyrirmyndar.
Starfsemin fer fram hjá MSS að Krossmóa 4. Nánari upplýsingar um Samvinnu starfsendurhæfingu má nálgast hjá Helgu í síma 412-5960 eða með tölvupósti á netfangið [email protected]. Einnig er hægt að nálgast upplýsingar á www.mss.is.
Helga Guðbrandsdóttir, verkefnastjóri Samvinnu.