Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lífið mun betra fyrir utan skápinn
Föstudagur 12. maí 2017 kl. 06:00

Lífið mun betra fyrir utan skápinn

-Sæmundur Már segist mun ánægðari með lífið eftir að hafa sætt sig við það hver hann væri

Eftir að hafa eytt nokkrum árum í felum um það hver hann í raun og veru væri ákvað Sæmundur Már Sæmundsson, 22 ára Keflvíkingur, að koma út úr skápnum. Hann reyndi í langan tíma að loka augunum fyrir því að hann gæti mögulega verið samkynhneigður en í dag, fjórum árum seinna, sér hann ekki eftir því að hafa staðið með sjálfum sér og segist mun ánægðari með lífið.

„Ég var hræddur um að fólk myndi fara að koma öðruvísi fram við mig þegar ég kæmi út úr skápnum. Ég var hræddur við fordóma og ég vildi bara vera venjulegur,“ segir hann, en í kringum 12 ára aldur fór hann fyrst að átta sig á því að hann hreifst af karlmönnum. „Ég laðaðist miklu meira að strákum en stelpum. En það hvarflaði aldrei að mér að ég væri samkynhneigður. Ég hélt þetta myndi bara eldast af mér og ég var ekkert að stressa mig á þessu. Það var svo ekki fyrr en ég var svona 16 ára sem ég byrjaði að íhuga að ég gæti hugsanlega verið tvíkynhneigður. En þá ætlaði ég bara að einblína á stelpurnar, þyrfti ekkert að vera að segja neinum frá þessu. Þegar ég er 18 ára fer þetta svo að gerast rosalega hratt. Ég fæ eiginlega bara nóg af því að vera að bulla í sjálfum mér og ákvað að kýla á þetta. Mér leið mjög vel að vera búinn að ákveða að gera þetta og ég var farinn að hlakka til að losa þetta frá mér.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sæmundur segist hafa átt von á því að allt færi á hliðina hjá honum þegar hann kæmi út úr skápnum. „Það gerðist alls ekki. Flestir voru bara ánægðir með það að ég væri búinn að finna mig og samglöddust mér. Ég upplifi mig ekki eitthvað öðruvísi og ég upplifði mig aldrei þannig,“ segir Sæmundur, en þegar hann kom út úr skápnum hélt hann partý fyrir vini sína þar sem hann sagðist ætla kynna leyniverkefni. „Ég kallaði þau saman og þau tóku fréttunum bara mjög vel. Svo skemmtum við okkur um kvöldið og slúðrið í Keflavík sá bara um restina.“

Hann segir að fréttirnar hafi breiðst hratt út. „Það var mjög skrýtið að mæta í skólann á mánudeginum. Það vissu þetta allir fyrir hádegi. Samt þorði fólk ekkert að spyrja mig út í þetta. Það var meira að spyrja vini mína og systur mína. Það vildi enginn spyrja mig út í þetta.“ Hann segist þó vera algjörlega tilbúinn til þess að svara spurningum, hafi fólk einhverjar. „Ég hvet fólk til þess að spyrja mig. Ég er ekkert viðkvæmur fyrir því. Þetta á ekki að vera neitt tabú.“

Hann segir samfélagið, núna fjórum árum seinna, vera orðið aðeins fróðara um þessi málefni. „Fólk var fyrst mikið að bera mann saman við staðalímyndir. Ég heyrði það alveg rosalega oft að ég væri ekkert hommalegur. En það er orðið miklu minna um það núna. Ég heyrði líka oft til að byrja með: „Ertu hommi? Mig hefur alltaf langað í svona hommavin sem getur komið og verslað með mér.“ Mér finnst eiginlega bara hundleiðinlegt að versla.“

Sæmundur fær annað slagið fordómafullar athugasemdir og spurningar frá fólki. „Fólk heyrir að ég sé hommi og segist einmitt þekkja einn homma og að við ættum þá að byrja saman. Eins og það sé sjálfgefið að ég laðist að öllum hommum. Ég veit ekki af hverju þetta er svona. Kannski er það vegna þess að það eru svo fáir samkynhneigðir að fólk heldur að maður hafi ekkert efni á að vera með einhverjar skoðanir. Ég er samkynhneigður og laðast að strákum, en það þýðir ekki að ég laðist að öllum strákum. Það virðist vera svolítið algengur misskilningur. Svo var rosalega algengt að spyrja mig hvernig ég vissi að ég væri hommi ef ég væri ekki búinn að sofa hjá stelpu.“

Hann segir að hugtakið „hinsegin“ hafi alltaf farið í taugarnar á honum því það vísi til einhvers sem sé öðruvísi. „Ég er ekkert hinsegin manneskja þó ég laðist að strákum. Ég hef aldrei tengt við orðið hinsegin.“

Sæmundur ráðleggur fólki sem er að koma út úr skápnum að tala við einhverja sem það treystir. „Ég talaði við mína nánustu vini um þetta. Það sem stoppaði mig af var hræðslan um að fólk færi að taka mér öðruvísi, færi að passa sig í kringum mig en þetta er ekkert þannig. Það breytist ekkert í rauninni. Maður verður sjálfur bara miklu ánægðari. Fólk samgleðst þér og svo heldur lífið bara áfram.“

[email protected]