Lífið með Lindu: Vertu þinn eigin sigurvegari
Nú þegar febrúarmánuður er hálfnaður er gott að taka stöðuna á hlutunum. Ég lít út um gluggann og jú, enn er vetur konungur í öllu sínu veldi, enn fellur snjórinn og enn á ný þykknar klakinn. Í byrjun árs voru flestir í að strengja sér áramótaheit, ætli þau séu enn við lýði? Ég ákvað á nýju ári að taka líf mitt í gegn, ég ætlaði að sinna bæði sál og líkama og taka ákvarðanir sem væru mér fyrir bestu, hætta að gera það sem er öðrum fyrir bestu. Ég mæti enn samviskusamlega í ræktina, ögra mér þar til ég er komin að þolmörkum og er enn að slást við sykurpúkann.
Á hverjum einasta degi er ég að upplifa freistingar, rétt eins og allir aðrir, heimurinn er stútfullur af freistingum. Það er eðlilegt að efast, alls ekki óeðlilegt að rífa sig stundum niður og reyna að fullvissa sjálfan sig um að maður geti ekki náð markmiðum sínum. Það er manninum eðlislægt að efast, við erum jú tilfinningaverur. Ég er enn í háskólanámi ásamt minni vinnu, sé um sama heimili og á enn sömu fjölskyldu. Ég hef á nýju ári reynt að yfirfæra sömu vinnusemi á sjálfa mig eins og ég hef tamið mér með aðra hluti. Ekki dytti mér til hugar að gefast upp á fjölskyldunni minni þó stundum séu dagarnir erfiðir. Ekki færi ég að hætta að sinna skólanum þó ég sé suma daga alveg að drukkna og ekki hætti ég að mæta í vinnuna mína þó ég sé illa fyrir kölluð eða þreytt. Nei af hverju ætti ég þá að gefast upp á sjálfri mér ? Mesti lærdómur minn af þessu nýja ári sem komið er stutt af stað er sá að ég sé í fyrsta sinn að ég get alveg uppfyllt drauma mína. Það er eins með mig og aðra, við verðum bara að ögra okkur og hafa trú á okkur sjálfum.
Við þurfum að losa okkur við sykurpúkann og innri neikvæðni sem bæði reyna að tækla okkur á hverjum degi. Við verðum að stíga út fyrir þægindaramann, það getur verið erfitt en það er svo gott þegar það er afstaðið! Ég segi svo oft við börnin mín að þau séu sinnar eigin gæfu smiðir og ég innræti í þau allt það besta sem ég mögulega get. Ef þau koma buguð eða niðurlút heim þá gef ég þeim klapp á bakið og veiti þeim styrkinn sem þau þurfa. Af hverju ætti það sama ekki að gilda um okkur sjálf? Veitum okkur sjálfum þennan styrk og látum ekki deigan síga. Við sjálf getum líka verið sigurvegarar, við verðum bara að trúa því.
Ást og friður,
Linda María.