Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lífið með Lindu: Tökum skrefið í rétta átt
Föstudagur 11. mars 2016 kl. 06:00

Lífið með Lindu: Tökum skrefið í rétta átt

Viðfangsefni þessa pistils er eitthvað sem ég þekki á eigin skinni, það er eitthvað sem mér finnst ég hafa fengið með móðurmjólkinni. Þetta er sannkallað eitur fyrir mannleg samskipti, þetta litar okkur bæði sem persónur og hefur áhrif á okkur, oft meira en við gerum okkur grein fyrir. Ósætti er fylgifiskur tilfinninga sem eru óuppgerðar, þungar og erfiðar viðureignar. Ekki er þó hægt að halda áfram án þess að viðurkenna að ekki eru allar þessar tilfinningar af sama toga, sem betur fer. Í öllum samböndum hvort sem þau eru fjölskyldubönd, vina eða ástarsambönd þá vottar alltaf af einhvers konar ósætti á einhverjum tímapunkti. Það er prófraun á öll þessi sambönd að vinna sig út úr þessu ástandi, komast yfir hinum megin eins og Adele syngur hástöfum í storminum. Við megum ekki gleyma því að það er ávallt stutt á milli ástar og haturs, ekki nema þunnur þráður. Ekkert gæti verið eðlilegra en að reiðast stundum eða sárna yfir hlutum sögðum eða gerðum. Oft upplifum við okkur ein í lífsins ólgusjó, heimurinn missir festu sína og við upplifum okkur í frjálsu falli. Við erum illa upplögð, undir álagi eða ekki alveg tilbúin í aðstæðurnar sem við upplifum. Við förum að efast um að viðbrögð okkar hafi átt rétt á sér og gefum okkur falleinkunn. Oft er það okkar Akkilesarhæll, það að við dæmum okkur sjálf alltaf harðast. Það er alls ekki þannig, við mættum standa oftar með sjálfum okkur, við eigum það alveg skilið. Lífið er samt of stutt til að taka ekki upp tólið og leggja ekki okkar af mörkum til að hreinsa loftið. Ef vilji er fyrir þá er hægt að laga allar brotnar brýr, það er hægt að vinna í öllum vandamálum og ekkert er óyfirstíganlegt. Það þarf bara að taka skrefið, hætta að hræðast og spyrja sig, hvað er það versta sem gæti gerst?

 

Ást og friður

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Linda María