Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lífið með Lindu: Sorg og gleði á jólum
Laugardagur 19. desember 2015 kl. 06:00

Lífið með Lindu: Sorg og gleði á jólum

Jólin nálgast, spennan magnast, gleðin skín úr hverju andliti. Á þessum tíma reyna flestir að brosa blíðar og safna fyrir þeim sem minna mega sín því það er svo sannarlega sælla að gefa en að þiggja. Allt þetta besta er allt í kringum okkur, allt það besta sem í mannverunni býr kemur út úr fylgsnum sínum á þessum fallega jólatíma. Við finnum fyrir meiri samkennd fyrir náunganum og erum opnari fyrir því að vera í stakk búin ef einhver skyldi þurfa á hjálp að halda.

Ég er jólaálfur í húð og hár, ég elska fátt meira en þennan tíma. Þegar ég settist niður til að ákveða mig hvað ég ætti að skrifa um var margt sem veltist um í huga mér. Þrátt fyrir að vera þeim góðu kostum gædd að vera jákvæð og réttsýn fram í fingurgóma þá hef ég ekki alltaf upplifað gleðileg jól frekar en svo margir. Sem lítið barn lenti ég í því að missa manneskju sem var mér virkilega kær nokkrum dögum fyrir jól. Það var hræðilegt og tilfinningin sem enn kemur upp við minninguna fær magann til að skreppa saman og augun fyllast af tárum. Upp frá þessum missi kom mikil sorg og vanlíðan og þessi fallegi tími breyttist í kvíða. Tilhlökkunin yfir því að rífa upp pakkana hvarf út í buskann og gráturinn á heimilinu yfirtók allt. Fyrir barn er verulega erfitt að reyna að skilja sorgina, barninu finnst svo eðlilegt að við séum alveg að fara að hittast aftur, þetta sé í raun ekki raunveruleiki. Ég reyndi mitt allra besta að fullorðnast hratt og gerði mínar skyldur og sinnti því sem þurfti að sinna. Ég tók á mig ábyrgð sem enginn bað mig um en ég gerði það engu að síður. Þessi tími er alls ekki gleði fyrir alla því miður, við lifum og lærum og gerum öll okkar besta, alltaf. Þegar þessi sorg okkar dofnaði þá fór skugginn yfir jólaljósunum líka að hverfa, ég fór að finna fyrir þessum jólafiðrildum enn á ný. Það er svo erfitt fyrir okkur fullorðna fólkið að setja okkur í spor barnanna okkar, skiljanlega, sorg fullorðna fólksins er himinhá oft og getur verið kolsvart hyldýpi. En börnin okkar eru að mótast á þessum tíma og allt sem við gerum eða gerum ekki situr eftir í barnsins hjarta, við verðum að vera tilbúin til að setjast niður með þeim og fá að vita hvað er að gerast. Tilfinningar þeirra eru svo brothættar og allt sem við gerum hefur áhrif á þau, við erum þeirra fyrirmyndir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jólin á mínu heimili í dag eru engu öðru lík, þau eru falleg og innihaldsrík og heimilið ómar af hlátrasköllum eins og ætti að vera. Ég byggi á þessum fallegu minningum sem hlátrasköllin lifðu áður en sorgin bankaði uppá, við eigum alltaf valkosti og þeir geta verið misgóðir en við erum eigin gæfu smiðir. Ég valdi að draga styrk minn frá þessum hamingjusömu minningum en skildi við þessar sorgmæddu. Jólin eru tími barnanna, þetta er dýrmætur tími sem þau muna alltaf miða sín jól við þegar þau verða fullorðin. Reynum einu sinni á ári að sleppa af okkur fullorðinshömlum samfélagsins og njótum eins og börnin sem við eitt sinn vorum, jólin koma þrátt fyrir allt og fara alveg jafn hratt.

Ég vil óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og þakka fyrir lesturinn á árinu sem er að líða!


Ást og jólafriður

Linda María.