Lífið með Lindu Maríu: Okkar allra versti óvinur erum við sjálf
Minn fyrsti pistill á nýjum vettvangi. Hugmyndin virtist auðveld, ætlaði að tækla þetta á sama hátt og alla aðra pistla, setjast bara niður og leyfa flæðinu að byrja. Allt kom fyrir ekki, ég var farin að rífa mig niður áður en hugsunin náði að setjast, hafði sett dæmið upp margsinnis og alltaf fengið sömu niðurstöðu. Þetta myndi aldrei ganga, ég er ekki nógu góð til að skrifa í bæjarblaðið.
Að því sögðu rifjaði ég upp allt það sem ég hef lagt af mörkum, öll hughreystingarorðin sem ég hef fengið frá mínum nánustu nú og áður, peppið frá vinkonum mínum fyrir framlag mitt til betri breytinga í þeirra lífi aftur og aftur. Smám saman kom litla stúlkan úr felum, fann sólina skína í andlitið og mundi hvers hún er megnug. Verkefnið er aldrei erfiðara en við sjáum það fyrir okkur, okkar allra versti óvinur erum við sjálf.
Ég trúi því og stend við þá fullyrðingu að með jákvæðu hugarfari færum við fjöll, við sjáum þetta góða í öllu og við þökkum fyrir það sem við eigum. Við hættum að meta okkur í samanburði við aðra, ef við lifum lífinu í stöðugum samanburði þá líður lífið og við gleymum að njóta. Lífið gerist á meðan við erum að undirbúa okkur og bíða eftir einhverju allt öðru. Lífið er núið, það snýst um þessar stundir sem við vissum ekki að við ættum, þessar stundir sem í byrjun þóttu lítilvægar en eftir á eru þetta stundirnar sem færðu okkur okkar allra mestu hamingju, stundarkornin sem við yljum okkur við þegar dregur fyrir sólu og okkur vantar að sækja styrkinn einhversstaðar.
Góðir hlutir gerast hjá góðu fólki, alla daga, alltaf. Þetta snýst um að sjá þetta góða, draga inn andann, skilja við hugarfarið sem svo oft er hugfangið af erfiðleikum, blása frá okkur með bros á vör.
Höldum út í daginn sterkari, jákvæðari og meðvitaðri um að tækifærin liggja hjá okkur sjálfum, ekki bara í dag heldur alla daga.
Ást og friður:)
Linda María