Lífið með Lindu Maríu: Meðvirkni
Það hefur lengi verið á mínum aðgerðalista að uppræta meðvirkni mína. Hún er djúpt í iðrum sjálfs míns. Í mörgum tilfella er hún svo einstaklega lúmsk að það tekur mig langan tíma að átta mig á því eftir á hversu blinduð ég var af henni. Hún var lengi vel hækjan mín, það er svo miklu auðveldara að takast ekki á við vandamálin en að ráðast á þau vopnuð bæði kjarki og sjálfstrausti. Ég get ekki talið þau skipti þar sem ég leyfði meðvirkninni að gleypa mig, stundirnar sem ég reif mig niður vegna þess að ég virkilega trúði því að ég væri ekki betri en ímyndin sem ég sá í speglinum.
Meðvirkni í uppeldi er eitur, meðvirkni í fjölskyldu er kviksyndi og meðvirkni í vinahóp er upphafið að endanum. Ég tel mig vera sigurvegara í dag, ég komst útúr þessum sjálfspíningarpytti, ég svara fyrir mig sterkari en nokkru sinni fyrr. Ég er alltaf að læra, sem betur fer, enginn er fullkominn en í stað þess að beygja mig þá passa ég mig á að rísa uppá afturlappirnar og tekst á við daginn. Ég er meðvitaðri um mínar veiku hliðar og reyni að vera besta útgáfan af sjálfri mér. Meðvirknin er alls staðar í kringum okkur, það er alltaf batamerki ef við bara leyfum okkur að viðurkenna að við sjáum hana. Það að þora ekki að mæta einstaklingi, hvort sem hann er fjölskyldumeðlimur, vinnufélagi, vinur eða ókunnugur þá eigum við alltaf rétt á að hafa skoðun, við höfum rétt á að tilfinningar okkar jafngildi tilfinningum annarra. Meðvirkur einstaklingur þekkir ekki annað en sjúklegan raunveruleika sem hann nær ekki að losa sig útúr. Meðvirkni er form af eðlilegum viðbrögðum við verulega óeðlilegum aðstæðum. Þegar ég var krakki fékk ég oft að heyra mottóið „Þetta er bara svona.“ Ég sé það alltaf betur og betur þegar ég þroskast og eldist um hvað þessi stutta setning snerist.
Það að takast aldrei á við vandamál sín er meðvirknin í sinni verstu mynd. Hver dagur kemur og fer, uppfullur af bæði litlum sigrum og stórum. Verum sjálfum okkur hliðholl og veljum það sem er okkur fyrir bestu, það er líka hollt að hrósa sjálfum sér því okkar afrek eru engu minni en annarra.
Ást og friður.
Linda María