Lífið með Lindu Maríu: Komum út að leika
Nú er vorið handan við hornið, er ekki í lagi að segja það? Öll þessi hret að baki og nú tekur við sumarið og sólin. Er í lagi að segja það? Svo virðist sem að í hvert sinn sem maður leyfir sér að segja þessa setningu þá mætir manni hvít jörð næsta morgun. Þó það sé svo fallegt einhvern veginn þegar snjórinn liggur yfir öllu þá er komið gott af því. Ég finn það á sjálfri mér hversu tilbúin ég er í sumarið. Grillið er farið að fá smá útitíma, svalahurðin fær að vera opin í lengri tíma í senn og maður er farinn að heyra hlátrasköllin í börnunum í hverfinu. Þau minna mig alltaf á tímana þegar ég var lítil, þá lék maður sér í hverfinu frá morgni til kvölds. Þessi tími er dásamlegur, nú fer maður að velta fyrir sér hvar sé best að byrja á að reita arfann, hvort tréin séu nokkuð rytjuleg og kústurinn fer af stað í kringum húsið.
Þar sem við búum er himnaríki fyrir þá sem hafa græna fingur. Hér eru tréin há og fögur og laufin virðast óendanleg. Hér er af nægu að taka hafi menn áhuga á því. Ég er mikið að velta þessu fyrir mér þegar ég helli upp á rjúkandi kaffibollann, hvar ætli sé sniðugast að byrja. Þar sem við höfum búið síðustu árin hefur ekki verið mikið af trjám, í raun engin þegar ég hugsa út í það. Þegar við byggðum okkur hús fyrir nokkrum árum þá var það eitt af aðalatriðunum mínum þegar kom að útliti hússins. Hvar við ættum að vera með tré og hvernig tré við ættum að hafa í kringum húsið. Heildar útlitið skipti ekki minna máli en skipulagning innan húss. Ég hef nefnilega alltaf verið með ímynd í huga mínum um sumarkvöldin þar sem börnin okkar eru að leik með vinum sínum í hverfinu og við hjónin að sinna garðverkum. Jafnvel að virkja þau með okkur í garðvinnuna. Stundirnar með börnunum eru ógleymanlegar og alltaf eitthvað sem hægt er að gera saman. Oft er ekki annað sem þarf til en að hreinlega setjast niður með þeim og spyrja hvað þau langi til að gera. Á þessari tölvuöld er ögrunin alltaf að minnka og útitíminn nánast enginn.
Vorið er hreint yndislegur tími, nú tekur við nýtt upphaf og bjartir tímar framundan. Við fjölskyldan erum strax farin að huga að samverustundum þegar sól hækkar á lofti. Um helgina spiluðum við körfubolta niður á körfuboltavelli í Holtaskóla. Markmið fjölskyldunnar fyrir þetta sumarið er að fara meira út saman og skapa minningar. Hér í Reykjanesbæ er allt sem til þarf þegar kemur að samverustundum og hreyfingu. Fótboltavellir og útisvæðin eru til fyrirmyndar og hreinlega kalla á krakkana að koma og leika.
Þar til ég get farið að reita arfa þá finnið þið mig fyrir framan einhverja körfuna, rifjandi upp gamla takta á þriggja stiga línunni.
Ást og friður
Linda María