Lífið með Lindu Maríu: Gott að eiga góðan vin
Nú falla laufin í massavís og minna okkur á að vetur konungur er handan við hornið. Lífið getur verið eins og árstíðirnar, uppfullt af sól og sumaryl en líka boðið upp á dass af stormi og lægðum. Sumir dagar eru svo slæmir að manni líður eins og maður ætti varla að fara fram úr rúmi. Við eigum öll þessa daga, þar sem við erum meira til í að draga sængina upp fyrir haus en að rífa okkur af stað og takast á við tækifærin sem bíða okkar.
Á þessum dögum er gott að eiga góðan vin. Einhvern sem tekur utan um okkur og minnir okkur á að margt er verra en það sem við erum að ganga í gegnum. Það eru alltaf einhverjir sem eru að upplifa erfiðari dag og hollt að minna sig á það. Í okkar nánasta umhverfi er stútfullt af tækifærum til að hafa uppbyggileg og jákvæð áhrif á fólk. Án þess að við áttum okkur á því, þá erum við alltaf að hafa áhrif á aðra í kringum okkur. Við höfum ólíkar skoðanir og viðhorf, við vinnum á fjölbreyttum vinnustöðum og umgöngumst alls konar einstaklinga. Það er hellingur sem við erum að gera ómeðvitað.
Það þarf ekki mikið til að gleðja, það er lygilega lítið sem þarf til að bjarga deginum fyrir náunganum. Verum sólarmegin í lífinu, verum gerendur í breytingum til hins betra. Gefum hrós í stað þess að lasta, spornum gegn því að taka þátt í niðurrifi og baktali og brosum til fólks í stað þess að hanga með fýlusvip. Munum, eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt. Sjáum hvort jákvætt viðmót bætir ekki okkar eigin dag í leiðinni.
Ást og friður.
Linda María