Lífið með Lindu Maríu: „Ekki gleyma að finna lyktina af rósunum“
Þessa vikuna er ég minnt á ákvarðanir mínar. Núna er mikið álag í skólanum, verkefnaskil eftir verkefnaskil, þrír kúrsar að klárast sem þýðir bara eitt, fyrsta árið mitt í háskólanum er að klárast. Á sama tíma og þetta liggur á herðum mínum tók ég ákvörðun um að hækka mig í starfshlutfalli sem er ekki ólíkt mér kannski, ég er ekki vön öðru en að ögra mér svona hér og þar.
Á þessum tímum þar sem álagið ætlar alla menn að kæfa eða kaffæra þá man ég alltaf eitt af heilræðunum hans afa Svenna. Hann sagði við mig „Ekki gleyma að finna lyktina af rósununum Linda María.“ Hann sagði þetta á sinni víðfrægu amerísku að sjálfsögðu, þvílíkur töffari sem hann var. En þetta hefur alltaf setið í hjarta mínu. Þrátt fyrir erfiða tíma þá er nauðsynlegt að minna sig á að ef við hægjum ekki á okkur þá getur lífið þotið framhjá.
Hann afi var mikill snillingur og hjartahlýrri maður er vandfundinn. Þrátt fyrir að hafa fengið að hafa hann í lífi mínu í stuttan tíma þá kenndi hann mér mikið, ég hef tamið mér að hugsa til hans þegar mér líður illa eða ég keyri mig út. Það vita flestir sem mig þekkja að ég slaka stundum ekki á og set mér markmið sem erfitt er að ná. Þetta er alls ekki hollt og það veit ég, ég er enn að læra að ég þarf ekki að þóknast öllum, alltaf.
Það er mikilvægt að draga inn andann endrum og sinnum, leyfa sér að slaka á og það sem er mikilvægast, leyfa öðrum að rétta okkur hjálparhönd. Það er svo skrýtið að þegar við erum vön því að vera klettur fyrir aðra þá er auðvelt að gleyma að við þurfum ekki minna á hjálpinni að halda. Það er öllum hollt og kannski sérstaklega þeim sem eru virkir og barma sér minnst að þiggja hjálp og njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða.
Ef það er eitthvað sem ég þarf að minna mig á þá eru það orðin hans afa. Enginn veit sína ævina og ég er alltaf að læra. Það er alveg sama hversu gömul við verðum, við erum alltaf að læra eitthvað nýtt. Það er mikilvægt að faðma fólkið sitt, þakka fyrir þá ást og umhyggju sem til okkar streymir og vera ekki hrædd við að opna hjarta sitt. Áður en við vitum af þá erum við minningin ein og það eina sem eftir lifir er hvernig manneskja við vorum í lifandi lífi.
Lifum, lærum og njótum. Það er ekki eftir neinu að bíða.
Ást og friður
Linda María