Lífið með Lindu: Áramótaheitin 2016
Nýtt ár gengið í garð, komdu fagnandi 2016. Nú er tækifæri til að byrja frá grunni, taka sjálfan sig í gegn bæði líkamlega og andlega. Breyta því sem virtist svo ómögulegt fyrir nokkrum andartökum síðan, draga inn andann og fá trúna á sjálfan sig á ný.
Þetta snýr allt að viðhorfinu og styrknum sem við öll höfum að geyma. Okkar styrkleiki er sannur og stór, það býr risi í okkur öllum. Líkamsræktarstöðvarnar stútfyllast í byrjun janúar og það eina sem gripið er í búðunum er grænmeti og ávextir. Jákvætt viðhorft tekur stjórnina og hvert markmiðið á fætur öðrum fer upp á ísskápinn. Ég hef verið í vandræðum með að skilja á milli mín og þess almenna þegar ég skrifa þessa pistla, veit ekki alltaf hvar þessi lína liggur. Ég var búin að ákveða að á nýju ári myndi ég gera breytingu, ég myndi gera hluti sem endurspegla mig sjálfa ekki bara gjörðir mínar þó við séum auðvitað ekkert annað en gjörðir okkar í raun. Þó ræktin sé að sjálfsögðu í topp tveimur þá er ekki minna mikilvægt að passa upp á sinn innri mann. Spakmælum sem ég gleymi aldrei úr íslenskutíma í framhaldsskóla koma úr Hávamálum, innihald þeirra segir okkur að orðspor okkar lifir líkamann, við kveðjum þessa jarðvist en sporin sem við skiljum eftir í hjörtum annarra lifa eftir okkar dag. Svo margt sem ég man sem amma og afi sögðu mér hef ég mér í hjartastað, gallinn er samt sá að ég geri mitt besta til að geyma þetta í lokaðri kistu lengst inní horni hjarta míns. Þegar ég leyfi mér að vera litla stelpan, fara til baka þegar þau voru á lífi, verð ég svo hjálparvana og brothætt þá líður mér eins og ég sé í frjálsu falli. Það grípur mig ekkert, þess vegna verð ég að vera sterk fyrir alla, fyrir mig, fyrir ömmu og afa. Ég á svo erfitt með að gráta og leyfa mér að sleppa tökunum, það er mér nánast ómögulegt. Það er samt svo hollt að gráta. Það er einmitt það besta sem við gerum til að losa okkur við óþarfa, svo nauðsynlegt í nýju upphafi eins og núna.
Nýtt ár og ný tækifæri, þetta snýst um það ekki satt? Styrkur okkar kemur fram í ólíklegustu aðstæðum, við komum sjálfum okkur á óvart í hvert sinn. Líkamlegur styrkleiki er ekki mikilvægari en andlegur er það? Er andlega hliðin ekki mikilvægari, því líkaminn er jú ekkert annað en skelin utan um kjarnann? Það er mikilvægt að hafa þakklæti með í farteskinu ásamt jákvæðni en tjáningin getur bjargað lífi okkar. Orð hafa meira vald en okkur grunar og þeir sem berjast hvað mest gegn tjáningunni þarfnast hennar oft mest. Það er sorglega stutt síðan fólk átti að bera harm sinn í hljóði, margir kjósa að gera það enn með tilheyrandi vanlíðan og leyfa lífi sínu að hafa sinn taktfasta, tilbreytingarsnauða hljóm sem aldrei býður upp á meira en soðna ýsu með smjöri. Það er svo margt annað sem er á boðstólum og margt verra til en að opna sig og losna við hlekkina sem halda okkur niðri. Hættum að biðjast afsökunar á að vera tilfinningarík eða dramatísk, hópumst frekar saman og drögum fólkið sem er lokað og dómhart inn í birtuna sem fylgir hækkandi sól á árinu 2016.
Ást og friður
Linda María