Lífið er saltfiskur!
– Bryndís Gunnlaugs bloggar
Fyrr í sumar auglýsti Heklan eftir bloggurum sem hafa áhuga á því að kynna Reykjanes og það sem Suðurnesjamenn eru að gera í samfélagsmiðlum.
Nokkrir pennar hafa tekið við sér og eru farnir að blogga eða setja inn myndir af Reykjanesi.
Miðlarnir sem hægt er nota eru fjölbreyttir s.s. tumblr, twitter, instagram, pinterest, flickr, youtube og vimeo. Hægt er að velja einn miðil eða fleiri.
Einn af þeim er bloggarinn Bryndís Gunnlaugs úr Grindavík. Hér er nýjasti pistillinn hennar.
Grindavík er aðeins um 3.000 manna bæjarfélag en hér er fjöldinn allur af frábærum veitingastöðum. Salthúsið heldur uppi merki bæjarins þegar kemur að saltfiski - enda væri ómögulegt ef ekki fengist almennilegur saltfiskur í Grindavík.
Salthúsið er þessi klassíski veitingastaður sem finna má í minni bæjarfélögum þar sem panta má allt frá hamborgara yfir í humar og steikur. Allir réttirnir eru virkilega góðir enda er Láki, eigandinn og kokkurinn, snillingur. En það er saltfiskurinn sem er aðalréttur staðarins og rétturinn sem gerir þennan stað einstakan.
Saltfiskur með sellerírótarstöppu og léttsteiktum lauk - þú færð ekki betri saltfisk en þar og fer ég nokkrum sinnum á ári til Láka sérstaklega til að fá mér þennan rétt.
Bryndís Gunnlaugs
Saltfiskur er svo sannarlega lífið - sérstaklega í Grindavík þar sem ferskum fisk er breytt í saltfisk, saltfisksetrið hefur aðsetur og Salthúsið eldar ómótstæðilega saltfiskrétti.