Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lífið byrjaði upp á nýtt við að koma út úr skápnum
Fyrsta pride 2011.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 24. september 2023 kl. 06:14

Lífið byrjaði upp á nýtt við að koma út úr skápnum

Skynjaði í kringum átta ára aldur að hann var öðruvísi. Fræðsla í grunnskóla hefði breytt öllu. „Ég varð frjáls!“ segir Jórmundur Kristinsson.

„Líf mitt hefði verið allt öðruvísi ef ég hefði fengið fræðslu um hinsegin málefni í grunnskóla,“ segir Jórmundur Kristinsson frá Grindavík en talsvert hefur borið á umræðu um Samtökin ‘78 að undanförnu í kjölfarið á fræðslu um hinsegin málefni í grunnskólum landsins. Ekki eru allir sáttir við hvernig kennsla um málefni hinsegin fólks er að þróast en hvað finnst þeim sem fræðslan snýst um?

Jórmundur er samkynhneigður maður frá Grindavík sem býr í Reykjavík í dag. Jórmundur kom út úr skápnum þegar hann var orðinn nítján ára gamall og er sannfærður um að honum hefði liðið talsvert betur árin áður en hann steig skrefið út úr skápnum ef hann hefði fengið þá fræðslu sem boðið er upp á í dag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jórmundur átti góða æsku en á ákveðnum tímapunkti fór hann að gruna að hann væri ekki eins og aðrir strákar. „Mín æska var sjálfsagt ósköp hefðbundin. Ég er eldra barn foreldra minna, á yngri bróður, og þegar ég var yngri æfði ég sund, átti mína vini og lék mér. Líklega í kringum átta ára aldurinn skynjaði ég að ég var öðruvísi, vinir mínir fóru að tala um að vera skotinn í þessari eða hinni stelpunni en ég sagðist bara vera skotinn í mömmu. Vinunum fannst þetta bara fyndið og þegar þeir voru að spá í frægum Hollywood-leikkonum var ég bara ekkert að tengja. Ég var samt ekki að spá í sætum karlkyns Hollywood-leikurunum svo á þeim tímapunkti var ég ekki að ná að tengja tilfinningarnar við samkynhneigð. Næstu árin ágerist þetta og í kringum kynþroskaaldurinn, ellefu til tólf ára gamall, eru tilfinningarnar sterkari en afneitunin getur verið svo sterkt afl, ég fattaði ekki að ég væri samkynhneigður. Ég var farinn að horfa á stráka en viðurkenndi samt ekki í hausnum á mér að ég væri hommi, hræðslan við að vera öðruvísi var svo mikil. Ég var rosalega hræddur við að segja karlfyrirmyndum innan fjölskyldunnar frá þessu, eins og pabba og Grétari frænda,“ segir Jórmundur en næstu árin var hann lengst inni í skápnum, eignaðist kærustur og passaði sig á að klæða sig þannig að enginn grunur félli á sig.

„Þessar kærustur voru auðvitað ekkert annað en vinkonur eftir á að hyggja, þær voru samt ekki að kveikja á því að ég væri hommi. Svo gerðist það þegar ég var orðinn sautján að ég kom heim eftir að hafa verið með kærustunni á rúntinum og mamma gekk á mig og spurði hvað væri að frétta, hvort ég væri ástfanginn o.s.frv. en ég sagði mömmu að kærastan vildi alltaf vera kyssa mig en ég hefði engan áhuga á því. Mamma var auðvitað fljót að leggja saman tvo við tvo, spurði mig hvort ég hefði áhuga á strákum en ég tók því mjög illa, fór bara í fýlu, þrætti og lokaði mig af en einhverjum mánuðum seinna viðurkenndi ég þetta fyrir henni. Á þessum tíma hélt ég samt að ég væri tvíkynhneigður því ég vildi eiga konu og börn en var samt skotinn í strákum. Mamma tók þessu auðvitað vel og hvatti mig til að fara í viðtal hjá Samtökunum ‘78. Ég gerði það og í viðtalinu var ég að velta þessu upp, hvort ég væri „bi“ fyrst ég vildi bæði eiga konu og börn en væri samt skotinn í strákum; „nei elskan mín, þú ert bara hommi,“ var svarið og þá byrjaði í raun líf mitt upp á nýtt.“

Jórmundur og Arnar, maðurinn hans, núna í ágúst.

Út úr skápnum – „Ég er FRJÁLS!“

Jórmundur var þarna búinn að stíga fyrra skrefið út úr skápnum, hann vildi undirbúa það síðara vel. „Ég man að það var léttir að labba út af þessum fundi hjá samtökunum með þessa vitneskju, að ég væri hommi. Samt tók við ferli sem tók á, ég var mjög hræddur við að segja pabba og öðrum frá þessu. Mamma og pabbi voru á leiðinni til útlanda á þessum tíma og ég bað mömmu um að segja pabba frá þessu á flugvellinum svo hann myndi hafa tímann úti til að melta þetta. Ég hélt að hann myndi þurfa jafna sig á þessu, hélt að hann yrði brjálaður, en auðvitað voru þetta algjörlega ástæðulausar áhyggjur hjá mér. Þau komu heim úr utanlandsferðinni og knúsuðu mig. Pabbi sagðist hafa vitað þetta innst inni og þetta væri allt í lagi. Það var mjög þungu fargi af mér létt þarna en ég vildi samt skipuleggja vel hvernig ég myndi segja ömmu og afa frá þessu, Grétari frænda og vinum. Hægt og bítandi fækkaði nöfnunum á listanum sem ég átti eftir að segja frá og ég setti mér tímamörk þannig að ég gæti ekki bakkað út úr þessu, sagði öllum að þetta væri leyndarmál þangað til eftir nokkra daga þegar ég væri búinn að segja öllum frá. Alls staðar var þessu vel tekið og ég breytti status á Facebook í „Interested in men“, þá var þetta orðið endanlega opinbert og ég get ekki lýst sælutilfinningunni, það var eins og eitthvað hefði losnað úr læðingi og ég var orðinn frjáls!,“ segir Jórmundur.

Útskrift úr hjúkrunarfræði 2023.

Fræðsla er mjög mikilvæg

Jórmundur lenti aldrei í neinu aðkasti vegna samkynhneigðar sinnar og þakkar fyrir hversu góða fjölskyldu, vini og vandamenn hann átti og hve samfélagið í Grindavík hafi verið opið. Það sé hins vegar alls ekki sjálfgefið. „Ég var mjög heppinn, það veit ég eftir allar þær reynslusögur sem ég hef heyrt frá öðrum í sömu sporum. Gott dæmi er vinur minn sem ólst upp á Tálknafirði. Bjarni er talsvert eldri en ég, fæddur 1978 ef ég man rétt, og það hefur verið ömurlegt fyrir hann að alast upp í þessu litla og lokaða samfélagi á þessum tíma. Hann vissi eins og ég að eitthvað var ekki eins og það átti að vera og það eina sem hann heyrði í kringum sig á Tálknafirði var hve ógeðslegt það væri að vera hommi. Hann vissi ekki af neinum í hans sporum, hann sá hvergi homma eða annað hinsegin fólk í bókunum sem hann las, í kvikmyndum eða sjónvarpi. Hann vissi ekki einu sinni að það væri hægt að vera hommi. Það var aldrei talað um homma eða hinsegin fólk í skólanum. Það eina sem síaðist inn í hausinn á honum var ógeðfelld umræða í fjölmiðlum um samkynhneigða menn og alnæmisfaraldurinn, að þeir væru pervertar, kynvillingar og öfuguggar. Inni í þessu myrkri þurfti Bjarni að lifa þar til hann varð 21 árs þegar hann kom loksins út úr skápnum. Ég upplifði mjög erfiða tíma árin áður en ég kom út úr skápnum en það hefur ekki verið neitt í samanburði hvað Bjarni þurfti að upplifa. Í báðum tilvikum hefði fræðsla í grunnskólanum breytt öllu fyrir okkur. Ég vona að fólk opni huga sinn gagnvart þeirri fræðslu sem fer fram í dag inni í skólunum og ég vona að hún eigi eftir að verða ennþá meiri því ekki veitir af. Börn og unglingar sjá allt sem þau vilja í símunum sínum í dag og því fyrr sem þau eru frædd um þessi málefni, því betra. Ég treysti skólakerfinu fullkomlega til að meta hvaða upplýsingar börn sem eru að byrja í skóla, eru tilbúin að meðtaka. Ég treysti skólakerfinu alla vega margfalt betur heldur en fólkinu á athugasemdakerfunum! Í mínum draumaheimi munu allir, börn og aðrir, getað verið nákvæmlega eins og þau vilja vera. Allir eiga að geta verið nákvæmlega eins og þeir vilja vera svo fremi sem þeir eru ekki að meiða eða særa aðra. Það að strákur eða stelpa laðist að eigin kyni eða líði ekki vel í eigin líkama og vilji fara í gegnum kynleiðréttingarferli getur ekki látið öðrum líða illa. Ef einhver vill skilgreina sig sem „hán“, af hverju skiptir það mig máli? Verum umburðarlynd, hleypum fjölbreytileikanum að,“ sagði Jórmundur í lokin.

Fimmtán ára Goth í felum.