Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

„Lifi bara lífinu einu sinni“
Krisín Jóna Hilmarsdóttir í göngunni yfir Ísland. Myndina tók Ellert Grétarsson.
Fimmtudagur 19. júlí 2012 kl. 18:07

„Lifi bara lífinu einu sinni“

- segir Kristín Jóna Hilmarsdóttir göngugarpur úr Reykjanesbæ.

Gönguhópurinn Sexurnar lauk í síðustu viku við mánaðarlanga göngu frá Hornvík á Vestfjörðum til Eystri Hornvíkur, skammt frá Höfn í Hornafirði. Ein af Sexunum er Kristín Jóna Hilmarsdóttur úr Reykjanesbæ. Hún tók saman meðfylgjandi frásögn úr ferðalaginu. Myndirnar úr ferðinni tóku Sexurnar, auk þess sem Ellert Grétarsson náttúruljósmyndari gekk með þeim eina dagleið. Þá tók Páll Ketilsson á móti göngugörpunum í Eystri Hornvík í liðinni viku.

„Við lögðum af stað í gönguna 13. júní í Hornvík. Það vorum við sexurnar og þrjár til viðbótar sem eru með okkur í gönghópnum Mammútsystur, sem ætluðu að labba með okkur á Hornströndum, sem tók viku.

Við lögðum af stað í brakandi blíðu sem var nánast alla ferðina. Það rigndi bara 3 daga og þá bara part úr degi.

Það tók nokkra mánuði að skipuleggja þessa ferð. Mikill undirbúningur og margir fundir haldnir. Við fórum þrjár, ég, Magga og Anna Lára þvert yfir landið frá Reykjanestá að Fonti fyrir 2 árum og vorum við ákveðnar strax að fara í þessa ferð, Horn í Horn. Hinar þrjár, Milla, Guðrún og Sigrún komu fyrir tveimur árum og gengu með okkur í viku, svo það þurfti ekki mikið til að fá þær með í alla ferðina.
Í undirbúningnum fengum við Hilmar Aðalsteinsson, eiginmann Sigrúnar og okkar aðal aðstoðarmann sem er mikill göngugarpur og hjálparsveitarmaður til að setja alla ferðina í GPS. Við vorum búnar að gróf-áætla gönguleiðina en hann kom þessu öllu inn í tækin og reiknaði vegalengdir. Svo vorum við einnig með plan A, B og C ef eitthvað mundi klikka, veðrið eða eitthvað annað. Við náðum að halda okkur nánast allan tímann við plan A, reyndar með smá breytingum á hálendinu.

Til að auðvelda svona langa göngu þarf að horfa á ferðina í áföngum, ekki einblína á lokadaginn, það gengur ekki.

Fyrsti áfanginn var að klára Vestfirðina og eiga frídag í Hólmavík og fara í sund og gott út að borða. Það kvöddum við Þristana og héldum áfram inn í landið og næsti áfangi var að komast í Staðarskála, sem tók 3 daga. Þar kom eiginmaður Önnu Láru með fellihýsið og grillaði læri og einnig fékk ég tvær vinkonur og eiginmenn þeirra í heimsókn, sem var yndislegt. Ekkert frí þarna og áfram skyldi haldið og við tóku við endalausir dalir og heiðar. Við gengum í þúfum og mýrum í 3-4 daga, langar dagleiðir 25-35 km. Þarna vorum við orðnar mjög þreyttar og aumar í fótum og tók heldur betur á, en þá er bara að bíta á jaxlinn peppa hver aðra upp og hlakka til næsta áfanga sem var að komast í Laugafell uppi á hálendi og þar komu 3 eiginmenn og dekruðu við okkur.

Nú vorum við að verða hálfnaðar í ferðinni en aðeins of langt að hugsa um lokin. Næsti áfangi var að komast í Snæfell sem tók viku og vorum við bara allar í betra formi en við vorum vikuna áður, blöðrur að minnka og fætur ekki eins bólgnir. Hnéð á mér reyndar að angra mig en ekki svo að ég léti það stoppa mig. Ibúfen og verkjatöflur og svo haldið áfram.

Í Snæfelli komu tvær til að labba með okkur síðasta áfangann og nú gátum við leyft okkur að dreyma um lokadaginn sem rann upp 13. júlí í Hornsvík, rétt við Höfn.

Veðrið var með eindæmum og auðvitað skipti það miklu máli, sérstaklega þegar við höfum útsýni í allar áttir. Enginn einn staður er í uppáhaldi, hver staður hefur sinn sjarma, en ég verð að nefna að Hornstrandirnar eru einstakar, einnig þegar við komum í Drekagil, stórkostleg fegurð og fjallasýn í allar áttir, Herðubreið, Kverkfjöll og Snæfell sem nálgaðist óðum.

Einnig var stórkostlegt að skoða Tröllakróka og ganga inn Lónsöræfin.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við byrjuðum sex í ferðinni og kláruðum allar sem ég tel stórkostlegan áfanga og þrjár af okkur erum núna búnar að krossa yfir landið, í hvort skipti gengum við tæpa 650 km og er það ekki bara ágætt.

Hvað verður næst eftir 2 ár veit ég ekki, kannski eru það bara útlöndin sem taka við. En ég er engan veginn hætt, fullt af fjöllum sem ég á eftir að skottast upp á.

Núna á ég bara endalaust af minningum og upplifunum sem gefur mér mikið. Maður lifir bara einu lífi og þá er eins gott að láta drauma sína rætast,“ segir Kristín Jóna Hilmarsdóttir, göngugarpur í frásögn sinni af ferðinni yfir Ísland, Horn í Horn.
 

Skoða myndasafn úr ferðinni hér!