Lifði af skelfilega bílveltu
Næturrökkrið var enn yfir Sandgerði þegar Sigurvin Jón Kristjánsson lagði af stað til vinnu sinnar í Reykjanesbæ. Hann vann hjá Byko sem sölustjóri og byggingaráðgjafi og þurfti því að keyra frá Sandgerði í vinnuna hvern einasta dag. Svandís eiginkona Sigurvins var í óðaönn við að koma börnunum á fætur því þau þurftu að mæta í skólann og á leikskólann. Eftir að hafa ekið spölkorn út úr Sandgerði fór bíll Sigurvins á flug, þrjár veltur og ökumaðurinn mun aldrei verða sá hinn sami og kvaddi konu sína og börn þennan morgun.
Miðnesheiðin hefur reynst mörgum ökumönnum erfið viðfangs og því átti Sigurvin eftir að kynnast þennan örlagaríka þriðjudag í nóvember 2001. „Á þessum tíma voru vegabrúnirnar mjög háar á Miðnesheiðinni, þær voru örugglega um 10-12 sentimetra háar. Ég veit ekki hvað gerðist en þegar ég var rétt kominn út úr Sandgerði þá missi ég bílinn út fyrir vegarbrúnina og í einhverju hugsunarleysi þá kippi ég honum aftur inn á veginn og þá fer hann af stað í velturnar.“ Talið er að bíllinn hafi farið þrjár veltur og í þriðju veltunni hafi hann lent ofan á brjóstkassanum á Sigurvini og brotið í honum hvert einasta rifbein, viðbeinið í vinstri öxl og svo brotnaði einnig herðablað og rifa kom í lifrina. Einnig rifnuðu liðþófar í hnjánum. Það varð Sigurvini, einnig þekktur sem Sissi, til happs að hryggjarsúlan og höfuðið sluppu er bíllinn fór ofan á hann, hefði það gerst er það talið víst að hann hefði beðið bráðan bana.
Mikill hávaði og ósjálfráð öskur
Í tilfelli Sissa þá birtist honum ekki lífshlaupið á einni svipan né leið honum eins og allt gerðist hægt. „Það gerðist allt mjög hratt í veltunum, mér fannst ég hringla eins og tappi inni í blikkdós þar sem ég skaust til og frá inni í bílnum.“ Hann var ekki í belti. „Maður hefði aldrei getað ímyndað sér hávaðann sem framkallast við svona bílveltur,“ sagði Sissi en hann man þetta nokkuð óljóst en það sem hann man var þessi gífurlegi hávaði sem umlukti hann og öskrin í sjálfum sér. Af óskiljanlegum ástæðum skýst Sissi út úr bílnum í þriðju veltunni og fær hann ofan á sig. Talið er að hann hafi jafnvel henst út um hliðarrúðu en aðrar kenningar hafa einnig skotið upp kollinum. Svandís áréttaði að í slysum af þessu tagi hefði það áður gerst að þegar bílarnir velta eiga dyrnar það til að opnast og lokast aftur, það gæti hugsanlega verið skýringin á því hvernig Sissi hentist út úr bílnum þar sem rúðurnar voru heilar og allar dyr lokaðar.
„Sævar bróðir var með mér“
Nóttina fyrir slysið dreymir aldraða móður Sissa að Sævar, bróðir Sissa sem lést árið 1983, hafi komið til sín í draumi og sagt við hana: „Það er eitthvað skrýtið við hann Sissa.“ Fyrirboðinn reyndist öllum til mikillar skelfingar vera sannur en hann kom því miður of seint þá sjaldan að hann gerir vart við sig svo skýrt og greinilega. „Ég trúi því að Sævar hafi verið með mér þar sem ég lá hjálparvana úti í móa og gat sjálfum mér enga björg veitt,“ sagði Sissi en ekki leið á löngu uns hjálp bar að.
Hugsaði fyrst um börnin
Þegar Svandís fær hringingu um það sem hafði komið fyrir var hennar fyrsta verk að koma börnunum í öruggt skjól. „Þegar svona gerist er eins og gífurlegur styrkur hellist yfir mann og númer eitt, tvö og þrjú hjá mér var að hugsa um börnin. Það næsta sem ég gerði var að hringja upp í skóla og láta vita af forföllunum en þá höfðu fregnirnar þegar spurst þangað. Því næst hringdi ég í Guðna bróður minn og hann fór með mér til Keflavíkur að hitta Sissa.“
Heil eilífð
Um það leyti sem Svandís er að sinna börnunum þá liggur Sissi illa haldinn úti í móa. „Mér fannst ég ekki liggja lengi áður en fyrsta manneskjan kom að slysinu,“ sagði Sissi, „en frá því að kallað var eftir hjálp og þangað til að sjúkrabíllinn kom fannst mér heil eilífð líða þó í rauninni hafi þetta ekki verið nema nokkrar mínútur.“ Farið var með Sissa á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í fyrstu en þegar að Svandísi og Guðna bar að garði var þeim tjáð að flytja ætti Sissa til Reykjavíkur til nánari skoðunar. „Það var læknirinn sem tjáði mér að Sissi hefði ekki verið í belti þegar hann velti og að senda ætti hann til Reykjavíkur. Þá fyrst fór ég að gera mér almennilega grein fyrir því að meiri hætta var á ferðinni en ég hafði áður talið vera.“
Svæfður á Borgarspítalanum
„Ég man að sjúkraflutningamaðurinn sem var aftur í bílnum með mér á leið til Reykjavíkur var alltaf að segja ökumanninum að aka hraðar og endurtók þetta nokkrum sinnum.“ Þegar komið var upp á Borgarspítala er Sissi settur á sína eigin stofu og öll tæki og tól flutt inn á stofuna til hans og var viðbúnaðurinn mjög mikill. „Það var ekki vitað nákvæmlega hvað var að hjá mér en vitað var að innvortis meiðsl voru mikil og því var gert ráð fyrir að nánast hvað sem er gæti komið upp á,“ sagði Sissi en þótt ótrúlegt megi virðast þá hafði hann mestar áhyggjur af því að ekki væri allt í lagi í vinnunni því hann var einn sölustjóri og byggingaráðgjafi hjá Byko á þessum tíma. Öndunartruflanir gerðu fljótt vart við sig þegar komið var upp á Borgarspítala og því var sú ákvörðun tekin að Sissi skyldi svæfður og næstu tólf dagana var honum haldið sofandi.
Erfið aðkoma
Svandís og fjölskyldan gekk í gegnum mjög erfitt tímabil á meðan Sissa var haldið sofandi. „Þegar við Guðni komum upp á Borgarspítala fáum við upplýsingar af mjög skornum skammti og vorum í rauninni engu nær um hvað bjátaði að. Loks var okkur greint frá því að Sissa væri haldið sofandi og að við gætum farið inn til hans.“ Aðkoman var að sögn Svandísar mjög erfið, eiginmaður hennar barðist fyrir lífi sínu og næstu dagar myndu skera úr um það hvort hann lifði. Þeir áverkar sem Sissi hlaut eru kallaðir flekabrjóst en þá sogast brjóstkassinn saman við innöndun í stað þess að þenjast út og af þeim orsökum varð öndunarbilun hjá Sissa. Þá tólf daga sem Sissa var haldið sofandi á gjörgæsludeild fengu börnin hans ekki að fara til pabba síns.
Eins og við hefðum hist í gær
Þegar Sissi vaknaði að liðnum tólf dögum var börnum hans veitt heimild til þess að hitta föður sinn. „Ég var svo ruglaður að ég gerði mér ekki í fyrstu grein fyrir því að ég hafi verið sofandi í næstum hálfan mánuð. Þegar ég svo loksins hitti börnin mín og konu eftir að ég vaknaði þá fannst mér það alveg eins og við hefðum hist deginum áður.“ Börn Sissa áttu mjög erfitt á þessum tíma og það var erfiðast fyrir þau að átta sig á því að pabbi sinn væri ekki í lagi. „Krakkarnir áttu mjög bágt,“ segir Svandís, „en ég lærði það í áfallahjálpinni að enginn væri betur til þess fallinn að veita þeim áfallahjálp en einmitt ég.“
Dagleg kraftaverk
„Ég man vel eftir öllum þeim kraftaverkum sem áttu sér stað þegar ég var að komast á fætur, til að byrja með gat ég varla haldið á blaði hvað þá kaffibolla. Svo kom að því að ég fór að komast á lappir og hlutir eins og að ganga í kringum einn stól voru bara stórkostlegt mál,“ sagði Sissi en hann bætti því líka við að það hefði verið stórkostleg tilfinning þegar hann gekk út úr sjúkrastofunni sinni og leit fram eftir ganginum á spítalanum. „Í upphafi var hvert einasta skref sentimeter að lengd og þessir sentimetrar voru með einir af mínum stærstu sigrum í lífinu.“
Þunglyndi gerir vart við sig
Sissi bað sjálfur um að vera sendur af Borgarspítalanum og á Heilsugæslustöð Suðurnesja til þess að vera nærri ættingjum sínum. Eftir nokkurra daga stopp þar krafðist Sissi þess að fá að fara heim og honum héldu engin bönd því hann saknaði sárt fjölskyldu sinnar eftir langa spítaladvöl. „Stórslysi eins og þessari bílveltu sem ég lenti í fylgja margir aukakvillar og skömmu eftir að ég kom heim varð ég mjög þunglyndur þó svo maður hafi reynt að setja upp einhverja grímu út á við.“ Sissi leitaði sér áfallahjálpar en marga dagana var hann nánast óviðræðuhæfur og þunglyndi hans lagðist mjög þungt á fjölskyldulífið.
„Brynjar hefur reynst okkur ótrúlega vel “
„Það má alveg koma fram í þessu viðtali að hann Brynjar Pétursson, nuddari frá Grindavík, hefur reynst okkur fjölskyldunni ótrúlega vel,“ sagði Sissi og Svandís bætti við: „Hann Brynjar var í raun sá sem kom Sissa á lappir og strax á öðrum eða þriðja degi eftir slysið þá náði ég sambandi við hann og hann aðstoðaði mig gríðarlega mikið við að komast í gegnum það álag sem því fylgdi að eiga eiginmann sem var að berjast fyrir lífi sínu. Guðni bróðir minn reyndist mér einnig feikilega vel og var í raun kletturinn sem ég studdi mig við í þessu ferli.“ Velunnarar fjölskyldunnar hafa ekki látið á sér standa en Sissi og Svandís kunna þeim hinar bestu þakkir fyrir. Ævar Ingólfsson var svo enn einn áhrifavaldurinn í lífi fjölskyldunnar þegar hann bauð Sissa vinnu á bílasölunni hjá sér.
„Ævar bauð mér vinnu hjá Toyotasalnum og sagði mér að ég gæti hafið störf hjá honum þegar ég treysti mér til og að sjálfsögðu þáði ég þetta gylliboð. Það hefur sennilega ekki mörgum verið boðin vinna þegar þeir eru allir samanskeyttir og á hækjum,“ sagði Sissi og brosti en þakklætisvotturinn skein úr augum hans.
Trúin mikið haldreipi
„Ég þakka Guði fyrir líf mitt á hverjum einasta degi og í dag er forgangsröðin skýrari en hún áður var. Fjölskyldan á hug minn allan og svo rækta ég trú mína vel því hún var mér mikið haldreipi þegar mest á reyndi og hjálpaði mér til að mynda í gegnum þessa erfiðu veiki sem þunglyndið er,“ sagði Sissi sem bindur í dag miklar vonir við það að komast inn á Reykjalund í teymi sem er sérhæft á verkjasvið og kennir sjúklingum sínum að takast á við sársaukann án lyfja. „Í dag er ég sáttur við það hvernig ég er, ég get ekki skipt um ljósaperur eða mokað innkeyrsluna þegar það snjóar en í dag er eitt sem ég get gert og það er að spenna beltið þegar ég stíg upp í bifreið.“
Fyrir rúmu hálfu ári var Sigurvin úrskurðaður 50% öryrki, sumir dagar eru góðir aðrir slæmir, þeir slæmu einkennast af nístandi sársauka og þá þarf Sigurvin verkjastillandi lyf. Lyfjakostnaðurinn er himinhár yfir árið og í kjölfarið missir Sigurvin marga daga úr vinnu vegna eimsla. Hann er þó hvergi af baki dottinn: „Ég vann ekkert í nóvember og hef ekkert unnið í desember en ég stefni á það að koma sterkur inn í nýja árið.“ Sigurvin býr enn í Sandgerði en í hvert einasta sinn sem hann ekur framhjá slysstaðnum rifjast hinn örlagaríki dagur upp fyrir honum þar sem hann var næstum því búinn að fyrirgera lífi sínu með því að vera ekki í belti.
Eftir Jón Björn - [email protected]