Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mánudagur 1. mars 2004 kl. 13:56

Lifandi tónlist á kaffistofunni

Gott samstarf er milli grunnskólans og tónlistarskólans í Sandgerði, segir á vef Sandgerðisbæjar. Báðir skólarnir starfa undir sama þaki og þess vegna verður tónlistin hluti af daglegu skólastarfi. Kennarar tónlistarskólans hafa tekið upp þá skemmtilegu venju að láta nemendur sína spila fyrir alla kennara skólans í kaffitíma kennara. Þá setjast ungir hljóðfæraleikarar með hljóðfæri sín inn á kennarastofu og spila meðan kennarar drekka kaffi og undrast hvað nemendur þeirra eru fjölhæfir.
Allir hafa mikla ánægju af þessum uppákomum og má segja að þarna sé skipt um hlutverk. Nemendur eru í aðalhlutverki en kennarar áheyrendur. Og það er klappað og dáðst að þessum upprennandi hljóðfæraleikurum. Hvað er betra til að létta skammdegið en góð tónlist, bros og klapp frá kennurum til nemenda að ekki sé talað um hvað þetta bætir sjálfsöryggi nemenda og stuðlar að hlýrri samskiptum milli allra. Gárungarnir segja að þarna komist Sandgerðisbær hjá Stef-gjöldum, með því að hafa eingöngu lifandi tónlist í stofnuninni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024