Lifandi og krefjandi starf sem gefur mikið

- Halla Björk Sæbjörnsdóttir er leikskólakennari í Reykjanesbæ

Halla Björk Sæbjörnsdóttir komst fljótt að því að draumastarfið hennar væri á leikskóla. Halla Björk er leikskólakennari og barnajógakennari í Reykjanesbæ. Hún byrjaði að vinna á leikskóla árið 2001 sem leiðbeinandi en komst fljótt að því að þetta væri draumastarfið hennar og fór í nám sem skilaði henni B.Ed. háskólagráðu í leikskólakennarafræðum árið 2008.

Hvað þarf til að gerast leikskólakennari?

„Eftir stúdentspróf tekur Háskóli Íslands við í leikskólakennarafræðum. Í dag er námið fimm ára meistaranám. Námið sjálft er mjög fjölbreytt og spannar allt frá kenningum um menntun ungra barna, skilning á þroskasálfræði og leiðum til þess að efla og styrkja færni þeirra þannig að þau dafni vel. Á námstímanum er farið í vettvangsnám sem veitir okkur tækifæri til þess að kynnast ólíkri hugmyndafræði og nálgunum. Þannig safnar hver og einn nemi þekkingu sem hann nýtir síðar til þess að þróa eigin sýn sem og að kynnast fleirum innan stéttarinnar.“

Leikskólar eru með svo fjölbreytt starf
„Ég byrjaði sem leiðbeinandi árið 2001 og áttaði mig fljótlega á því að það væri mjög gaman að vinna með börnum. Ég var svo heppin að fá að starfa með góðum hópi kennara sem kveiktu áhuga minn á  því að kenna börnum með skapandi hætti. Það sama vil ég gera fyrir börnin, að vekja áhuga þeirra þannig að þau þyrsti í frekari þekkingu. Fyrsta skólaganga þeirra ætti að markast af því að hafa gaman af því að læra þannig að áframhaldandi nám verði þeim í huganum gleðiefni frekar en þraut. Liður í því er að kenna þeim í gegnum leikinn því þannig læra börn á leikskólaaldri mest. Á það við allt frá mál og læsi til þekkingaratriða, félagsfærni, umhverfismennt og svo lengi mætti telja.

Áskorun mín sem kennara er því að skoða hvað vekur eftirtekt hjá barnahópnum og bæta ofan á viskubrunn þeirra en taka tillit til þess hvar þau eru stödd í þroska og einnig hverjar þarfir hvers og eins eru. Sníða námsumhverfið að verkefnunum. Veita þeim stuðning og hlýju um leið og þau reyna á sig og efla færni sína smám saman. Um leið og börnin upplifa að þeim sé veitt tækifæri til þess að þroskast og vinna smá sigra verður einskær gleði meðal þeirra sem hefur smitandi áhrif. Það er ekki hægt annað en að fyllast þakklæti yfir því að vinna svona lifandi starf.“

Hvað með launin?

„Eftir háskólanám er eðlilegt að vilja fá hærri laun. Þrátt fyrir að starf með börnum sé gefandi, er það einnig gífurlega krefjandi. Best væri að svona starf væri jafn vel borgað og gerist á Norðurlöndunum. Ég hugsaði ekki um launin í upphafi því ég vildi vinna við það sem ég vissi að ég hefði gaman af. Launin mættu hækka hjá okkur eins og fleirum í fræðslustétt,“ segir Halla Björk og brosir sínu blíðasta.