Lifað með Parkinson í 23 ár
Héðinn Waage var 25 ára þegar hann greindist með Parkinson. Sá úrskurður var mikið áfall fyrir ungan mann í blóma lífsins. Hann var hins vegar ekkert á þeim buxunum að gefast upp og það skilaði honum í byltingarkennda aðgerð á sínum tíma sem gerði honum kleift að vera áfram þátttakandi í lífinu. Í hann var grætt tæki sem með rafboðum eykur dópamínframleiðslu líkamans en Parkinson stafar af dópamínskorti.
Héðinn var fyrstur manna til að fá þetta tæki á sínum tíma og nú er hann á leiðinni út í aðra aðgerð til að fá nýtt tæki og verður þetta jafnframt fyrsta ígræðslan með nýja tækinu. Hann er því á leiðinni í uppfærslu, eins og hann orðar það sjálfur.
Héðinn er 48 ára í dag og hefur lifað með Parkinson í 23 ár. Hann hefur þurft að yfirstíga margar hindranir á þessari leið og er í dag reynslunni ríkari sem hann miðlar til þeirra sem lenda í svipuðum sporum.
„Svona fyrir utan að eiga erfitt með mál, líður mér vel og er í þokkalegu formi. Þessir málerfiðleikar hafa reynst mér Þrándur í götu og ég lendi oft og iðulega í ýmsum uppákomum af þeim sökum. Það halda margir að ég sé dauðadrukkinn eða stífdópaður og bregðast við samkvæmt því,“ segir Héðinn m.a. í einlægu viðtali í Víkurfréttum í dag.
---
VFmynd/elg - Héðinn Waage.