Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lifað með ljónum í Afríku
Laugardagur 27. desember 2008 kl. 11:57

Lifað með ljónum í Afríku



Arna Björg Árnadóttir, Arna Dögg Tómasdóttir og Hans Árnason, upplifðu sannkallað  ævintýri síðastliðið sumar þegar þau fóru til Afríku í tvo mánuði. Tilgangur dvalarinnar var sjálfboðavinna í Antelope Park í Zimbabwe þar sem þau lifðu með ljónum og öðrum dýrum merkurinnar. Ljónin eru í útrýmingarhættu en verkefnið gengur út á að fjölga þeim í náttúrunni.  Við fengum ferðasöguna af þessu einstaka sumarævintýri


Með ljónsunga í fóstri

Í Antelope Park  er í gangi verkefni sem gengur út á það að fjölga ljónum í náttúrunni því þeim hefur fækkað alveg gríðalega eða um 80 – 90 % síðastliðin 30 ár og ef ekkert breytist þá munu þau hverfa úr náttúrunni í mjög náinni framtíð. Ferlinu er skipt upp í fjögur stig. Fyrsta stig byrjar með ljónsungunum, þeir eru teknir frá mæðrum sínum þriggja vikna gamlir. Þó er óþarfi að vorkenna mæðrunum því það er mjög algengt að þær missi unga sína í náttúrunni. Þeir eru settir í fóstur hjá umsjónarmönnum sem kynna þá fyrir náttúrunni með reglulegum göngutúrum þar til þeir eru orðnir 17 - 19 mánaða gamlir. Eftir það er ekki lengur óhætt að ganga með þeim. Þeir fá einungis að fara út úr búrum sínum annað slagið á nóttunni til að æfa sig í að veiða í fylgd með umsjónamönnum sem fylgja þeim um borð í safaritrukkum. Það er undirbúningur fyrir stig tvö.  Annað stig hefst þegar ljónin hafa sannað sig í veiðihæfni og er þeim þá sleppt út í afgirt svæði þar sem þau sjá um sig alveg sjálf. Í þeim garði eru engir samkeppnisaðilar um bráðina þ.e. önnur rándýr. Þegar ljóst er að þeim gengur vel uppá eigin spýtur eru þau færð yfir á þriðja stig. Þá er svæðið innan girðingar stækkað og  minniháttar samkeppnisaðilum er hleypt inn á svæðið, s.s. hýenum, villihundum og öðrum minni dýrum. Fjórða stig felst svo í þvi að sleppa ljónunum, sem hafa fæðst í stigum tvö og þrjú og þannig verið alin upp á sama hátt og ljónsungar í náttúrunni, án nokkurar meðhöndlunar manna.



Út að labba með ljónsungana

Okkar vinna fólst í því að fara með ljónsungana á fyrsta stigi í  tvegggja til fjögurra tíma göngutúra tvisvar á dag og að hirða um bæði ljónsungana og öll hin ljónin, sem ýmist eru kominn yfir aldurinn til að ganga með og þau sem eru notuð til ræktunar. Í ljónagöngunum voru ýmsar öryggisreglur sem varð að fara eftir, meðal annars að snúa aldrei baki í ljónin, aldrei að setjast niður og ekki ganga í mjög skærum litum eða vera með eitthvað hangandi, eins og peysur eða myndavélar, ljónin sem gengið er með  eru ennþá bara ungar og finnst eins og öðru ungviði mjög gaman að leika sér, en leikur við ljón getur verið varasamur. Þó fengum við okkur oft trjágreinar og festum gras eða annað náttúrulegt dót á endann til að leika við þau svipað og maður gerir við kettlinga. Við urðum að gæta þess að halda spítunni vel frá okkur svo þau myndu ekki krafsa óvart í okkur. Hættan var aldrei að ljónin myndu ráðast á okkur heldur að þau myndu gleyma sér í hita leiksins og koma fram við okkur eins og aðra ljónsunga, en bank og glefs sem tilheyrir leik gat auðveldlega skaðað okkur. Þar af varð umgengni okkar alltaf að vera sérstaklega öguð öllum stundum.


Næturferð á fílssbaki undir fullu tungli


Í garðinum áttu  einnig fjórir fílar heimili. Þeir höfðu sína eigin umsjónarmenn og höfðu vinnu við að fara með gesti garðsins í gönguferðir. Þeim hafði verið bjargað í þurrki sem reið yfir landið í lok níunda áratugarins þegar þeir voru litlir ungar. Í garðinum eru líka hestar sem garðurinn hefur tekið að sér fyrir bændur í nágrenninu, sem áttu ekki lengur fóður fyrir þá. Við höfðum líka verkefni við að hirða um þá og að sjálfsögðu fengum við að fara á bak á meðan dvöl okkar stóð. Við fengum að fara í næturferð undir fullu tungli, sem dæmi. Sumir völdu að fara á fílsbaki og aðrir á hestbaki og við þurftum ekkert ljós til að vísa okkur veginn nema tunglið og stjörnurnar. Sá leiðangur gaf okkur einstaka sýn á flóru og fánu garðsins og stórkostlega stemningu sem tungsljósið hafði en það gaf frá sér næstum jafn mikla birtu sem miður dagur væri.
Auk umsjónar dýranna tókum við einnig þátt í almennu viðhaldi við garðinn, s.s. að mála búr ljónanna, fara meðfram girðingu alls garðsins, sem er margir kílómetrar að lengd og athuga göt og gera við til að koma í veg fyrir að dýrin sleppi út eða að rándýr komist inn eða að labba um hvern fermetra á svæðinu til að athuga hvort óprúttnir hafi komið fyrir veiðigildrum og fjarlægja þær þá.



Ótrúleg bjartsýni þrátt fyrir ömurlegt ástand

Eigandinn og margir af yfirmönnum garðsins eru afríkubúar af  þriðju eða fjórðu kynslóð breskættaðra sem fæðst hafa í Afríku og eins er nokkuð um að fyrrum sjálfboðaliðar hafi flutt frá heimalandi sínu um tíma til að vinna þarna, flestir frá Bretlandi. Svo var mikið af starfsfólki innfætt og var alveg sérstaklega gaman að fá að kynnast því fólki og lifnaðarháttum og hugsanahætti þess, en það átti heima í þorpinu sem var í u.þ.b. hálftíma göngufæri frá garðinum. Fólkið lagði af stað eldsnemma á morgnanna í vinnu, fyrir sólarupprás, og fóru stuttu eftir sólsetur heim til sín aftur.  Það sem okkur fannst sérstæðast við þessa þjóð var það hversu æðislega bjartsýn og jákvæð þau voru alltaf, þrátt fyrir ömurlegt ástand í landinu þeirra, þar sem verðbólgan var yfir þúsund prósent. Það var ekki mikill matur í landinu og öfgamenn gengu vopnaðir milli húsa að krefjast þess með hótunum að fólk kysi „rétt“. Allt var nýtt til hins ýtrasta og jafnvel skór voru saumaðir saman ef þeir duttu í sundur og allir hugsuðu og töluðu um að þetta myndi lagast, þó maður sæi miklar áhyggjur í svip þeirra.  Allir voru vinir allra og vinir hikuðu ekki við að faðmast og takast í hendur þrátt fyrir að vera karlmennskan uppmáluð, eitthvað sem virðist einhverra hluta vegna vera stranglega bannað hér í vestræna heiminum og segir sýna vott um minni karlmennsku. Aldrei höfum við kynnst meira brosmildi í öðrum löndum sem við höfum farið til og þó er þetta land í versta ástandinu.


Tungumálakennsla og strákofasmíði


Við Arna skildum svo við Hans í Viktoríufossum þar sem hann hélt áfram að vinna með ljónum og héldum af stað til Mósambík.  Það var á allan hátt allt öðruvísi land, við fórum úr kulda (við frostmark yfir nóttina og upp að 20 gráðu hita um hádegi) í algjöra steik og rakt loft, síðbuxurnar og peysurnar voru ekki notaðar meira þann mánuðinn nema kannski rétt á kvöldin. Þarna voru pálmatré einkennandi og allstaðar sandur og sjórinn svo tær og fallegur. Hugarfar landans var einnig allt annað.
Verkefnið í Mósambík snerist um ýmis samfélagsverkefni. Við fórum í skóla fjóra morgna í viku að kenna börnum á aldrinum tveggja til sjö ára ensku og portúgölsku. Við byrjuðum nýtt verkefni við skólann sem var að rækta grænmeti svo börnin gætu fengið fjölbreyttari hádegismat en vaninn var að elda handa þeim hrísgrjón í hverjum hádegismat. Eftir hádegi unnum við að kenna ungmennum ensku eða að reisa strákofa fyrir nágranna okkar sem misst höfðu kofann sinn í fellibyl fyrr á árinu. Allir búa í strákofum, þó voru svona „venjuleg“ hús og flott hótel inn í miðbænum, sem var lítið stærri en Hafnargatan. Við byggingu þessa strákofa voru notaðir þrír til fimm naglar, allt annað var bundið saman, við notuðum plastband en innfæddir nota sérstaka tegund af stráum. Lítil sem engin húsgögn var að sjá inni á þessum heimilum, í mestalagi einstaka koll og alltaf er eldað úti á hlóðum í sandinum. Oft bjuggu heilu fjölskyldurnar (og jafnvel tvær saman), sem samanstóð kannski af fjórum til átta einstaklingum á afgirtu svæði með tveimur kofum sem hvor um sig var líklega um þrír fermetrar. Steyptur grunnur undir strákofum var álitinn munaður. Þó áttu sumir rúm fyrir fullorðna fólkið og einstaka smáhluti og skreyttu veggina með dúkum.



Með litlu systkinin á bakinu

Portúgalska er opinbera tungumálið í Mósambík þannig að við áttum erfiðara með að tala við fólkið í bænum þarna heldur en í Zimbabwe þar sem enska var aðaltungumálið. Þó var alltaf einn og einn inni á milli sem gat túlkað. Svo er handapat og látbragðsleikur alþjóðlegur sem kom sér vel ef við fórum á markaðinn. Við höfðum þó alltaf túlk með okkur í öllum verkefnunum og hann talaði, ásamt ensku, bæði portúgölsku og Shjitsua (sem er tungumál innfæddra).
Á laugardögum fórum við í heimsókn á munaðarleysingjahæli og lékum við krakkana  að dóti sem við komum með. Litabækurnar voru vinsælastar, nema hjá einstaka strákum, þeir voru of uppteknir af að æfa sig í fótbolta, en krakkar þarna í bænum voru alveg ótrúlega góðir í þeirri íþrótt, og sérstaklega unglingarnir. Oft komu líka krakkar úr nágrenninu að leika líka, þeirra á meðal voru systkini um sjö til átta ára sem voru að passa sjö mánaða tvíbura systkini sín. Þau báru þau í slæðu á bakinu, eins og siður er að gera þarna og það virtist ekkert hindra þau í að leika við hina krakkana og litlu börnin sváfu bara á meðan þó þau væru á fleygiferð. Ef litlu krógarnir bærðu á sér þá stóð systkinið upp og hossaði sér til að róa barnið en hélt samt sem áður að lita eða föndra.

Þakklæti og gleði yfir litlu

Krakkarnir sem við unnum með, bæði í skólanum og á munaðarleysingjahælinu voru alltaf kát.  Þau voru svo ánægð að sjá okkur á morgnana að þau komu hlaupandi á móti bílnum og hrópuðu og kölluðu til að fagna komu okkar.  Ánægðari börn held ég að sé ekki hægt að finna, þó krakkar hérna heima eigi allt sem hugurinn girnist og fái að leika sér út í eitt þá hef ég aldrei séð jafnmikla gleði og hjá þessum krökkum. Bara við það að fá smá dót eða smá athygli voru þau alveg í skýjunum og það að fá eina hrísgrjónaskál í hádegismat var alveg æði. Ef eitthvert barnanna kom með einhverskonar mat með sér í skólann, einn ávöxt eða eina kexköku, skiptu þau því í marga litla bita svo sem flestir fengu eitthvað. Ekki var hægt að sjá neina frekju eða neitt á þeim dúr heldur ríkti bara umhyggja þegar kom að mat. Þó voru þau töluvert passasamari á dótið. Þegar við gáfum þeim blöðrur einn daginn vissum við ekki hvert þau ætluðu, þau voru svo himinlifandi, meiri gleði en maður getur ímyndað sér skein úr augum þeirra og þau fóru að syngja og dansa af gleði.
Einnig sá maður hvað eldri systkini pössuðu yngri systkyni sín mjög vel og ef eitthvað þurfti að gera eins og að ganga frá voru allir ólmir í að hjálpa til og allt sem þurfti að bera var borið á höfðinu eins og siður er þarna í landi. Margir af drengjunum voru duglegir við að sýna okkur herramennsku við tiltektina og tóku af okkur það sem við héldum á og báru það fyrir okkur brosandi út að eyrum, hreyknir.


Einstök og þroskandi lífsreynsla



Sú lífsreynsla sem við fengum á þessum tveimur mánuðum, sem við vorum þarna úti, er alveg einstök. Það eru svakaleg forréttindi að fá að upplifa svona annan heim og kynnast nýju, ólíku fólki. Við höfum lært svo margt á svo stuttum tíma og við höfum lært hvað er í raun nauðsynlegt í lífinu og hvað er munaður. Þetta fær mann til að meta allt það sem maður á hérna heima svo miklu betur og maður hugsar oft til þess hvað við eigum það í raun og veru gott þrátt fyrir slæmt ástand í þjóðfélaginu eins og stendur, við verðum að muna að þakka fyrir allt það sem við eigum og ekki gleyma okkur að í óskapa það sem miður fer.
Við viljum þakka öllum þeim sem styrktu okkur innilega fyrir hjálpina, bæði fyrirtækjum  og einstaklingum sem keyptu af okkur vörur.
Ef einhverjir hafa áhuga á að kynna sér þessi verkefni þá endilega kíkið á Lionalert.org og antelopepark.co.zw og þeir sem hafa áhuga á sjálfboða vinnu og vilja láta gott af sér leiða geta kíkt á Ninukot.is.


Arna Björg Árnadóttir, Arna Dögg Tómasdóttir og Hans Árnason.











Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024