Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Líf og fjör í Frumleikhúsinu
Miðvikudagur 11. október 2006 kl. 11:59

Líf og fjör í Frumleikhúsinu

Nú í lok október verður frumsýndur söngleikurinn Cinderella story en verkið er byggt á samnefndri kvikmynd sem er nútíma öskubuskusaga en gerist hér í Keflavík. Alls taka um sextíu ungmenni þátt í uppsetningunni og er ljóst að miklir hæfileikar búa í þessum krökkum og metnaðurinn ótrúlegur.

Æft er daglega, þrjá til sex tíma í senn og er valinn manneskja í hverju hlutverki, hvort sem um er að ræða leik, söng, dans, förðun, búninga eða aðra tæknivinnu. Tónlistin spilar að sjálfsögðu stórt hlutverk í sýnigunni og eru lögin útsett og flutt af hinum landskunna gítarleikara Guðmundi Péturssyni sem fékk til liðs við sig nokkra snillinga í bransanum. Krakkarnir hafa flestir einhverja reynslu af leik úr skólaleikritum en þó eru margir sem eru að stíga sín fyrstu skref á sviði leiklistar.

Mikil tilhlökkun er fyrir sýningunum sem eins og áður segir hefjast nú í lok október og verður sýnt í Frumleikhúsinu, Vesturbraut 17, þar sem Leikfélag Keflavíkur er með aðstöðu. Það eru þær Guðný Kristjánsdóttir, Gunnheiður Kjartansdóttir og Íris Halldórsdóttir sem stjórna þessari uppsetningu og segja þær æfingarnar ganga vel en framundan eru strangar æfingar fram að frumsýningu enda um metnaðarfullt verkefni að ræða og krakkarnir „bara flottir“ og því skemmtilegt að mæta á æfingar og vinna með þeim.

„Við lofum frábærri skemmtun fyrir alla fjölskylduna og vonum að Suðurnesjabúar kunni að meta þessa sýningu sem hefur ákveðið forvarnargildi enda krakkarnir í góðum félagsskap þar sem eingöngu gleði og hamingja ráða ríkjum“!

Og undir þessi orð tekur hópurinn sem samanstendur af  hressum krökkum á aldrinum 14 – 26 ára.

 

Mynd: Úr samnefndri kvikmynd - en sagan er sett á svið í Frumleikhúsinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024