Líf og fjör á þemadegi Njarðvíkurskóla
Það var líf og fjör síðastliðinn mánudag í Njarðvíkurskóla þegar nemendur ásamt kennurum sínum brutu upp hið hefðbundna skólastarf og drifu sig út í náttúruna en haldinn var svokallaður þemadagur undir yfirskriftinni “náttúran”. Segja má að skólinn hafi ekki verið heppnari með veður, brakandi sól og logn, enda nutu bæði kennarar og nemendur veðurblíðunnar, ýmist við að skoða lífríkið í fjörunni, tína ber í heiðinni ellegar að spássera um bæinn svo dæmi séu tekin.
Elstu nemendur skólans gengu um Reykjanesbæ og skoðuðu hin margvíslegu útilistaverk undir handleiðslu Valgerðar Guðmundsdóttur menningarfulltrúa, þar sem byrjað var á útilistaverkinu af Stjána bláa sem stendur fyrir ofan Keflavíkurhöfn. Annar hópur gekk svo Garðskagafjöruna og endaði í Fræðasetrinu í Sandgerði. Þá skoðuðu yngri bekkingar m.a. hvernig sorpmálum er háttað, en sorpið er að sjálfsögðu hluti af náttúrunni þó hinn almenni íbúi vilji sem minnst af því vita.
Yngri bekkingar skólans fóru svo ýmist í gönguferðir ellegar hresstu uppá máða Parísarleiki á skólalóðinni og máluðu þá í skærum fallegum litum auk þess sem nemendur Asparinnar máluðu girðingarvegg við lóð skólans. Allra yngstu börnin skoðuðu svo sitt nánasta umhverfi og fóru m.a. yfir umferðarreglurnar með kennurum sínum, enda mikil umferð þar sem Njarðarbrautin er og eins gott að passa sig þar.
Í dagslok voru allir ánægðir með vel heppnaðan dag þar sem safnað hafði verið skeljum m.a. auk þess allt ljótt rusl var fjarlægt sem stakk í stúf við sjálfa móður jörð.