Líf og fjör á Sjóaranum síkáta
Undirbúningur hefur staðið yfir frá því í ársbyrjun og verður mikið lagt í hátíðina í ár. Barnadagskráin er í öndvegi en búið er ráða Villa og Góa, Gunna og Felix, Einar Mikael, íþróttaálfinn, Sollu stirðu, Sigga sæta, Gogga Mega, Sirkus Ísland, Pílu pínu, brúðubílinn og fleiri. Þá verða leiktæki og hoppukastalar alla helgina, paintball og lazertag, vatnaboltar, gokart, dorgveiðikeppni, skemmtisigling, sjópulsa í höfninni, krakkakeyrsla á mótorhjólum, andlitsmálning, svo eitthvað sé nefnt.
Einnig verður fiskasafn með lifandi sjávardýrum í fiskabúrum á bryggjunni á sunnudeginum en það er samstarfsverkefni Sjóarans síkáta, Hafró í Grindavík, Gunna kafara og sjávarúvegsfyrirtækjanna í Grindavík. Var þetta gert í fyrsta skipti í fyrra og sló algjörlega í gegn. Einnig hafa frystitogarar Þorbjarnar safnað saman ýmsum furðufiskum og verða þeir til sýnis fyrir gesti og gangandi. Sullubúr verður fyrir krakkana þar sem þau geta komist í tæri við krabba, skeljar og minni fisktegundir.
Óhætt er að segja að landslið skemmtikrafta verði á Sjóaranum síkáta í ár. Á meðal þeirra sem búið er að bóka á Sjóarann síkáta er Páll Óskar sem kemur fram bæði á Bryggjuballi og verður með Palla-ball í íþróttahúsinu. Bræðurnir Jón og Friðrik Dór Jónssynir munu skemmta saman ásamt hljómsveit á bryggjuballinum og heimamaðurinn Ellert Heiðar Jóhannsson sem sló í gegn í The Voice treður upp ásamt hljómsveit sinni. Ingó Veðurguð sér um brekkusöng eins og honum einum er lagið. Þá verður keppnin Sterkasti maður á Íslandi á sínum stað og er met þátttaka í ár.
Þá mun hópur tónlistarfólks í Grindavík standa fyrir klassískri rokkhátíð í íþróttahúsinu. Alls koma fram 15 flytjendur, sem flestir búa í, hafa búið í eða tengjast Grindavík á einhvern hátt. Þetta fólk kemur úr ólíkum áttum en á það sameiginlegt að njóta þess að flytja frábæra tónlist. Hópurinn ætlar að flytja framsækið rokk sem átti sitt blómaskeið á áttunda áratugnum. Flutt verða lög eftir hljómsveitir á borð við Pink Floyd, Marillion, Yes og Queen, í bland við nýrra efni.
Björgunarsveitin Þorbjörn kemur að skipulagningu og gæslu á hátíðinni með öflugum hætti að vanda og er í lykilhlutverki á hátíðinni. Hátíðin hefur vaxið með hverju árinu, þar er fjölbreytt dagskrá alla helgina en mikið er lagt upp úr vandaðri barnadagskrá. Um 25 þúsund gestir voru á hátíðinni í fyrra.