Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Lið FS komið í undanúrslit í MORFÍs
    Sigurður Smári Hansson, Magnþór Breki Ragnarsson, Sólborg Guðbrandsdóttir og Bjarni Halldór Janusson.
  • Lið FS komið í undanúrslit í MORFÍs
    Bjarni Halldór Janusson.
Fimmtudagur 9. apríl 2015 kl. 08:52

Lið FS komið í undanúrslit í MORFÍs

Liðsstjórinn segir gríðarlegan tíma fara í þetta.

Lið Fjölbrautaskóla Suðurnesja er komið í undanúrslit í MORFÍs. Það er besti árangur síðan liðið komst í úrslit árið 2009, þar sem það tapaði naumlega fyrir liði Verzlunaskóla Íslands. Um leið er þetta næstbesti árangur skólans. Ef FS kemst núna í úrslit má segja að 2009 sé að endurtaka sig því þá komst FS bæði í sjónvarp í Gettu betur og úrslit MORFÍS. FS tók fyrst þátt í MORFÍs þegar MORFÍs var stofnað árið 1984.

Liðsmenn skipa þau Sigurður Smári Hansson, frummælandi, Magnþór Breki Ragnarsson, meðmælandi ogSólborg Guðbrandsdóttir, stuðningsmaður. Þjálfari liðsins er Arnar Már Eyfells og liðsstjóri Bjarni Halldór Janusson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gríðarlegur tími sem fer í þetta

Víkurfréttir heyrðu aðeins í liðsstjóranum, Bjarna Halldóri, sem sagði uundirbúning keppninnar ganga út á það að báðir skólar semji um umræðuefni nákvæmlega viku fyrir keppni. „Ef ekki næst sátt um umræðuefni neyðast liðin til þess að draga, sem var raunin núna. Við hófum samningaviðræður við MS klukkan 8 um kvöld sl. mánudag og svo var klukkan orðin 4 um nótt þegar við urðum að draga. Svo þegar umræðuefnið hefur verið valið þá kryfjum við það og lærum allt sem við getum um það og punktum niður - öll meðrök, mótrök og allan pakkann.“ Svo fer þjálfarinn í að skrifa ræðurnar og liðsstjórin skrifar svör í svaramöppuna. Þannig vinna þjálfarinn og liðsstjóri mjög mikið saman þegar verið er að skrifa svör og ræður. Þegar fyrstu ræðurnar eru tilbúnar byrja ræðumenn að læra þær utan blaðs og svo fer þjálfarinn yfir málflutning með ræðumönnum. „Tíminn sem fer í þetta allt saman er gríðarlegur eða um 70-80 klst á einni viku.“

Lukkudýrið dótabíll úr Kindereggi

Spurður um lukkudýr og herkænsku segir Bjarni Halldór að lukkudýrið heiti Salka og vera dótabíl úr Kindereggi. „Herkænskan okkar er kannski aðallega hvað þjálfarinn okkar er mikill einræðisherra. Styrkleikinn liggur þó í heildinni og samheldni liðsins. Það vinna allir vel saman og það ná allir mjög vel saman.“ Jafnframt segist hann vera rosalega mikill MORFÍs-nörd eins og mætti kalla það. „Fyrir utan að vera í liði er ég líka í stjórn MORFÍs, þar er ég framkvæmdastjóri. Stjórnin mætir á allar keppnir og sér um allt tengt MORFÍs, svo ég er búinn að mæta á allar keppnir tímabilsins og nærist á þessu öllu saman. Ég hef lært meira af MORFÍs heldur en flestu öðru,“ segir Bjarni Halldór. 

Ekki bara verðandi stjórnmálafólk

Það sem er svo mest gefandi við þetta allt saman segir hann vera góð þjálfun í rökhugsun, framkomu og ræðumennsku. „Þess vegna finnst mér leiðinlegt þegar það er gert lítið úr þessari keppni og þegar hún er bendluð við einhverja umræðuhefð á Alþingi. Það eru ekki bara stjórnmálamenn sem hafa tekið þátt í MORFÍs heldur líka fólk sem hefur verið áberandi í fjölmiðlum og menningarlífi undanfarin ár,“ segir Bjarni Halldór að lokum. 

VF/Olga Björt