Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Léttsveit TR aflar fjár fyrir Grikklandsför með tónleikum
Léttsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
Sunnudagur 8. júlí 2012 kl. 08:18

Léttsveit TR aflar fjár fyrir Grikklandsför með tónleikum

Léttsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar hefur þegið boð um að halda tvenna tónleika á næstu ISME ráðstefnu, sem haldin verður í borginni Þessaloniku á Grikklandi, dagana 15. – 20. júlí 2012. Þetta boð er afar mikill heiður fyrir Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og jafnframt einstakt tækifæri fyrir Léttsveitina. En um leið er tónlistarmenntun á Íslandi sýnd mikil virðing með þessu boði ISME.

ISME, International Society of Music Education,  eru ein elstu og virtustu alþjóðasamtök um tónlistarmenntun og -kennslu sem til eru. Samtökin, sem voru stofnuð af UNESCO árið 1953, standa reglulega fyrir menntaráðstefnum um tónlist og eru þær fjölsóttar af tónlistarkennurum, skólastjórum og öðrum sem vinna að menntamálum í tónlist eða tengjast þeim málaflokki á einhvern hátt.  Á ISME ráðstefnum er ávallt boðið upp á tónlistarflutning eða formlega tónleika flutta af nemendum tónlistarskóla, skólahljómsveitum eða skólakórum og það þykir mikill heiður að fá boð um að halda tónleika á ISME ráðstefnu. Afar fáir íslenskir tónlistarskólar eða skólahópar hafa fengið slíkt boð í gegnum tíðina og það er alllangt síðan að íslenskur tónlistarhópur kom síðast fram á slíkri ráðstefnu.

„Nú erum við á fullu að undirbúa tónleikaferðalagið okkar til Grikklands. Þar spilum við bæði á ráðstefnunni í Þessaloniku og svo förum við líka til Aþenu og spilum þar,“ segir Karen Sturlaugsson, stjórnandi léttsveitarinnar í samtali við Víkurfréttir. Það verða 18 hljóðfæraleikarar sem fara utan með allt það hafurtask sem fylgir ferðalagi hljómsveitar.
Nú í lokaundirbúningi ferðalagsins er blásið til tónleika í Stapa sem verða miðvikudaginn 11. júlí kl. 20. Er það von Léttsveitar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar að sem flestir mæti í Stapann til að njóta tónlistarinnar og um leið styðja við bakið á tónlistarfólkinu sem er að fara í dýrt ferðalag síðar í mánuðinum.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024