Lét slysfarir ekki hindra góðan námsárangur
Elka Mist Káradóttir úr Grindavík hlaut viðurkenningu FS fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi við útskriftarathöfn skólans á vorönn 2009 sem fram fór síðastliðinn laugardag. Elka Mist fékk einnig viðurkenningu frá Sparisjóðnum í Keflavík sem felst í styrk upp á 100 þúsund krónur. Þeim peningum verður vel varið til frekari náms, segir Elka Mist.
Elka Mist úrskrifaðist af Félagsfræðibraut sem hún tók á aðeins þremur árum. Hún stefnir á nám í viðkskiptafræði og hefur komið sér upp ágætum grunni þar sem hún hóf upphaflega nám á viðskipta- og hagfræðibraut. Segist hafa skipt yfir í félagsfræðina þar sem sagan hafa heillað hana.
Og á að taka viðskiptafræðina með sama trukki?
„Verður maður ekki að vona það,“ svarar hún og hlær. Segir að tvær fyrstu annirnar hafi reyndar gengið frekar illa. „Það var ýmislegt að angra mig á þeim tíma þannig að ég náði ekki góðri einbeitingu. Síðan hrökk þetta í gírinn á síðustu tveimur önnunum, var með 25 einingar núna og meðaleinkunn upp á 9,6.“ svarar Elka Mist.
„Ætli maður starfi ekki sem endurskoðandi á einhverjum skemmtulegum vinnustað,“ svarar Elka Mist aðspurð um framtíðarstarfið. Sér fyrir fjölskyldu, börn og hesta en hún hefur verið dugleg í hestaíþróttinni frá unga aldri.
„Ég hef ekkert riðið út síðan síðasta vor eftir að ég datt af baki og slasaðist. Braut rófubein og svona. Ætla aftur á bak þegar ég fæ græna ljósið frá lækninum en það styttist vonandi í það. Hestarnir bíða á meðan,“ segir Elka Mist. Hún datt af baki þegar hestur hennar fældist vegna fjórhjóls sem kom aðvífandi inn á reiðstíginn, þar sem fjórhjól eiga ekki að vera.
En hvað á að gera í sumar?
„Njóta sumarins og skemmta mér. Er búinn að fá vinnu við liðveislu og í Bláa lóninu en það er sama og með hestana, ég bíð eftir grænu ljósi frá lækninum.“
---
Ljósmynd/Oddgeir Karlsson - Elka Mist Káradóttir á útskriftardaginn.