Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lét handarmissi ekki stöðva sig
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 16. mars 2024 kl. 06:12

Lét handarmissi ekki stöðva sig

Ingibjörg Þórdísar- og Ólafsdóttir missti hönd í vinnuslysi í frystihúsi í Sandgerði aðeins sextán ára gömul. Hefur ekki látið það stöðva sig, tók stúdentspróf og lauk síðan meistaranámi í háskóla. Fékk taugaáfall mörgum árum eftir slysið og enga  félagslega aðstoð. Nú nýtur hún lífsins á golfvellinum og elskar félagsskapinn!

Ingibjörg Þórdísar- og Ólafsdóttir er mögnuð kona með mikla og sterka tengingu við Suðurnesin og sérstaklega Sandgerði. Hún bjó þar sextán ára gömul þegar hún lenti í hræðilegu slysi og þurfti í kjölfarið að taka af henni nánast alla hægri höndina. Strax eftir slysið var ekki í boði að væla og hún hefur heldur betur staðið sína plikt og vel það en vissulega gaf stundum á bátinn hjá henni en þá fór hún í mikla sjálfsvinnu. Í dag er hún í frábærri stöðu hjá Landspítalanum og spilar golf og ekki nóg með það, hún er ansi góð í íþróttinni.

Ingibjörg með tveimur af systkinum sínum, Sigurlínu og Ólafi, þegar hún fékk meistaragráðuna sína.

Ingibjörg var til í að mæla sér mót við blaðamann í Sandgerði, n.t.t. fyrir utan húsnæði Miðness eins og það heitir núna en það er í eigu Nesfisks í dag en árið 1977, þegar slysið átti sér stað og hún var ennþá sextán ára, hét fyrirtækið Miðnes.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Já, ég mun líklega alltaf muna þennan dag eins og hann hafi gerst í gær, þetta var mánudagur og ég byrjaði að vinna á þessari marningsvél á hádegi. Ég var farin að leiða hugann að því að hætta hjá fyrirtækinu, það var stutt í páska man ég og ég vildi fara breyta til. Ég var fjórtán ára þegar ég byrjaði að vinna hjá fyrirtækinu, fékk að vinna hálft sumar eftir að hafa verið í unglingavinnunni í Garðahreppi. Þetta tíðkaðist í þá daga, flestir ef ekki allir krakkar voru byrjaðir að vinna í fiski þetta ungir. Við krakkarnir vorum settir á þessa marningsvél, það þótti afskaplega leiðinlegt að lenda á henni og hún var auðvitað kolólögleg, hvað þá fyrir börn að vera vinna á henni og ég má þakka fyrir að hafa ekki misst lífið þennan dag. Einhver öryggishlíf átti að vera á henni en hún tafði svo mikið fyrir vinnunni svo hún var aldrei notuð, ég geri mér ekki grein fyrir hvort ég hafði verið tæp að lenda í slysi á vélinni, við vorum bara sett á hana og unnum, ég hafði verið að vinna á henni alveg frá því að ég byrjaði að vinna þarna fjórtán ára gömul. Ég ætla rétt að vona að þetta sé ekki leyft í dag, ég myndi ekki leyfa afkomendum mínum að fara inn á svona vinnustað í dag ef hlutirnir væru eins og þeir voru þegar ég lenti í þessu hræðilega slysi.“

Óli og Dísa, foreldrar Ingibjargar.
Ömmubörnin.

Óbærilegur sársauki

Ingibjörg man ekki beint eftir sársaukanum þegar slysið átti sér stað en næstu dagar, vikur og mánuðir voru nánast óbærilegir. „Líkaminn okkar er svo fullkominn, hann tók yfir þegar slysið átti sér stað svo í minningunni er ég ekkert rosalega kvalin fyrst eftir að þetta gerðist. Ég festist í vélinni og þá eru eðlileg og ósjálfráð viðbrögð að reyna rífa sig lausa en þá sleit ég allar sinar og taugar. Ég náði að stöðva vélina en ég var hrædd um að enginn myndi hlusta á öskrin í mér því það var strákur sem var að vinna með okkur sem var alltaf að fíflast í okkur stelpunum, ég hélt að enginn myndi taka mark á mér ef ég öskraði, nokkurs konar „úlfur, úlfur.“ Á meðan ég var föst í vélinni horfði ég eingöngu á snúruna úr vélinni þar sem hún var í sambandi í veggnum, ég skipaði þeim fyrsta sem kom að kippa úr sambandi, ég var svo ofboðslega hrædd um að vélin færi aftur í gang, þá hefði ég ekkert getað gert. Svo man ég næst eftir mér inni í verkstjórakompunni, höndin var ennþá á mér en allt skinn var farið af henni, ég hélt á henni eins og ég væri í líffræðitíma í skólanum. Ég held að höndin hafi verið óbrotin, eins furðulega og það kann að hljóma en ég var búin að slíta allar taugar og sinar eins og áður kom fram. Það næsta sem ég man var að bróðir minn sem var skipstjóri og var nýkominn í land, labbaði inn á kontorinn og þá bara slökknaði á öllu hjá mér, ég gat sett alla ábyrgðina yfir á hann og hann tók stjórnina. Það kom fljótlega læknir sem stóð sig vel, það voru auðvitað allir í taugaáfalli yfir þessu og svo fór ég eldsnöggt á sjúkrahúsið í Keflavík, þaðan inn á Borgarspítala og á móti mér tók Haukur Árnason, læknir. Það var búið að taka myndir og hann sagði mér fljótlega að það þyrfti að taka höndina af mér. Það var búið að dæla í mig morfíni og einhverju öðru sjálfsagt en samt var sársaukinn þarna orðinn óbærilegur. Þess vegna var ég eiginlega fegin að heyra þetta, hélt að þar með myndi ég losna við sársaukann. Það voru gífurleg vonbrigði þegar ég vaknaði eftir aðgerðina, sársaukinn var sá sami, höndin farin en taugasárs-aukinn var alls ekki farinn. Ég þurfti að liggja fyrir, þá var sársaukinn minni en um leið og ég stóð upp tók hann yfir en smám saman mildaðist hann og maður lærði að lifa með honum, sársaukinn varð í raun hluti af manni. Ég var stutt á spítalanum en þurfti oft að koma til að láta athuga með það sem eftir var af höndinni. Fyrstu vikurnar og mánuðirnir voru mjög erfiðir, ég átti erfitt með að sofa fyrst en eins og ég segi, svo bara vandist þetta einhvern veginn,“ segir Ingibjörg.

Glatt á hjalla hjá mæðgunum (t.v.). Með föður sínum að sauma í við eldhúsborðið (t.h.).

Harkan sex

Ingibjörg er mjög ánægð með hvernig fólkið hennar tók þessu, það var einfaldlega ekki í boði að leggjast í kör og grenja. Ingibjörg hafði í raun val um að líta á þennan nýja veruleika með glasið sitt hálftómt eða hálffullt, síðan þá hefur meira og minna nánast flætt upp úr glasinu hennar.

„Ég var strax drifin á fætur má segja, mér er minnisstætt fyrst eftir slysið þegar við vorum að borða, þegar ég var búin að flysja kartöflurnar voru systkini mín búin að borða. Svo komst ég auðvitað upp á lagið með það og áður en varði var ég búin að borða á sama tíma og systkini mín. Eldri systir mín réði mig strax í vinnu til sín, ég sá um börnin hennar og hjálpaði til við heimilishaldið. Hún kenndi mér t.d. að brjóta saman lök, hvernig henni tókst að kenna mér það og ég einhent er aukaatriði, þetta bara einhvern veginn gekk. Það var klárlega mín gæfa hvernig við tókumst á við þetta, það þurfti einfaldlega að láta dæmið ganga upp og ég þurfti bara að læra að bjarga mér. Það að setja mig í þennan hetjugír bjargaði mér að vissu leyti, ég setti bara undir mig hausinn og tók á því en svo kom eðlilega að skuldadögum síðar meir og þá tók ég á því. Ég fór í Lýðháskólann í Skálholti u.þ.b. einu og hálfu ári eftir slysið, það var frábær tími og ég sá að ég gat lært. Þegar ég var búin með það nám rúmlega tvítug, tók við framhaldsskólaganga en ég var mjög leitandi á þessum tíma, vissi í raun ekkert hvað ég vildi verða þegar ég yrði orðin stór og eftir á að hyggja var ég einfaldlega ekki tilbúin í að fullorðnast. Ég fór í framhaldsskólann í Ármúla, þaðan í Flensborg í Hafnarfirði, flutti svo suður og bjó í Njarðvík um tíma og var í FS. Ég fór eitthvað að vinna og var eins og ég segi, frekar leitandi. Svo varð ég ófrísk og eignaðist Soffíu dóttur mína þegar ég var orðin 27 ára gömul, þá loksins var ég tilbúin að verða fullorðin.“

Kartöflurnar flysjaðar með barnabörnunum. Á innfelldu myndinni er Ingibjörg með Soffíu Bæringsdóttur með dóttur sína, þá tveggja ára.
Ingibjörg með Sigurlínu systur sinni sem hefur alltaf reynst henni stoð og stytta.

Skuldadagar

Ingibjörg flutti heim í Sandgerði þegar hún gekk með Soffíu, réði sig í vinnu í saltfiski og tók þátt í baráttu lífsins eins og aðrir. Um tíma var hún í aukavinnu, sinnti nýja heimilinu sínu í Sandgerði og ól dóttur sína upp en það var alveg ljóst að það kæmi að skuldadögum, hún hafði ekki unnið andlega úr áfallinu forðum og svo hafði hún lent í öðru áfalli og á endanum fékk hún taugaáfall.

„Það var gott að flytja aftur í Sandgerði, þar þurfti ég ekki að sanna mig eins og í Reykjavík, það þekktu mig allir og allt var einfaldara og þægilegra fyrir mig, mitt fólk var líka í Sandgerði. Athyglisvert að spá í því eftir á að þrátt fyrir mína fötlun var enga félagslega aðstoð að fá þá, það eru sem betur fer breyttir tímar í dag. Maður þurfti einfaldlega að redda sér og við mæðgur bjuggum í þrjú ár í Sandgerði en svo kom að því að ég fékk taugaáfall. Þá fluttum við í Reykjavík og ég fór að vinna í mínum málum, það var gott að ég gerði mér grein fyrir að ég þurfti hjálp og ég vissi að ég gæti fengið hana og vinnan hófst. Á svipuðum tíma skráði ég mig í leiklist, það var frábært að hafa það á móti sjálfsvinnunni og ég bý ennþá að leiklistinni. Sjálfsvinnan var erfiðust fyrst en svo kom þetta smám saman og ég myndi segja að ég hafi verið í u.þ.b. tíu til fimmtán ár að ná mér fullkomlega. Ég komst undir það síðasta í ferlinu inn í frábæran skóla sem heitir Hringsjá, þar gat ég bætt við mig fullt af tölvunámskeiðum og öðru hagnýtu námi og fékk svo vinnu þar. Ég hafði verið búin að fara úr einum skóla í þann næsta og kláraði aldrei stúdentinn en þarna fann ég að ég var tilbúin til þess, settist á skólabekk og útskrifaðist sem stúdent árið 2004 frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, tók það nám samhliða vinnunni í Hringsjá. Ég skráði mig svo í Háskóla Íslands árið 2004, þá orðin 43 ára og fór bæði í félagsfræði og vinnumarkaðsfræði. Mér bauðst að taka síðasta árið sem skiptinemi svo ég flutti til Bandaríkjanna í eina önn. Var búin með þetta nám þegar ég var 47 ára og réði mig í vinnu hjá MSS [Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum] í Reykjanesbæ, fyrir utan skrifstofustörfin í Hringsjá var þetta fyrsta vinnan sem ég vann sem var ekki líkamleg, skrýtið að ég einhent hafi allan minn starfsaldur unnið líkamleg störf. Ég tók svo meistarapróf samhliða vinnunni hjá MSS og var endanlega búin með allt nám árið 2011. Þá var ég flutt til Reykjavíkur, vann áfram að hluta til fyrir MSS en hóf svo störf hjá Landspítalanum árið 2012, byrjaði í skjalavinnslu en svo hefur starfið þróast og í dag er ég skrifstofustjóri hjá kviðarholssérfræðingum og er mjög ánægð í því starfi og sé ekki fyrir mér að ég muni breyta til á næstunni. Á sama tíma og ég byrjaði í þessari vinnu hófst nýr kafli hjá mér,“ segir Ingibjörg

Golf með „einari“

Í viðtalinu sem átti sér stað fyrir utan fiskvinnsluhúsið í Sandgerði þar sem Ingibjörg starfaði, fór hún að tala um tilfinningu í höndinni. Þar sem engin hægri hönd er sýnileg hélt blaðamaður að hún væri að tala um vinstri höndina.

„Það að hafa verið með verki sem ég vandist með tímanum, hjálpaði mér í raun því ég náði betra jafnvægi. Ég er alltaf með tilfinningu í lófanum, á góðum dögum get ég rétt úr puttunum. Ég er með tilfinningu fyrir olnboganum, lófunum og puttunum, eins skrýtið og það má hljóma. Þetta eru taugarnar, þetta hefur hjálpað mér mjög mikið og hugsanlega hefði ég ekki getað eignast nýtt frábært áhugamál árið 2012, ef ég hefði ekki haft þessa tilfinningu. Ég tók þessa ákvörðun eftir meistaranámið mitt, ég vildi gera eitthvað skemmtilegt samhliða vinnunni og valið stóð á milli dans eða golfs, sem betur fer valdi ég golfið, dansinn bíður betri tíma. Ég byrjaði bara ein og var frekar feimin, vildi ekki láta neinn sjá mig fyrst. Ég fór fljótlega á námskeið hjá Golfklúbbi fatlaðra og var hjá þeim í tvö ár, spilaði þá Ljúflinginn í Keili sem er par þrjú völlur, í felum má segja. Árið 2014 tók ég svo ákvörðun um að ganga í GKG því ég er upprunalega frá Kópavogi og bjó svo í Garðabæ. Ég spilaði bara minni völlinn, Mýrina, fyrstu tvö sumrin og upp frá því fór sjálfstraustið að koma og þá fór ég að þróa gervihönd með Össuri og mér óx ásmegin á golfvellinum. Ég spilaði mitt besta golf árið 2019 en eftir það fór ég að fara í bakinu því gervihöndin var ansi þung. Því tók ég ákvörðun árið 2022 að leggja höndinni og þá fór ég nokkur skref aftur á bak í golfgetunni, ég var búin að lækka um heila níu í forgjöf en lægst komst ég í 29,2. Það er loksins núna í vetur sem ég er farin að sjá aftur til sólar, það var ekki amalegt að skora 44 punkta og rúlla þér upp!,“ en blaðamaður VF og kylfings.is tóku saman golfhring í golfhermi.

Ingibjörg lætur ekkert stoppa sig. Vinstra megin er Ingibjörg að spila uppáhaldsgolfholu sína, á Tracian Cliff golfvellinum í Búlgaríu og hægra megin er hún að klífa á Vestfjörðum.

„Ég mun spila þetta sumar án gervihandar en ég er búin að hitta mann frá Englandi sem sérhæfir sig í þessum hlutum, það yrði gaman að geta fengið gervihönd sem er léttari en ef ekki veit ég að ég mun njóta golfsins áfram. Ég er hjá frábærum golfkennara, Sigurpáli Geir Sveinssyni hjá GS og svo er ég í frábærum golfhópi sem kallar sig Valkyrjurnar. Við hittumst annað hvert mánudagskvöld yfir veturinn og erum duglegar að spila saman á sumrin. Ef þú spyrð mig um ánægjuna yfir að hafa farið í golfið og skalinn er 1-10, svara ég 15! Það er ekki bara sjálft golfið, allt í kringum þetta er bara æðislegt, frábær félagsskapur, þetta er hreyfing og oftast í fallegu og góðu veðri. Allir golfarar þekkja líklega tilfinninguna að hafa verið týndur í sveiflunni, hversu góð tilfinningin er að finna að hún er að koma aftur. Ég get varla beðið eftir sumrinu!“

Golfhópurinn sem Ingibjörg er í, Valkyrjur.
Stúdent árið 2004.

Uppgjör

Ingibjörg var mjög þakklát fyrir að mæta á gamla vinnustaðinn í Sandgerði, hún er þó enn að vinna úr þessu öllu og þó svo að hún sé komin á frábæran stað andlega, er samt ýmislegt óuppgert.

„Ég er ekki búin að gera þetta allt upp, ég finn það. Mig vantar upplýsingar, það var fyrst núna í febrúar sem ég fékk lögregluskýrslur af slysinu. Það var mjög sláandi, ég hef verið að burðast með sektarkennd yfir þessu í öll þessi ár, sektarkennd því mér finnst ég hafa orsakað þetta slys. Að sjálfsögðu er það þvæla, ég var sextán ára gamalt barn og átti aldrei að fá að vinna á þessari vél og þess vegna var þetta ekki mér að kenna. Það er oft talað um að skila skömminni, ég held að það eigi mjög vel við í mínu tilviki. Ég veit að sumt fólk hefur ekki borið þessa slyss bætur, t.d. tengdamóðir systur minnar sem var verkstjóri og setti mig á vélina, hún jafnaði sig aldrei á þessu og það þykir mér mjög leitt. Það þekktust allir í þessu litla samfélagi og margir áttu bágt yfir þessu, ekki bara ég. Ábyrgðin lá bara ekki hjá þessum aðilum, það voru eigendur fyrirtækisins og Vinnueftirlitið sem áttu og eiga að bera ábyrgð á svona löguðu finnst mér. Lögfræðingurinn sem ég var með á þessum tíma var víst mjög góður en mér finnst ansi nöturleg staðreynd að hafa verið metin til jafns við Skoda bifreið, það var upphæðin sem ég fékk í bætur á sínum tíma, sama og nýr Skoda kostaði. Ég er að skoða þessi mál og ef það er raunhæft að sækja frekari bætur mun ég ekki hika við að gera það, ekki endilega peninganna vegna, heldur bara til að skila skömminni þangað sem hún átti allan tímann heima. Ég ber ofboðslega mikla virðingu fyrir þessari stelpu sem lenti í þessu slysi á sínum tíma, hvernig hún lærði að bjarga sér og er komin á þann stað í dag í lífinu sem hún er á. Þessi stelpa lærði heldur betur að plumma sig en ég veit að hún hefði alveg verið til í að velja aðra leið í lífinu,“ sagði Ingibjörg að lokum.

Með gömlu hjónunum sumarið 2011.