Lét ferma sig 18 ára
Júlíus Viggó Ólafsson stundar nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og er jafnframt formaður NFS, nemendafélags skólans. Hann fermdist borgaralega á vegum Siðmenntar á sínum tíma en þegar hann varð átján ára ákvað hann að láta ferma sig hjá kirkjunni. Okkur lék forvitni á að vita hvers vegna og hér kemur svarið frá Júlíusi Viggó.
Trúði ekki á neitt
„Þegar ég var ungur fékk ég mikinn áhuga á raunvísindum, stjarnfræði, þróunarkenningunni og svo framvegis. Þegar ég var kominn á fermingaraldur var ég kominn á þann stað að ég trúði ekki á neitt nema ef það væri til veraldleg sönnun fyrir því. Þetta leiddi til þess að ég fór að efast um Bíblíuna, sem var mikið átakamál fyrir mig vegna þess að uppeldi mitt var mjög gott og kristilegt. Á endanum var ég staðfastur á því að Guð væri ekki til og að það væri ekkert raunverulegt sem væri ekki veraldlegt. Þess vegna ákvað ég að ferma mig borgaralega.“
Hamingjusamari í dag
Júlíus segir að svona hafi trú hans verið í nokkur ár eða þar til að hann var orðinn sautján ára. „Ég var farinn að finna fyrir örlitlu tómi, eins og getur oft gerst þegar lífið virðist í stóru myndinni tilgangslaust vegna fjarveru æðri máttar. Ég byrjaði í kirkjukór Útskála- og Hvalsnessóknar með móður minni, þó svo að ég væri ennþá trúlaus. Þar kynntist ég bræðrasamfélaginu og kóræfingarnar fóru að vera mjög mikilvægur hluti af vikunni minni, þar sem ég náði að gíra mig niður, taka þátt í litlu og nánu samfélagi og gefa eitthvað af mér. Ég lærði hversu mikilvægur tilgangurinn og heilbrigt kristilegt líferni er fyrir vellíðan manns. Hversu mikilvægt það er að bera ábyrgð gagnvart samfélaginu í kringum sig á sama tíma og það ber ákveðna ábyrgð gagnvart mér. Hvað söfnuðurinn er mikilvæg samfélagsstoð. Það rann upp fyrir mér að ég var hamingjusamari einstaklingur þegar ég fylgdi kristnum gildum og kristilegu siðferði og var ekki miðja alheimsins. Ég hef ekki misst áhuga minn á vísindum eða kastað trú minni á þau á glæ, heldur hef ég fattað að maður þarf ekki að velja annað hvort. Þess vegna ákvað ég að láta ferma mig á átján ára afmælisdegi mínum og hef verið að rækta trú mína núna í meira en ár. Það er ekki alltaf auðvelt en það skilar sér hamingjusamara og betra lífi til lengri tíma.“