Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lestur jólakortanna besta jólastundin
Ragnheiður Elín og fjölskylda taka því alltaf rólega á jóladag. Þá eru ostar, gæsabringur og fleira góðgæti á boðstólum á hádegi.
Föstudagur 25. desember 2015 kl. 09:00

Lestur jólakortanna besta jólastundin

Ragnheiður Elín Árnadóttir og fjölskylda leggja mikið upp úr jólakortunum og skrifa persónulegan texta til hvers og eins. Sjálfri finnst henni afskaplega notalegt að setjast upp í sófa á aðfangadagskvöld, maula smákökur og lesa jólakortin sem þau fá send.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, er íhaldssöm þegar að jólahátíðinni kemur og heldur við þeirri jólahefð foreldra sinna að bjóða upp á rjúpu á aðfangadagskvöld. Þegar samband hennar við eiginmanninn, Guðjón Inga Guðjónsson, komst á alvarlegt stig tók hún af honum það loforð að alltaf yrði rjúpa hjá þeim í matinn á aðfangadagskvöld. Það hefur gengið eftir og árið í ár verður engin undantekning. „Ég er svo heppin að eiga vinkonu sem leyfir manninum sínum að fara á rjúpu ef hún fær að ráðstafa aflanum,“ segir hún og hlær. Ragnheiður og Guðjón eiga tvo syni, 7 og 13 ára gamla og yfirleitt eru þau fjögur saman heima á aðfangadagskvöld. Guðjón á tvær dætur sem voru hjá þeim önnur hver jól áður fyrr. Þær eru nú farnar að halda sín eigin jól með mökum sínum eða eru hjá móður sinni.
 
Ragnheiður ásamt Guðjóni eiginmanni sínum og sonunum þeim Árna og Helga.
 
Útbúa jólakortin sjálf
Ragnheiður ólst upp í Keflavík og segir aðfangadagskvöld hjá fjölskyldunni að mörgu leyti svipað og á æskuheimilinu. „Við vorum alltaf heima á aðfangadagskvöld. Ég er yngst fjögurra systkina og áður fyrr var farið til ömmu og afa en það var hætt þegar ég fæddist. Svo bættust við makar og börn hjá systkinum mínum svo að á endanum var ég ein með mömmu og pabba á aðfangadagskvöld því ég var svo lengi að ganga út.“ Ragnheiður segir gaman að upplifa tilhlökkun og spenning barna sinna þegar jólin nálgast. Þau fjölskyldan gefa sér alltaf góðan tíma til að borða kvöldmatinn á aðfangadagskvöld og sömuleiðis til að opna jólagjafirnar. Eftir það fara þau svo í náttfötin. „Á meðan strákarnir leika sér með jólagjafirnar er uppáhaldið mitt þegar við hjónin setjumst með smákökur og lesum jólakortin. Mér finnst það eiginlega toppa pakkana.“
 
Sjálf leggja Ragnheiður og fjölskylda mikið upp úr því að senda jólakort til vina og ættingja. „Það er alveg sama hvað það er mikið að gera, alltaf sendum við jólakort. Það er margt sem við klikkum á að gera fyrir jólin en aldrei á jólakortunum. Á síðasta kjörtímabili komu varla jól án Icesave og þá voru vinnudagarnir í þinginu oft langir en það skipti engu máli, jólakortin komust til skila.“ Jólakortin útbúa þau sjálf, yfirleitt í tölvunni og hafa myndir af drengjunum sínum á þeim. Í hvert og eitt kort skrifa þau svo persónulegan texta. „Við hjónin erum orðin mjög samhæfð í þessu og leggjum alltaf eldhúsborðið undir framleiðsluna.“
 
Piparkökubakstur hjá fjölskyldunni á dögunum.
 
Eitt sinn safnaði Ragnheiður saman orðum sem minna á jólin og skreytti kortin með þeim. Þetta voru orð eins og mandarínur, hrein rúmföt, jólasveinn og jólatré. Hún bað Árna Þór, eldri son sinn, um hugmynd að orði og hann stakk upp á orðinu ruggustóll. „Hann á fallegan ruggustól sem hann fékk í vöggugjöf frá vinum okkar í Bandaríkjunum. Þegar hann var lítill og við vorum að opna pakkana sátum við hjónin í sitt hvorum stólnum og hann brölti með ruggustólinn sinn inn í stofu og settist á milli okkar. Fyrir honum voru þetta jólin; að sitja í ruggustólnum sínum og opna pakkana.“ Núna er það yngri bróðirinn sem fær sér sæti í ruggustólnum á aðfangadagskvöld.
 
Jóladagur alltaf letidagur
Lítið er um jólaboð hjá stórfjölskyldum Ragnheiðar og Guðjóns og hafa þau það því náðugt á jóladag. „Þá er yndislegur náttfatadagur og ekkert mun breyta því. Strákunum mínum finnst það alveg frábært, sérstaklega hádegisverðurinn. Þá borðum við osta, gæsabringur, gott brauð, eftirréttinn frá kvöldinu áður og drekkum jólablandið úr fallegri könnu.“ Á annan í jólum koma svo dætur Guðjóns í heimsókn. Ragnheiður nýtur þess um jólin að slappa af og lesa bækur. Þau hjónin gefa hvort öðru alltaf bækur í auka-jólagjöf. Bækur eftir Yrsu Sigurðardóttur og Arnald Indriðason hafa verið vinsælar hjá þeim en í ár langar Ragnheiði mest að fá Gildruna eftir Lilju Sigurðardóttur. „Mér finnst gaman að lesa krimma, íslenskar skáldsögur og tæra afþreyingu. Þá þarf ég ekki að einbeita mér of mikið og það er allt í lagi að ég dotti ofan í bókina.“ Þá láta þau engin jól líða hjá án þess að horfa saman á kvikmyndina Love Actually.
 
Gott að flytja aftur í Keflavík
Eins og áður sagði ólst Ragnheiður upp í Keflavík. Eftir það bjó hún í Reykjavík, stundaði nám í Bandaríkjunum og bjó svo síðast í Garðabænum. „Þar bjuggum við í draumahúsinu, vorum meira að segja búin að finna stað fyrir bekkinn sem við myndum sitja á saman í ellinni. Á þessum tíma var ég kjörin á þing fyrir Suðvesturkjördæmi. Svo kom hrunið og kosningar. Þá vildi fólk ákveðnar breytingar í Suðurkjördæmi. Á þeim tíma var yngri sonur minn fimm mánaða og ég hafði ætlað mér að vera lengur í fæðingarorlofi. Þá fór ég að fá símtöl víða að úr Suðurkjördæmi þar sem fólk hvatti mig til að leiða Sjálfstæðisflokkinn í kjördæminu. Ég sagði manninum mínum ekki frá þessu til að byrja með. Ég vissi að þetta myndi þýða flutning. Svo þegar ég nefndi þetta við hann var hann strax til í að flytja til Keflavíkur. Mér fannst nefnilega ekki ganga upp að bjóða sig fram til að leiða kjördæmið og búa svo á Flötunum í Garðabæ.“ Svo leiddi eitt af öðru og þau fjölskyldan fluttu til Keflavíkur árið 2010. Ragnheiður segir það hafa verið einkar notalegt að flytja aftur á æskuslóðirnar. „Eldri sonurinn fór í minn gamla skóla, Holtaskóla og ég þekkti marga kennarana síðan ég var nemandi þar og flesta foreldrana þekkti ég sömuleiðis. Kaja Valdimars tók svo á móti yngri syninum á leikskólanum Gimli. Þetta var allt svo notalegt.“
 
Ragnheiður segir gott að ala börn upp í Reykjanesbæ og að þau séu umkringd góðu fólki. Tvö af systkinum hennar búa einnig í Reykjanesbæ auk fjölda vina. „Hér er gott stuðningskerfi sem heldur vel utan um mann. Ég fann þó aldrei fyrir því að vera utanaðkomandi í Garðabæ eða í Reykjavík en mikið ofsalega var gott að koma heim. Þá fann ég hvað uppruninn skiptir miklu máli.“
 
 
 
Helgi Matthías með afrakstur piparkökubakstursins.
 
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024