Lestrarkeppnin hafin í Reykjanesbæ
- Fjöldi glæsilegra vinninga í boði fyrir duglegustu lestrarhestana.
Árlegri lestrarkeppni var formlega hleypt af stokkunum fyrir helgi. Það gerði Ungmennaráð Reykjanesbæjar með liðsinni bæjarstjóra Reykjanesbæjar, Árna Sigfússyni.
Lestrarkeppnin gengur í stuttu máli út á það að að ungmenni á aldrinum 6 - 18 ára sækja sér bók á Bókasafni Reykjanesbæjar og fá þar lestrarmiða. Þegar þau eru búin að lesa bók, fylla þau út lestrarmiðann og foreldrar skrifa undir staðfestingu þess efnis að ungmennið hafi lesið bókina. Bókinni og lestrarmiðanum er svo skilað a bókasafnið og staðfestringarmiðinn settur í kassa sem staðsettur er hjá starfsfólki bókasafnsins.
Lesa má eins margar bækur og vilji er til, aðrar en námsbækur. Því fleiri bækur, þeim mun meiri möguleiki á að vinna glæsilega vinninga.
Meðal vinninga er fjölskylduárskort í Bláa lónið, ársmiði í Sambíóin, 4 miðar í Borgarleikhúsið, 4 miðar á Samfésballið, reiðhjól og margt fleira.
Tilgangur og markmið með lestrarkeppninni er að auka lestur meðal barna og ungmenna á Suðurnesjum.