Lestrarkeppni Reykjanesbæjar 2014 lokið
Dregið var úr gríðarlegum fjölda staðfestingarmiða.
Frábær þátttaka var í Lestrarkeppni Reykjanesbæjar sem lauk í gær. Keppnin var haldin til að stuðla að auknum yndislestri meðal barna og unglinga í bænum okkar. Ungmennaráð Reykjanesbæjar ýtti verkefninu úr vör 20. febrúar síðastliðinn.
Óljóst er hversu margir tóku þátt en gríðarlegur fjöldi af þátttökumiðum var í kassanum sem börnin skiluðu staðfestingarmiðunum í. Keppnin var einnig á milli skóla og mun páskaleyfið verða nýtt í að yfirfara þá keppni.
Verðlaun fyrir keppnina verða afhent 24. apríl við vígslu í Ungmennagarðinum við 88 húsið, sem hefst kl 15:00. Kristján Freyr Geirsson varðstjóri forvarna hjá lögreglunni tók að sér að hræra í þátttökuseðlunum og þrír 11 ára vinir þeir Rósant Freyr, Gabríel Már og Lárus Logi tóku að sér að draga með bundið fyrir augun.
Vinningar og vinningshafar eru eftirfarandi:
Bókavinningur frá Bókasafninu Emilia Sara í 4 EA í Njarðvíkurskóla og Erna Rós Agnarsdóttir í 6 EH í Holtaskóla. Fjölskyldukort í Bláa Lónið vann Jón Garðar Arnarsson í 2. bekk í Akurskóla. Reiðhjól sigraði Gabríela Beben í 4.SS Myllubakkaskóla. Fjölskyldukort í Bókasafnið hlaut Magnús Máni í 4. bekk í Akurskóla. 4 miðar í Borgarleikhúsið hlaut Nadía Harðardóttir í 5. bekk í Akurskóla. Ársmiða í Sambíóin sigraði Gunnhildur Hjörleifsdóttir í 4 bekk í Myllubakkaskóla.
Sérstakar þakkir fá þeir sem gáfu vinninga í keppnina; Bókasafn Reykjanesbæjar, Bláa Lónið og Sambíóin. Síðast en ekki síst fær Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar þakkir fyrir að styrkja keppnina og með því gerðu þau okkur kleift að láta þetta verða að veruleika. Allir samstarfsaðilar fá einnig kærar þakkir fyrir veitta aðstoð. Lestrarkeppnin er samstarfsverkefni Samtakahópsins, Ungmennaráðs og Bókasafns Reykjanesbæjar.