„Lesblindan hjálpar mér“
– Hljóðfærasmiðurinn Þorkell virkjar leynda hæfileika
Þorkell Jósef Óskarsson, rúmlega fertugur Njarðvíkingur, tók upp á því fyrir tveimur árum að smíða hljóðfæri í skúrnum heima hjá sér. Í smíðarnar notar hann m.a. vindlakassa, hjólkoppa og göngustafi. Þorkell hefur þegar selt nokkur stykki en segist þó aðallega vera að þessu sér til ánægju. Hann segist þó vel getað hugsað sér að kenna börnum hljóðfærasmíði.
„Það sem skiptir mestu máli í svona dútli er gítarhálsinn, bilið á milli haussins og kassans. Það á að vera svipað langt og á venjulegum gítar. Það er samt ekkert heilagt í þessu. Ég nota bara það sem er til,“ segir Þorkell, sem hefur komið sér vel fyrir í skúr við heimili sitt í Reykjanesbæ. Þar má m.a. finna stórt safn af vínylplötum, plötuspilara, hljóðkerfi og ýmsa muni og tól sem notuð eru við smíðarnar. Greinilegt er að Þorkell unir sér vel þarna við sköpun og gjarnan með blústónlist undir nálinni.
Guðmundur Rúnar keypti tvo gítara
Sumir gítaranna eru verðmerktir því þeir voru um tíma til sölu í verslun. Spurður um hvort fólk sé ekki að sækjast í hljófærin hjá honum segist Þorkell vera búinn að selja nokkra og gefa tvo. En um það hvort einhverjir þekktir tónlistarmenn hafi sýnt hljófærunum áhuga svarar hann kíminn: „Já alveg rosalega frægir!“ Hann vill þó ekki gefa út hvort slíkir hafi heldur komið í aðstöðuna til að prófa. „Ég hef farið til listamannsins Guðmundar Rúnars Lúðvíkssonar og hann hefur keypt af mér tvo gítara. Krummi vinur hans hefur líka keypt einn. Guðmundur Rúnar keypti Lödu-hjólkoppa-gítar, tveggja strengja og eins strengja úr göngustaf. Þeir ætla að nota gítarana og ætla líka að koma til mín aftur seinna og kaupa meira. Guðmundur Rúnar vill endilega fá fleiri koppagítara,“ segir Þorkell.
Langar að kenna börnum að smíða hljóðfæri
Þorkell segist einnig hafa áhuga á að miðla þessari þekkingu sinni til barna. „Þetta er bara einn strengur og 'pick-up', þetta er ekkert flókið. Það yrði örugglega skemmtilegt að kenna krökkum að smíða svona. Sjálfur smíðaði hann fyrsta hljóðfærið 2012 og hefur smíðað þrettán. „Ég hef líka smíðað trommukassa, svokallað stompbox. Þá set ég 'pickup' í harðviðarkassa. Magnús, trommuleikarinn í ADHD, keypti trommukassann af mér. Hægt er að stompa á honum, lemja í hann og gera alls kyns hljóð. Svo setti ég líka gamlan gítarmagnara í eldgamlan búning - ferðatösku. Félagi minn, Ingvar í plötubúðinni Lucky Records, á hann núna. Þeir nota hana þar þegar spiluð er tónlist í búðinni.“
Vann lengst af sem smiður
Þorkell á tíu einingar eftir til að klára nám í húsasmíði en hefir meira og minna alla tíð unnið sem smiður. Hann starfar núna sem öryggisvörður. „Ég er ekkert að spá í einhverja framtíð í þessum hljóðfærasmíðum. Ég hef aðallega gaman af þessu.“ Spurður um hvaðan þessir hæfileikar komi er Þorkell fljótur að svara: „Ég held að það sé bara lesblindan, ég sé allt í þrívídd. Þess vegna á ég svona auðvelt með þetta. Ég sé hlutina á borðinu áður en ég smíða þá. Þekking á hljóðfærum þarf ekkert endilega að vera til staðar. Ég hef aldrei spáð í það, ég geri bara hlutina.“ Hann á enn töluvert af hráefni til að smíða í viðbót og kaupir það sem hann þarf m.a. á nytjamörkuðum. „Ég smíða líka kassa sjálfur og á töluvert af hjólkoppum,“ segir Þorkell og tekur einn þeirra upp. „Þessi er af gömlum Benz. Þetta verður einhvern tímann gítar.“