Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lesandi vikunnar: Klassískt að sofna ofan í bókina
Mánudagur 4. júlí 2016 kl. 06:00

Lesandi vikunnar: Klassískt að sofna ofan í bókina

Rithöfundurinn og framleiðandinn Kikka Kr. M. Sigurðardóttir er Lesandi vikunnar

Rithöfundurinn og framleiðandinn Kikka Kr. M. Sigurðardóttir er Lesandi vikunnar þessa vikuna. Bókin sem bjargaði henni úr einsemd var 100 ára einsemd eftir Gabriel García Márquez en henni finnst að allir ættu að lesa hana.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Bókin heitir Handan minninga og er eftir Sally Magnusson. Bókin fjallar um Alzheimer sjúkdóminn og hvernig það breytir öllu þegar náinn ættingi fær sjúkdóminn.

Hver er þín eftirlætis bók?
Þær eru nokkrar; Birtingur eftir Voltaire, Aulabandalagið eftir John Kenny Toole, Vinur minn prófessorinn eftir Lucilla Andrews. Það er ástarsaga sem til var heima hjá mér þegar ég var ung og var lesin aftur og aftur og aftur. Einnig verð ég að nefna Lastafans og lausar skrúfur eftir Diddu.

Hver er eftirlætis höfundurinn þinn?
Sigurlaug Didda Jónsdóttir

Hvernig bækur lestu helst?
Ljóðabækur og skáldsögur

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?
Það er bókin Kvennaklósettið eftir Marilyn French. Hún kveikti á femínistanum í mér. Einnig verð ég að nefna bókina Benjamín dúfa eftir Friðrik Erlingsson, ég grét svo mikið.

Hvaða bók ættu allir að lesa?
Það eru tvær bækur sem mér dettur í hug. 100 ára einsemd eftir Gabriel García Márquez en sú bók bjargaði dvöl minni á Tálknafirði þegar ég vann þar í fiski 19 ára gömul. Vinkona mín sendi mér bókina og bjargaði einsemd minni, sem var auðvitað eins og 100 ár! Einnig verð ég að nefna bókina Salka Valka eftir Halldór Kiljan Laxness.

Hvar finnst þér best að lesa?
Upp í rúmi – að sofna ofan í bókina er klassískt!

Hvaða bækur standa upp úr sem þú vilt mæla með?
Frøken Smillas fornemmelse for sne eftir Peter Høeg, Skólaljóðin gömlu, ljóðasafn Þórarins Eldjárns og allt efni eftir Lindu Vilhjálms, Sigurlaugu Diddu Jónsdóttur og Elísabetu Jökuls.

Við þökkum Kikku kærlega fyrir og bendum á heimasíðu bókasafnsins þar sem hægt er að skrá sig eða mæla með Lesanda vikunnar!

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024