Leonard tendraði jólaljósin í Reykjanesbæ - myndir
Fjöldi bæjarbúa mættu við tendrun jólaljósanna í Reykjanesbæ í byrjun aðventunnar þrátt fyrir mikinn kulda. Leonard Ben Evertsson, nemandi í 6. bekk Akurskóla, kveikti á jólaljósunum á fallegu jólatré sem vinabærinn Kristiansand gefur og hefur gert í áraraðir.
Jóhann F. Friðriksson, forseti bæjarstjórnar flutti stutt ávarp þar sem hann færði vinabænum í Noregi þakkir en á undan lék Blásarasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Eftir tendrun jólaljósanna komu Jóladýrin í Hálsaskógi í heimsókn og skemmtu börnunum. Jólasveinar kíktu svo í heimsókn og heilsuðu upp á börnin og dönsuðu með þeim í kringum stóra jólatréð. Gestir gátu yljað sér á heitu kakói og það rann út í kuldanum.
Hér eru nokkrar myndir en fleiri í myndasafni með fréttinni.