Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Léku með Ungsveit Sinfóníuhljómsveitarinnar
Kampakát eftir tónleikana: Rut, Magnús og Bergur voru að vonum ánægð eftir tónleika Ungsveitarinnar. Á myndina vantar Rozalia.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 13. október 2021 kl. 08:53

Léku með Ungsveit Sinfóníuhljómsveitarinnar

Þrír núverandi nemendur og einn fyrrverandi úr Tónlistarskóla Reykjanesbæjar voru meðal hljóðfæraleikara sem skipuðu Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands þegar hún hélt tónleika síðasta sunnudag í september í Eldborgarsal Hörpu undir stjórn Evu Ollikainen, aðalstjórnanda Sinfóníu­hljómsveitar Íslands. Efnisskráin var Sinfónía nr. 2 eftir Jean Sibelius.

Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands er skipuð færustu ungmennum úr tónlistarskólum landsins og þurfa nemendurnir að þreyta inntökupróf til að vinna sér sæti í hljómsveitinni. Að þessu sinni var Ungsveitin skipuð um 80 hljóðfæraleikurum og voru þrír þeirra úr Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, þau Bergur Daði Ágústsson sem lék á trompet, Magnús Már Newman spilaði á pákur og Rozalia Mietus á fiðlu. Þá lék sellóleikarinn Rut Sigurðardóttir einnig með hljómsveitinni en hún er fyrrverandi nemandi skólans.

Haraldur Árni Haraldsson, skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, varð meðal viðstaddra tónleikagesta og hann var að vonum stoltur af nemendum sínum:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það var sérlega ánægjulegt að vera viðstaddur tónleika í Eldborg í Hörpu síðastliðinn sunnudag, þar sem Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands flutti Sinfóníu nr. 2 eftir finnska tónskáldið Jean Sibelius. Á sviðinu voru saman komin um 80 ungmenni úr íslenskum tónlistarskólum, fullmönnuð sinfóníuhljómsveit, sem lék þessa áheyrilegu sinfóníu af öryggi og músíkalskri túlkun undir stjórn Evu Ollikainen, aðalstjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Nemendur Tónlistarskólans stóðu sig frábærlega vel, höfðu undirbúið sig af kostgæfni undir traustri handleiðslu kennara sinna og skiluðu sínu hlutverki af stakri prýði en til þess að öðlast sæti í hljómsveitinni í hverri verkefnalotu þurfa nemendur að standast prufuspil eins og um atvinnumenn sé að ræða.“

Frá tónleikum Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborgarsal Hörpu. Ljósmynd: Hari


„Ekki mjög vinsæl tómstund að fara með ömmu og afa á Sinfóníutónleika“

Magnús Már Newman, nemandi í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, steig sín fyrstu skref með Sinfóníunni í lok september þegar hann lék á pákur með Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands en hann hefur sótt tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar í Hörpu síðan hann var um tíu ára aldurinn. Það er draumur Magnúsar að leika klassíska tónlist með Sinfóníuhljómsveit Íslands í framtíðinni.
Magnús að æfa sig á pákurnar í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. VF: JPK

Hvenær byrjaðir þú að undirbúa fyrir inntöku í Sinfóníuhljómsveitina?

„Ég fékk að vita af þessum prufum í apríl, maí og fór í áheyrnarprufu í byrjun júní. Ég fékk strax að vita að ég fengi að taka þátt og þá fór stór hluti af sumrinu í það að vera hérna [í tónlistarskólanum] og æfa. Ég hlustaði í vinnunni og ef ég var ekki að vinna þá var ég hér. Það tók smá tíma að byggja upp þolið því ég hef aldrei spilað í svona stórum sal eins og í Hörpu, þá þarf að spila hærra og slá fastar. Aðalpákuleikari Sinfóníuhljómsveitarinnar lét mig alveg vita það að þetta myndi snúast að miklu leyti um úthald, það væri það sem ég þyrfti að æfa.

Svo voru fyrstu æfingar hjá Ungsveitinni um miðjan september, þá tóku við tvær vikur af ströngum æfingum og svo tónleikar í lok mánaðar.“

Magnús byrjaði í hljóðfæranámi í fjórða bekk, tók blokkflautunám í þriðja bekk eins og aðrir en hóf slagverksnám í þeim fjórða.

„Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega mikið á pákum, aðeins í lúðrasveit, en það er ekki fyrr en núna að ég fór að leggja meiri áherslu á pákuna og stefni á að halda áfram að spila með Sinfóníuhljómsveitinni.“

Hefurðu stefnt lengi að því?

„Nei, ekkert sérstaklega. Ég hef hins vegar alltaf haft mjög gaman af klassískri tónlist og síðan í svona fimmta bekk hef ég farið reglulega með ömmu og afa í Hörpuna til að hlusta á Sinfóníuhljómsveitina spila. Það er alger draumur að fá að spila klassíska tónlist með Sinfóníuhljómsveitinni.“

Það eru varla margir jafnaldrar þínir sem fara með ömmu sinni og afa á tónleika með Sinfóníuhljómsveitinni í Hörpu, er það?

„Það er ekki mjög vinsæl tómstund að fara með ömmu og afa á Sinfóníutónleika,“ segir Magnús og hlær. „Hlusta á Tchaikovsky eða eitthvað.“

Magnús hefur ekki aðeins tónlistina að áhugamáli, hann er einnig liðtækur fótboltamaður og er leikmaður í öðrum flokki hjá Keflavík. Hann tók sér frí frá fótboltanum í þessar tvær vikur sem æfingar stóðu yfir hjá Ungsveitinni. „Tímabilið var að verða búið og ég lét þjálfarann bara vita að ég yrði að einbeita mér að þessu verkefni. Það var bara farið beint í bæinn eftir vinnu,“ sagði framtíðarpákuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands að lokum.