Leitumst við að veita góða þjónustu
Framhaldsnám í heimabyggð.
Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum hefur rekið útibú og kennsluaðstöðu að Víkurbraut 56 í Grindavík frá árinu 2010. Ragnheiður Eyjólfsdóttir verkefnastjóri hjá MSS heldur utan um daglegan rekstur útibúsins og eru Grindvíkingar hvattir til að kynna sér námsframboðið hverju sinni.
Góðar viðtökur heimafólks
„Þumalputtareglan er í rauninni sú að við getum boðið upp á allskonar námskeið í Grindavík ef við náum að lágmarki 10-12 manna hóp og námskeiðin fara þá af stað ef næg þátttaka næst. Þetta er t.d. stórsniðugt tækifæri fyrir fyrirtæki sem vilja halda námskeið fyrir sinn starfsmannahóp. Einnig eru alltaf í boði íslenskunámskeið fyrir útlendinga í Grindavík,“ segir Ragnheiður Eyjólfsdóttir, verkefnastjóri hjá MSS. Hún segir mjög flottan hóp hafa verið að taka Menntastoðir hjá MSS í Grindavík í vetur og greinilegt sé að Grindvíkingar eru farnir að nýta sér sniðugt tækifæri til að taka framhaldsskólamenntun í sinni heimabyggð. „Þetta er annar hópurinn sem lýkur þessari námsleið í Grindavík og þar með má sjá að námið er að festa sig í sessi hér. Dæmi eru um að þátttakendur hafi komið frá Hafnarfirði og Reykjavík til að sitja þetta nám en nú sjáum við einnig góða tengingu fyrir íbúa í Þorlákshöfn og jafnvel Hveragerði að slást í hópinn, þar sem Suðurstrandarvegurinn tengir okkur við það svæði.“
Einbeittir nemendur MSS.
Menntastoðir fyrir fullorðna nemendur
Menntastoðir eru ætlaðar fullorðnu fólki sem hefur ekki lokið formlegri framhaldsmenntun en stefnir á frekara nám. Ef fólk tekur Menntastoðir og svo háskólastoðir Keilis eða frumgreinadeildir annarra háskóla þá er það ígildi stúdentsprófs og gerir fólki kleift að sækja um háskólanám. Ragnheiður segir að skráning sé þegar hafin fyrir haustönn 2014 í Menntastoðum. Dreifinám Menntastoða sé nám í 10 mánuði. Kennt verði frá klukkan 15:00 til 20:30 einn virkan dag og frá 09:00 til 15:00 tvo laugardaga í mánuði. „Dreifinám hefst að nýju í ágúst 2014 og er opið fyrir umsóknir nú þegar. Kennsluhættir Menntastoða miða við þarfir fullorðinna nemenda og leitast er við að veita nemendum góða þjónustu. Þannig skipa sjálfsefling, námstækni og hópefli stóran þátt í skólastarfinu,“ segir Ragnheiður. Helstu námsgreinar eru stærðfræði, íslenska, upplýsingatækni, enska, danska, námstækni og bókfærsla.
Húsnæði MSS í Grindavík.
Grafísk hönnunarsmiðja og fleira
Ragnheiður segir að annað ótrúlega spennandi og hagnýtt námskeið verði auglýst í haust, Grafísk hönnunarsmiðja. „Þar er í boði hagnýtt verklegt nám þar sem kennt er á Adobe forritin Photoshop (myndvinnsla), Illustrator (teikning) og InDesign (umbrot). Námskeiðið byggist á verklegum æfingum í tölvu þar sem þátttakendur vinna á þessi stórskemmtilegu forrit.“ Hún segir að búið sé að útskrifa tvo hópa í Grindavík úr Grafískri hönnunarsmiðju og fólk hafi verið virkilega ánægt með námskeiðið. Þá sé enn fleira á dagskrá í haust. „Sem dæmi um námskeið sem komin eru á viðburðadagatalið í Grindavík, utan þess sem þegar er talið upp, í haust eru íslenska fyrir útlendinga 1 og 2 (líka fyrir lengra komna ef þannig hópur myndast), vín og tapas og svo verður Ebba Guðný Guðmundsdóttir með námskeiðið Hollara jólanammi.“ Hægt er að koma við á skrifstofunni, skoða nýja vefsíðu MSS, senda fyrirspurnir í gegnum tölvupóst á [email protected] eða hafa samband í síma 412-5967.
VF/Olga Björt