Leitað eftir hollvinum
Hollvinafélag Menningarseturs að Útskálum í Garði var stofnað 24. maí 2005. Markmið félagsins er að auka tengsl almennings við Menningarsetrið og vera farvegur fyrir velvilja og stuðning við uppbyggingu þess.
„Áhuginn beinist að því að vekja Útskála og gefa þeim hlutverk í nútímasamfélaginu,“ sagði Hörður Gíslason formaður hollvinasamtakanna. Nú þegar eru félagsmenn um eitt hundrað og leitað er að nýjum félögum. „Hollvinirnir hafa fyrst og fremst áhuga á því að styðja við starfsemina sem verður í gamla prestshúsinu að Útskálum,“ sagði Hörður en á setrinu bjó presturinn áður fyrr og voru setrin ekki einvörðungu vettvangur trúarinnar heldur líka atvinnu, mennta og félagslífs.
„Á prestsetrinu kemur til með að vera sýning og starfsemi sem sýnir líf og störf sem voru á prestsetrum fyrr á öldum,“ sagði Hörður en Hollvinasamtökin leita eftir hollvinum sem hafa hug á að leggja félagasamtökunum lið hvort sem það sé með frjálsum framlögum eða fróðleik. „Það skiptir miklu máli að fá sem flesta með í verkefnið og við leitum til allra sem tengjast Útskálum eða vilja tengjast þeim,“ sagði Hörður að lokum.
Hægt er að gerast hollvinur á vefsíðunni www.utskalar.is eða í símum 422 7376 eða 895 7376. Á vefsíðunni eru ítarlegar upplýsingar um fyrirhugaða starfsemi og framgang verkefnisins.